3.5.2007 | 15:10
Er bannað að spyrja?
Það hefur verið dálítið magnað að fylgjast með þessu máli. Auðvitað vekur það spurningar þegar stúlka nátengd ráðherra fær tafarlausa afgreiðslu um íslenskt ríkisfang vegna óþæginda við að ferðast á milli skóla í Bretlandi og tendafjölskyldunnar á meðan fjöldi manns sem hafa mun ríkari rök fyrir óskum sínum þarf að bíða árum saman. Og mega þá fjölmiðlar ekki spyrja? Það er undarlegt.
Kastljós færir hér mjög góð rök fyrir sínu máli og skilur okkur eftir með ýmsar spurningar.
Yfirlýsing Kastljóss:
Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra sendir frá sér yfirlýsingu þar sem hún segist hafa setið undir ásökunum Kastljóss. Hún spyr hvort Kastljósið láti misnota sig með því að koma höggi á hana og Framsóknarflokkinn í aðdraganda kosninga.
Því er fyrst til að svara að Kastljós er ekki misnotað af neinum.
Í Kastljósi var bent á að ung stúlka frá Gvatemala sem er búsett á heimili ráðherrans fékk ríkisborgararétt á aðeins 10 dögum þegar venjan er að slík afgreiðsla taki fimm til tólf mánuði.
Í þættinum kom fram að stúlkan taldi að íslenskur ríkisborgararéttur gæti auðveldað henni að stunda nám erlendis því það skapaði henni vandamál að þurfa að sækja um dvalarleyfi í hvert skipti sem hún kæmi hingað til lands í skólafríum.
Í Kastljósi var sýnt fram á það að stúlkan hefði dvalið í landinu í 15 mánuði þegar hún fékk íslenskt ríkisfang.
Einnig kom fram að fólki með veigameiri ástæður var hafnað á sama tíma.
Aldrei var sagt að Jónína hefði beitt sér í málinu heldur vakin athygli á óvenjulegri afgreiðslu málsins. Þegar við bætist að stúlkan býr á heimili umhverfisráðherra er full ástæða fyrir fjölmiðla að spyrja spurninga.
Rétt er hjá Jónínu að stúlkan fékk ríkisborgararéttinn á grundvelli skerts ferðafrelsis" og er þar í hópi 22 annara einstaklinga sem fengu íslenskt ríkisfang á sömu forsendum á þessu kjörtímabili. Hún gleymir hinsvegar að geta þess að 20 þeirra höfðu dvalið lengur en tvö ár í landinu þegar þeir öðluðust sinn ríkisborgararétt.
Jónína bætir svo við að 30 einstaklingar hafi fengið íslenskt ríkisfang á þessu kjörtímabili eftir að hafa dvalið hér skemur en 1 ár. Hún getur þess hinsvegar ekki að enginn þeirra fékk íslenskan ríkisborgararétt vegna skerts ferðafrelsis.
Jónína hallar réttu máli þegar hún segir að Kastljós hafi látið að því liggja að aðalega börn fengju ríkisborgararétt með lögum frá alþingi. Kastljós benti hinsvegar á að oft væri um börn að ræða, afreksmenn í íþróttum ogfólk sem sótti um af mannúðarástæðum. Jónína kýs hinsvegar að sleppa því að nefna tvö af þessum atriðum sem Kastljós tiltók. Þess má geta að umrædd stúlka frá Gvatemala fékk ekki íslenskan ríkisborgararétt af þeim ástæðum sem eru tilgreindar hér að ofan.
Jónína telur að Kastljós hefði átt að láta svör Bjarna Benediktssonar, Guðrúnar Ögmundsdóttur og Guðjóns Ólafs Jónssonar nægja en kýs að horfa fram hjá því að þau afgreiddu þessa umdeildu umsókn.
Jónína hefur ekki útskýrt hvers vegna hún veifaði gögnum um mannréttindabrot í Gvatemala í viðtali í Kastljósi þegar ljóst er samkvæmt umsókninni að stúlkan þurfti ekki að þola mannréttindabrot í sínu heimalandi.
Jónína Bjartmarz spyr í lokin hvar er trúverðugleikinn"? Því er til að svara að Kastljós stendur við sína umfjöllun um málið.
Þórhallur Gunnarsson, ritstjóri Kastljóss.
![]() |
Kastljós svarar Jónínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.5.2007 | 10:29
Endalok Ingall´s fjölskyldunnar!
Í aðdraganda síðustu borgarstjórnarkosninga voru lóðamálin aðal baráttumál sjálfstæðismanna. Þeir fordæmdu leið R-lista flokkanna við að deila út byggingarlandi sem fólst í að allir hefðu jafnan rétt til að bjóða í lóðirnar. Þeir töldu ósanngjarnt að fólk fengi ekki einfaldlega lóðirnar á kostnaðarverði, þ.e. strípuðum gatnagerðargjöldum.
