31.3.2008 | 10:37
Heyr, heyr!
Skynsamleg ályktun, sjá http://vb.is/?gluggi=frett&flokkur=1&id=41205
30.3.2008 | 10:20
Kaffið á Tenerife
Eftir tæplega vikudvöl á Tenerife, þeirri ágætu og fögru eyju, hefur mér enn ekki tekist að fá sæmilegt kaffi, hvað þá gott kaffi og þaðan af síður afbragðsgott kaffi eins og í Kaffi Tári.
Þetta er óttalegt sull, bragðdauft og vélrænt. Skásta kaffið var sterkt Neskaffi hjá breskum hjónum sem reka hér krá skreytta Newcastle fótboltamerkjum í bak og fyrir.
Ég er sannfærður um að það væri hægt að gera það gott með því til dæmis að semja við Kaffi Tár um að opna frá þeim útibú. Ég set þessa hugmynd hér með á flot hverjum sem er til frjálsra afnota. E.t.v. ekki galinn vettvangur fyrir stjórnmálamenn sem vilja skipta um starfsvettvang einhverra hluta vegna.
Þeir hafa sumir góðan smekk fyrir kaffi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
28.3.2008 | 10:46
Einkaleyfi á íslenskri náttúru
Það er reyndar dálítið kúnstugt að það skuli vera hægt að sækja um og fá einkaleyfi á að rannsaka og nýta íslenska náttúru ef ætlunin er að virkja fallvötn eða jarðhita en útilokað ef ætlunin er að nýta verðmæt náttúrusvæði með verndun þeirra. Öðru fremur sýnir þetta viðhorf stjórnvalda sem þar til nú hafa ekki talið náttúruna til raunverulegra verðmæta.
Með umsókninni fylgdi greinargerð þar sem ég gerði grein fyrir þeim verðmætum sem ég hugðist rannsaka. Þessum verðmætum má skipta í þrennt: 1) verðmæti svæðanna sjálfra óháð nýtingu þeirra, 2) verðmæti svæðanna fyrir a) ímynd Íslands og b) sjálfsmynd þjóðarinnar og 3) þeim verðmætum sem má fá út úr ýmiss konar nýtingu þeirra samhliða verndun þeirra.
Hugmyndin var að ef í ljós kæmi að Brennisteinsfjöll hefðu til dæmis verndargildi í sjálfu sér fengi ég greitt fyrir þá þjónustu að vernda þessa auðlind þjóðarinnar fyrir komandi kynslóðir. Ef auk þess kæmi í ljós að Brennisteinsfjöll skiptu máli fyrir ímynd og sjálfsmynd lands og þjóðar fengi ég nokkurs konar stefgjöld í hvert skipti sem myndir af þeim yrðu notaðar í auglýsingarskyni eða fjöllin sjálf veittu skáldi innblástur svo dæmi séu tekin.
Í þriðja lagi fengi ég svo einkaleyfi til að minnsta kosti nokkurra áratuga á því að nýta svæðið sem til dæmis eldfjallaþjóðgarð, selja útivistar- og ferðaþjónustufólki leyfi til að ganga þar um, veita kynningu og fróðleik um eldstöðina og alla hugsanlega þjónustu við þá sem kynnu að hafa áhuga á að sækja þetta einstaka náttúrusvæði heim.
Það sem varð til að rifja þessa umsókn mína upp fyrir mér er einkum tvennt. Annars vegar blogg Hlyns Þórs Magnússonar á Eyjunni um að REWE Group, sem er eitt af stærstu verslunarfyrirtækjum Evrópu, myndskreytti með Gullfossi nýja auglýsingarherferð þar sem það segir heiminum að í framtíðinni muni fyrirtækið aðeins nota græna orku til starfsemi sinnar.
Hitt er sú umræða sem upp á síðkastið hefur verið að vakna um hvort og með hvaða hætti væri hægt að taka upp gjald af þeim sem sækja náttúru landsins heim og vilja geta gengið að henni vísri.
Sjálfum finnst mér þetta ekkert feimnismál. Þegar fólk er búið að verja tugum þúsunda í útivistarfatnað, taka sér frí frá vinnu, kaupa eldsneyti á bílinn og vistir til ferðarinnar er undarlegt ef ekki er hægt að sjá af nokkrum krónum til að tryggja að það sem er kveikja ferðarinnar - náttúran sjálf - verði örugglega til staðar þegar komið er á leiðarenda.
Hér er brýnt verkefni fyrir ríkisstjórn og Alþingi. Hér er um að ræða mál sem ekki aðeins snýst um náttúruvernd heldur líka hagsmuni ferðaþjónustunnar, útivistarfólks og ímynd landsins.