Þeir náðu með aðdáunarverðum hætti að skapa þá stemningu að það væri réttur hvers frjálsborins Íslendings að fá við sjálfræðisaldur úthlutað ókeypis landi til að reisa sér hús á. Það var eins þeir hefðu náð að vekja í brjóstum fólks gamlan draum Ingall´s fjölskyldunnar um Húsið á sléttunni. Kannski gekk þeim það svona vel einmitt af því sú kynslóð sem ólst upp við þættina um Húsið á sléttunni er á húsbyggingaraldri núna.
En nú er íhaldið búið að skipta um skoðun. Búið að afskrifa draum hins frjálsborna Íslendings um húsið á sléttunni. Búið að afskrifa Ingall´s fjölskylduna. Nú á að selja lóðir á sama verði og fékkst fyrir þær að meðaltali með hinni alræmdu uppboðsleið fyrri meirihluta á sérstöku þensluskeiði á húsnæðismarkaði. Nú hafa íhaldsmenn skipt um skoðun að sögn eins stuðningsmanna íhaldsins sem oft skrifar á þessa síðu.
Ég held að réttara væri að segja að þeir hafi skipt um sannfæringu. Opinberlega a.m.k. Ég held að þeir hafi reyndar aldrei haft sannfæringu í þessari predikun sinni um ókeypis byggingarland. Það hentaði þeim bara vel. Nú hentar þeim það illa.
Í Kópavogi voru lóðir seldar á hinu svokallaða kostnaðarverði þegar húsnæði fór að hækka í kjölfar 90% lánanna. Það var langt undir markaðsvirði og þess vegna kom fáum á óvart þegar kannað var hve margir í Salahverfi áttu enn eignir sínar tveimur árum eftir úthlutun. Um 80% höfðu selt eignir sínar og stungið hagnaðinum í vasann. Á sama tíma þurfti Gunnar Birgisson að loka leikskóladeildum af því bærinn gat ekki hækkað kaupið hjá lægst launaða starfsfólkinu eins og Steinunn Valdís gerði í borginni.
Í Fréttablaðinu í dag segir frá því að í Garðabæ séu lóðir seldar á markaðsverði og nefnt sem dæmi að lóð sem þar er seld á 16,2 milljónir fengist á 4,1 á Akureyri og 2,5 milljónir á Egilsstöðum. Það er ástæða fyrir því sem fólk með skilning á frjálsum markaði þekkir vel. Það er sama ástæðan og ástæðan fyrir því að hús Ingall´s fjölskyldunnar stóð á sléttunni.
2.5.2007 | 23:40
Áframhaldandi sókn Samfylkingar!
Sókn Samfylkingarinnar heldur áfram en eins og ég hef áður sagt á þessari síðu þá hefur fylgi okkar verið jafnt og þétt á uppleið síðustu 6 vikur eða svo. Félagsvísindastofnun hefur verið með kannanir í hverri viku þar sem tekið er 800 manna úrtak í einu kjördæmi í senn, byrjaði í NV kjördæmi og fór hringinn réttsælis. Í hverri einustu könnun hefur mátt greina sama tóninn, Samfylkingin er á leiðinni upp.
Ég tel kannanir Félagsvísindastofnun vera vandaðar, úrtakið er stórt, spurningarnar eru þær sömu og hjá Capacent og mælingin fer fram á 2-3 dögum sem gefur manni hugmynd um stöðuna eins og hún er en því miður eru svör Capacent fengin á svo löngum tíma að þau gefa einungis mynd af meðaltalsskoðun fólks síðustu viku eða hálfan mánuð. Auk þess hafa spurningar Capacent hingað til verið innan um ótal aðrar í spurningavagni s.s. um uppáhaldssjampó, viðskiptabanka o.s.frv.
Alla vega - ég þykist sjá þess öll sólarmerki að við séum á leiðinni upp og merki það ekki síst á viðbrögðum fólks sem ég hitti á förnum vegi hingað og þangað. Stór hluti þjóðarinnar vill breytingar og fólk er að átta sig á að besta leiðin til að tryggja breytingar en halda þó stöðugleika og ábyrgð er að kjósa Samfylkinguna.
Það er athyglisvert að spá í niðurstöðu könnunarinnar eins og hún birtist í kvöld. Fjórði maður Samfylkingarinnar, eða þriðji maður Vg, er næstur inn í stað Sigðurðar Kára sem dytti út. Fyrir okkur í Reykjavík norður þýðir þetta að við erum að velja um hvert þessara þriggja á mest erindi á þing, Sigurður Kári Kristjánsson, Paul Nikolov eða fyrrverandi borgarstjóri Steinunn Valdís Óskarsdóttir.
Það er ekki spurning í mínum huga, ég vel kvenskörunginn. Þekki hana af verkum hennar í borgarstjórn og veit að hún er allra þingmanna líklegust til að tryggja jöfn laun karla og kvenna, efla velferðarþjónustuna auk þess sem hún er harðsvíraður bissnessmaður og skilur vel þarfir atvinnulífsins.
Steinunni Valdísi á þing!
2.5.2007 | 17:10
Yfirlit yfir lóðasvik sjálfstæðismanna
Á heimasíðu Dags B Eggertssonar að finna gott yfirlit yfir hin þverbrotnu loforð íhaldsins um lóðir á kostnaðarverði. Hvet áhugasama til að verja 2 mínútum í að skoða ferilsskrá íhaldsins í málinu.
1.5.2007 | 22:01
Annar góður dagur hjá Sjálfstæðismönnum!
Sjálfstæðismenn eru að brillera í kosningabaráttunni!
Ásta Möller fór mikinn í fyrradag og tíundaði ótta sinn við það að forseti Íslands misnoti vald sitt til afskipta af stjórnarmyndun eftir kosningar. Þetta taldi hún alvarlega ógn við lýðræðið. Í morgun var hún spurð nánar út í málið af fjölmiðlum en þá vildi hún ekki tjá sig um málið. Svo rákust fjölmiðlar á hana fyrir utan Árbæjarlaugina og þá tjáði hún fréttamanni að hún hefði vissulega af þessu talsverðar áhyggjur eins og fram hefði komið í bloggi hennar.
Eitthvað hefur hún nú farið að hugsa málið og hvernig yrði lagt út af þessum orðum hennar, hringt í forystuna sem auðvitað hefur fölnað (enda sjálfstæðismenn nógu óvinsælir fyrir sífelld ónot í garð forsetans). Þeirra niðurstaða hefur greinilega verið að til að lágmarka skaðann væri best að Ásta færi í viðtal og gerði líitð úr áhyggjum sínum.
Ásta hringdi því í fréttamanninn sem hún hafði forðast allan daginn og sagði í viðtalinu að líklega hefði hún oftúlkað þá hættu sem stafaði af forseta Íslands. Þess vegna væri niðurstaða hennar breytt eftir að hafa rætt málin við fleiri af sínum samherjum. Það væri óþarfi að hafa áhyggjur af þessu.
Svipurinn á Ástu Möller og svar hennar við spurningunni um það af hverju hún hefði þá verið að hafa þessar áhyggjur, ef þær væru alveg ástæðulausar, eru eitthvert vandræðalegasta augnablik í sjónvarpi sem ég hef séð lengi. Líklega þarf að leita aftur til Árna Johnsen flokkfélaga Ástu til að finna eitthvað viðlíka.
Árni Mathiesen félagi Árna Johnsen og Ástu Möller átti líka gríðarlega góðan dag í dag. Hann geislaði af sjálfsöryggi í stjórnmálaþættinum á RÚV. Hann sagði þáttastjórnandann fara með fleipur þegar hann sagði að skattleysismörk hefðu ekki haldið í við launaþróun, forsendur hans væru rangar sem væri mjög alvarlegt mál. Sem sagt alvarleg ásökun á þáttastjórnanda!
Ágúst Ólafur, varaformaður Samfylkingarinnar, benti honum í mesta bróðerni á hagstjórnarmistök ríkisstjórnarinnar sem fengið hefðu falleinkunn hjá öllum helstu greiningardeildum innlendum sem erlendum og einnig hjá Seðlabanka Íslands. Árni vísaði allri slíkri gagnrýni á bug og afgreiddi með þeim orðum að allir væru með rangar tölur og rangar forsendur nema hann.
Minnti á brandarann um gömlu hjónin sem voru úti að keyra, karlinn einbeittur við aksturinn og konan að hlusta á útvarpið: Passaðu þig Jói minn þeir voru að segja í útvarpinu að það væri einhver brjálæðingur að keyra eftir Miklubrautinni - á röngum vegarhelmingi. Jói svarar sveittur af einbeitingu við aksturinn: Það er rétt Magga mín, en hann er ekki einn - þeir eru miklu, miklu fleiri!
Síðasta snilld dagsins hjá Sjöllunum er þó ekki brandari heldur hótun. Fjármálaráðuneytið (hinn sjálfsöruggi Árni Mathiesen) skýtur föstum skotum að formanni Geðlæknafélags Íslands sem telur að ekkert sé að gerast í málefnum geðfatlaðra, miklum fjármunum sé varið í skýrslugerð á meðan milljarðarnir 1,5 sem eyrnamerktir eru verkefni í þágu geðfatlaðra lækki að verðgildi vegna verðbólgu.