Innan Sjálfstæðisflokksins hafa ýmsir haldið því fram að einkaréttur væri forsenda þess að vel væri farið með verðmæti. Sé það ríkjandi skoðun lýsi ég mig hér með reiðubúinn að endurnýja umsókn mína um rannsóknarleyfi á 10 náttúrusvæðum Íslands.
Að sjálfsögðu með því skilyrði að ég fái einkarétt á nýtingu þeirra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.3.2008 | 22:07
Meðan Róm brann spilaði Neró á sítar og söng

Peningamálastefnan og hagstjórn undanfarinna ára hafa fengið fullnaðardóm.
Davíð Oddsson var forsætisráðherra þegar peningamálastefnunni var komið á og bar meginábyrgð á þeim hagstjórnarmistökum sem gerð voru á síðasta kjörtímabili.
Nú situr hann í svörtu höllinni við Arnarhól.
Skyldi hann kunna á sítar?
![]() |
Fjármálastofnanir skortir traust |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.3.2008 | 11:17
Orkunni lofað á marga staði
Orku OR virðist hafa verið lofað víða.
100 MW eru bundin samningi við Helguvíkurálver en til viðbótar skrifaði OR undir viljayfirlýsingu um að útvega um 75 MW til viðbótar. Nú hefur OR skrifað undir viljayfirlýsingu um að útvega REC Group 185 MW til verksmiðju sem þarf 350 MW í allt.
OR stefnir að því að virkja í Henglinum rúmlega 300 MW á næstu árum. Inni í þeirri tölu er Bitruvirkjun (135 MW) sem er afar umdeild framkvæmd. Ekki verður séð hvernig Ólafur F og Ásta Þorleifsdóttir varaformaður OR geta skrifað upp á þá framkvæmd.
Ef báðar viljayfirlýsingarnar og samningurinn vegna Helguvíkurálversins er lagt saman er niðurstaðan sú að OR ætlar að útvega þessum tveimur aðilum um 350 MW. Ef ekki verður virkjað í Bitru og frá eru dregin þau 100 MW sem eru bundin samningi vegna Helguvíkurálvers á OR hins vegar aðeins rúmlega 65 MW eftir til að standa við viljayfirlýsingar upp á 260 MW!
250 þúsund tonna álver í Helguvík þarf 435 MW
Samkvæmt viðtali við Júlíus Júlíusson hjá HS í Morgunblaðinu í gær telur HS sig geta útvegað 170-185 MW. Auk þess á HS rannsóknarleyfi á Krýsuvíkursvæðinu. Gallarnir við Krýsuvíkursvæðið sem orkuuppsprettu fyrir álver í Helguvík eru einkum tveir.
1) Tilraunaborholur hafa leitt í ljós að svæðið er alls ekki jafn orkuríkt og talið var í upphafi og 2) Sveitarfélögin Hafnarfjörður, Vogar og Grindavík sem eiga orkulindirnar eru síður en svo hrifin af því að orkan sé leidd af svæðinu og út í Helguvík.
Það er því fullkomlega óvíst að þessi orka standi álveri í Helguvík til boða og ekki fær betur séð en að aðeins sé búið að tryggja 100 MW frá OR og 170-185 MW frá HS. Samtals 270-285 MW og því vantar 150-165 MW upp á að búið sé að tryggja 250.000 tonna álveri í Helguvík þá orku sem til þarf.
Kapallinn gæti gengið upp ef
Hætt verður við álver í Helguvík en þá losna 100 MW hjá OR sem dugar langleiðina til að efna viljayfirlýsingu gagnvart REC Group. Reyndar finnst mér glapræði af OR að ætla að lofa svo mikilli orku til eins aðila en það er annað mál.
Ef hætt verður við álver í Helguvík losna 170-185 MW hjá HS sem t.d. verður hægt að selja til gagnavera eða iðnaðar sem ekki þarf jafn mikla orku og álver. Verner Holdings gætu þannig hæglega notað orku frá HS í stað rafmagnsins sem Landsvirkjun skrökvaði svo eftirminnilega um daginn að útheimti virkjun í Þjórsá.
Enn væri þó ósvarað hvað Hafnarfjörður, Grindavík og Vogar vilja gera við sína orku en ekkert bendir til þess að skortur verði á fyrirtækjum sem vilja nýta umhverfisvæna orku Suðurlinda ef hún verður þá virkjanleg á annað borð.