Ríkisstjórnin segir þetta auðvitað kolrangt (sér einhver mynstur?) og orðsending hennar (félagsmálaráðuneytis) til Geðlæknafélags Íslands er að "rangar upplýsingar af þessu tagi séu ekki til þess fallnar að greiða götu átaks í þágu geðfatlaðra."
Sem sagt, þú ert bara lygari og ef þú hefur þig ekki hægan þá hættum við við að byggja upp fyrir geðfatlaða!
Smekklegt!
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.5.2007 kl. 10:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
1.5.2007 | 15:49
Röð á Borginni! - rífandi stemning á 1. maí hátíðarhöldunum!
Það er biðröð á 1. maí kaffi Samfylkingarinnar á Borginni og sem betur fer erum við með aðal kosningaskrifstofu Reykjavíkurkjördæmanna í Landsímahúsinu skammt undan þar sem er hægt að fá pyslur, kaffi og hoppa í kastala!
Þetta er hin sanna Samfylkingarstemning en skemmst er að minnast þegar Samfylkingarfólk sló aðsóknarmet í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.
Til hamingju með daginn!
30.4.2007 | 21:58
Hræsni og svik sjálfstæðismanna í lóðamálum afhjúpuð á RÚV
Það var flett ofan af lóðalýðskrumi Vilhjálms Þ Vilhjálmssonar og félaga hans í fréttum RÚV í kvöld.
Það var kominn tími til að rifja upp hvernig hann og samherjar hans höguðu málflutningi sínum og reyndu allt sem þeir gátu til að kenna R-listanum um sprengju á húsnæðismarkaði sem þeirra eigin flokkur í ríkisstjórn átti mestan þátt í að skapa.
Best af öllu er þegar sýndar eru gamlar upptökur af gamla góða Villa tala um okurverð á lóðum þegar lóðir í Lambaseli voru seldar á 3,5-4,5 milljónir króna og lofa því að ef sjálfstæðismenn komist til valda skuli allir fá lóðir á kostnaðarverði.
Kostnaðarverð taldi hann þá vera á bilinu 2 til 2,5 milljónir á íbúð í fjölbýli en nú ætlar hann að rukka 4,5 milljónir fyrir sömu þjónustu!!!
Sjálfstæðismenn eru uppvísir að tvennu í senn - grímulausum loddaraskap og hræsni þegar þeir ákváðu að slá sér upp á óánægju með hækkandi húsnæðisverði í kjölfar 90% lánanna og nú svikum við kjósendur sína þegar þeir ganga á bak orða sinna um að selja lóðir borgarinnar á kostnaðarverði.
Illur fengur - illa forgengur. Kjósendur eiga tæpast eftir að gleyma þessu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
30.4.2007 | 18:41
Bjarni í hestana?
Sagan segir að Bjarni Ármannsson ætli sér í hestana, hafi keypt jörðina Fet ásamt stóru stóði fyrstu verðlauna gæðinga fyrir 1,5 milljarða króna. Sel það svo sem ekki dýrara en ég keypti það en hann er áreiðanlega borgunarmaður fyrir því.
Sýnir e.t.v. að þegar öllu er á botninn hvolft og maður á svo mikið af peningum að maður getur gert það sem manni sýnist - þá langar mann mest á hestbak með fjölskyldunni!
![]() |
Lárus tekur við af Bjarna sem forstjóri Glitnis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.4.2007 | 18:31
Skýringin fundin!
Þetta var ánægjulegt! Hér er semsagt um ávörp að ræða en ekki "fréttaskýringar" Morgunblaðsins. Ef vel er leitað má finna ávörp allra hinna stjórnmálaleiðtoganna líka.
![]() |
Samfylkingin: Mikilvægast að bæta almannaþjónustu í landinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.4.2007 | 17:30
Keypt auglýsing eða gefins?
Þetta myndskeið með Geir H Haarde slær "fréttaskýringum" Agnesar Bragadóttur við. Þetta er auðvitað málið, láta bara Geir sjá um sínar fréttaskýringar sjálfan. Hann veit þetta hvort sem er allt saman best og ástæðulaust að rengja hann um það. Snjallræði.
Eða er þetta auglýsing sem Sjálfstæðisflokkurinn er að kaupa? Með peningum á ég við, svona sem kvittun er gefin fyrir og allir geta keypt? Þetta er samt hvergi merkt sem auglýsing svo það er ekki gott að sjá hvort þessi auglýsing er keypt eða gefins!
![]() |
Sjálfstæðisflokkur: Mikilvægast að Ísland verði áfram land tækifæranna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)