Einnig er ósvarað hvaðan á að taka afganginn af þeirri orku sem REC Group vantar fyrir verksmiðju í Þorlákshöfn. Líklega verður Landsvirkjun fljót að svara því til að nauðsynlegt sé að virkja í Þjórsá.
![]() |
REC Group til Ölfuss |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.3.2008 | 19:58
Fer ekki fyrir brjóstin á mér!
Af heilum hug styð ég baráttu kvenna og karla fyrir jöfnum rétti beggja til að ganga um berbrjósta í sundi. Sé enga ástæðu til að banna ber konubrjóst frekar en mín eigin. Margir karlar eru með stærri brjóst en konur, þótt stærðin skipti auðvitað ekki máli í þeim efnum frekar en mörgum öðrum.
Ég sé ekkert dónalegt við það að konur njóti sundferða berar að ofan. Mér hefur reyndar alltaf fundist það dálítið skondinn tvískinnungur að berbrjósta kona í sundi uppi á Íslandi valdi því að fólk roðni niður í tær en um leið og hún er komin úr á sólarströnd er sama fólki innilega sama.
Svo erum við að agnúast út í múhameðstrúarmenn og höfuðklúta!
Einu sinni las ég um danska rannsókn sem sýndi að það yki lífsgleði eldri manna og lengdi líf þeirra að horfa á ber konubrjóst í nokkrar mínútur á dag. Þetta er því ekki bara spurning um mannréttindi heldur líka heilsuvernd. Eitthvað sem Guðlaugur Þór ætti að athuga!
Þó kunna einhverjir að vitna í skáldið góða sem sagði:
Fegurðin er hálfu meiri ef hulin er
því andann grunar ennþá meira en augað sér.
![]() |
Bannað að bera brjóstin í Hveró |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.3.2008 | 15:08
Hvað er auðlind?
Hefur Sigurjón áhyggjur af því að við skulum ekki virkja Gullfoss? Vill hann virkja Jökulsá á Fjöllum? Brennisteinsfjöll, Grændal, Langasjó og Þjórsárver? Allt eru þetta orkuauðlindir en jafnframt er mikil auðlind fólgin í óraskaðri náttúru þessara svæða.
Staðreyndin er sú að hér er göslast áfram með virkjanir, álver og línulagnir án þess að þau náttúruverðmæti hafi verið metin sem fórnað er. Skuldug sveitarfélög og bæjarstjórar með ráðherraglampa í augum beita ósvífnum trixum til að koma framkvæmdum eins langt áfram og hægt er án tilskilinna leyfa og án þess að allar upplýsingar liggi fyrir í þeirri von að þegar staðreyndirnar liggja fyrir geti þeir sagt; "við erum komin svo langt, þið farið ekki að stoppa okkur núna!"
Við verðum að temja okkur ný og betri vinnubrögð. Við verðum að vita verðmæti þess sem til stendur að fórna og við verðum að gera okkur grein fyrir því að verndun verðmætra svæða er oft og iðulega besta nýting þeirra.
Sú kynslóð er sem betur fer á leið út úr pólitík sem telur náttúru landsins einskis virði nema búið sé til úr henni kjöt eða rafmagn. Sigurjón ætti að sleppa því að gera áhyggjur þeirra að sínum. Reyndar hélt ég að Sigurjón liði engan áhyggjuskort.
Landsbankinn hefur öðrum bönkum frekar lánað gegn veði í íslenskum fasteignum. Af fúsum og frjálsum vilja. Kannski veldur lækkandi gengi krónunnar og íslenskra fasteigna því að bankastjórinn óttast nú afdrif bankans. Að halda áfram að tala óvandaðar ákvarðanir um framkvæmdir á verðmætum náttúrusvæðum mun ekki bjarga neinu.
Afréttarar eru ekki heilbrigðisvottorð. Auðlindir eru margs konar og við megum ekki gleyma þeirri auðlind sem fólgin er í náttúru landsins og þekkingu fólksins (m.a. í bönkunum). Fleira er matur en feitt ket.
![]() |
Áhyggjuefni að sumir vilji ekki nýta auðlindir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.3.2008 | 12:31
Ágúst í Bakkavör
Morgunblaðið birti viðtal við Ágúst í Bakkavör um helgina. Hann var spurður út í efnahagsástandið og horfurnar framundan. Ágúst sagði:
Þetta hefur verið fyllirí og nú er kominn tími til að taka út timburmennina. Allt tal um nýtt álver eða stóriðju er eins og að teygja sig eftir flöskunni að morgni og fá sér afréttara. Það mun aðeins fresta timburmönnunum, sem koma óhjákvæmilega fyrr eða síðar. Það veltir enginn fyrir sér vaxandi útgjöldum ríkisins, þar sem enginn virðist sjá þörfina á ráðdeild eða aðhaldi. Það þýðir einfaldlega ekki að velta vandanum vandanum á undan sér, menn þurfa að takast á við hann og ástandið verður erfitt í eitt til tvö ár á meðan við erum að trappa okkur niður. En til langs tíma trúi ég því að grunnforsendur efnahagslífsins séu í góðu lagi og við munum smám saman sigla út úr þessu ástandi.
Mikið til í þessu.
![]() |
Krónan í frjálsu falli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.3.2008 | 15:46
Einn góður!
Konan svaraði: Þú ert í loftbelg sem svífur í 10 metra hæð, milli 40. og 41. Norðlægrar breiddargráðu og milli 59. og 60. Vestlægrar lengdargráðu.
Þú hlýtur að vinna við tölvur, sagði loftbelgsmaðurinn.
Það geri ég, svaraði konan. Hvernig vissirðu það ?
Nú, svaraði maðurinn, allt sem þú sagðir mér er tæknilega rétt, en ég hef ekki hugmynd um hvaða gagn er af þeim upplýsingum, og reyndar er ég enn villtur. Satt að segja þá hefur ekki verið mikil hjálp frá þér. Ef eitthvað er þá hefurðu helst tafið ferð mína.
Konan svaraði: Þú hlýtur að vinna við stjórnun.
Já, sagði maðurinn. En hvernig vissir þú það?
Nú, sagði konan, þú vissir hvorki hvar þú ert né hvert þú ert að fara.
Eintómt loft hefur komið þér þangað upp sem þú ert. Þú gafst loforð sem þú hefur ekki hugmynd um hvernig á að efna og þú ætlast til þess að fólk fyrir neðan þig leysi þín vandamál. Reyndar ertu í sömu stöðu og þegar við hittumst, en nú er það einhvern veginn mín sök.
14.3.2008 | 15:22
Ungir jafnaðarmenn álykta
Framkvæmdastjórn Ungra jafnaðarmanna og stjórn Ungra jafnaðarmanna á Suðurnesjum sendu frá sér ályktun gegn álveri í Helguvík. Jafnframt var fullum stuðningi lýst við Þórunni Sveinbjarnardóttur Umhverfisráðherra. Þar segir m.a:
Í fyrsta lagi hafna Ungir jafnaðarmenn frekari uppbyggingu mengandi áliðnaðar á Íslandi og telja að landsmenn ættu að einbeita sér að því að auka fjölbreytni íslensks atvinnulífs í stað þess að hlaða áfram í hina yfirfullu álkörfu.
Hvað varðar Helguvík sérstaklega eru engin tæk rök fyrir að hefja þar framkvæmdir og því sýna sveitarstjórnirnar mikið ábyrgðarleysi. Mikið vantar upp á að orka til framkvæmdanna og flutningur hennar sé tryggður og í því sambandi óljóst um afstöðu nágrannasveitarfélaga. Þá hefur umhverfisráðuneytið ekki lokið við að úrskurða um kæru Landverndar þar sem farið er fram á heildstætt umhverfismat fyrir álverið, orkuöflun og orkuflutninga til þess. Þessar framkvæmdir á suðvesturhorninu núna verða ekki til þess að auðvelda fyrir öðrum byggðum landsins og verða síst til þess að hraðar gangi að lækka hina fáránlegu háu vexti, verðbólgu og gengissveiflur sem íslensk heimili og fyrirtæki búa við.
Síðast en ekki síst hefur ekki verið aflað losunarkvóta fyrir mengunina frá álveri í Helguvík en Ísland hefur þar afar lítið rými til viðbótar. Það beinlínis blasir við að þarna þarf að taka í taumana og er þeim orðum beint jafnt til hlutaðeigandi sveitarstjórna, ríkisstjórnar og Alþingis. Að lokum vilja Ungir jafnaðarmenn taka skýrt fram að þeir hafna alfarið þeirri afstöðu að gera megi Ísland að nýlendu fyrir mengandi stóriðju, á þeim forsendum að landið búi yfir endurnýjanlegum orkugjöfum.
Það vekur athygli að Ungir jafnaðarmenn á Suðurnesjum taki svo eindregna afstöðu gegn álveri í heimabyggð sinni. Það kemur mér þó ekki á óvart því þetta passar einmitt við það sem ég hef haldið fram - að ungt fólk sér framtíð sína í öðru en kerskálum.
![]() |
Ungir jafnaðarmenn andvígir álveri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |