Jákvætt mál

Það er jákvætt þegar tekist er á við vandamálin og það er (næstum) alltaf hægt að finna lausn.

Það er líka vert að hafa í huga að það er einmitt vegna þrýstings frá umhverfisverndarfólki, vísindamönnum og framsýnum stjórnmálamönnum sem heimurinn er lagður af stað í baráttu gegn hitnun jarðar.

Íhaldssamir stjórnmálamenn hafa allt fram á þennan dag fussað yfir Kyoto, kallað þá bölsýnismenn sem bent hafa á vandann og sumir jafnvel gengið svo langt að afneita þætti mannsins í breytingunum.

Við höfum því miður ekki farið varhluta af slíkri íhaldssemi og mér liggur við að segja heimóttarskap. Þess vegna gengur áætlun stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda út á að vera búin að draga mjög mikið úr losun eftir mjög mörg ár. Um 50-75% eftir 43 ár.

Samfylkingin mun í sinni ríkisstjórn taka þessi mál föstum tökum, setja sundurliðuð markmið til skemmri og lengri tíma og beita hagrænum hvötum til að ná sem mestum árangri. Það myndi enn bæta aðstöðu þeirra sem leita nýrra lausna s.s. getið er um í þessari frétt.


mbl.is Orkufyrirtæki og háskólar ætla að þróa aðferðir til að hefta útblástur frá stóriðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er biðskylda á Íslandi?

biðskyldaSamfylkingin hefur talað ötullega fyrir málefnum barna og gamals fólks í þessari kosningabaráttu - enda ærið tilefni til.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa misnotað sögulegt tækifæri til að skila góðæri undanfarinna ára til allra hópa samfélagsins, hinir sterkustu hafa verið látnir hafa mest en hinir veikari verið skildir útundan þegar kökunni var skipt. Börn, gamalt fólk og þeir sem eiga við veikindi að stríða.

Biðlistar eru táknræn birtingarmynd þessarar misskiptingar og skorts á samfélagslegri ábyrgð. Hér fyrir neðan gefur að líta nokkra.

Biðlisti barna með geðraskanir
170 börn bíða eftir fyrstu komu á göngudeild BUGL, biðtími allt að eitt og hálft ár. 20-30 mikið veik börn bíða eftir innlögn.

Biðlistar aldraðra
400 bíða í heimahúsum í brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými og 900 í þvingaðri samvist með ókunnugum. 62 aldraðir sem lokið hafa meðferð bíða inná Landspítala eftir því að komast í varanleg hjúkrunarrými.

Biðlistar hjartasjúklinga
243 hjartasjúklingar eru á biðlista eftir hjartaþræðingu á LSH, þar af 54 sem hafa beðið lengur en í 3 mánuði. 53 bíða eftir opnum hjartaaðgerðum. 170 til viðbótar bíða eftir öðrum hjartaaðgerðum og -rannsóknum.

Biðlisti barna með þroskafrávik
276 börn með margvísleg þroskafrávik bíða eftir greiningu. Biðtími er allt uppí 3 ár. Greining er skilyrði fyrir því að þessi börn fái stuðning í skólum og aðra þjónustu.

Biðlisti geðfatlaða eftir búsetuúrræðum:
50 geðfatlaðir á Landspítala bíða eftir varanlegri búsetu. Sumir hafa beðið í allt að 15 ár. Auk þess vantar búsetuúrræði fyrir 170 geðfatlaða til viðbótar. Að mati Geðhjálpar eru 60-70 geðfatlaðir á götunni!

Biðlistar eftir liðskiptaaðgerðum
256 sjúklingar bíða eftir liðskiptaaðgerðum á LSH og þar af hafa 138 beðið í meira en 3 mánuði.

Biðlistar eftir sjúkrahúsmeðferð aldraðra
242 aldraðir bíða eftir að komast í margs konar meðferð á öldrunarsviði LSH.

Biðlistar á LSH telja alls 3.145 manns:
Hér að ofan er aðeins sá hluti biðlista eftir aðgerðum á Landspítala sem talinn er verulega slæmur, jafnvel hættulegur, en alls eru á biðlistum þar eftir þjónustu um   3.145 manns. Þar af eru 671 sem bíður eftir augasteinaaðgerð og hafa 453 þeirra beðið lengur en í 3 mánuði.

Biðlistar þroskaheftra
142 þroskaheftir bíða eftir því að komast í skammtímavistun.

Biðlistar öryrkja
200 manns eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði hjá Öryrkjabandalaginu.

Biðlistar fatlaðra
100 bíða á biðlistum Svæðisskrifstofa eftir búsetuúrræðum og margir hafa beðið árum saman. Árlega bætast um 15 manns á þann lista.

Biðlistar eftir félagslegu leiguhúsnæði:
Á Stór-Reykjavíkursvæðinu eru 1525 manns á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði, þar af um 650 námsmenn.

Það er kominn tími til að aflétta biðskyldunni og gera eitthvað í málunum.


Nokkur orð um uppboðsaðferð v.s. happdrættisaðferð við útdeilingu lóða

Það er staðreynd að það tekur nokkur misseri að undirbúa ný hverfi. Þegar 90% lánin komu á markað þá varð sprenging í húsnæðismarkaðnum og verðið fór langt upp fyrir byggingarkostnað. Þá fór að verða góður kostur að byggja sjálf(ur), eftirspurn eftir lóðum jókst mikið, skortur varð á lóðum og markaðsverð þeirra fór eðlilega töluvert upp.

Við þær aðstæður voru tvær leiðir færar við að deila út þeim takmörkuðu gæðum: A) að bjóða út lóðir eins og R-listinn hafði gert og B) draga upp úr hatti nöfn þeirra heppnu sem þá fengu lóðir á verði sem var langt undir raunverulegu markaðsvirði.

Í Kópavogi völdu menn reyndar að fara þriðju leiðina sem var að reisa það sem í dag eru kölluð "þekkingarþorp" með vísan í að þeir sem þekktu bæjarstjórann gengu þar fyrir með lóðir. Fræg var líka "Séð og heyrt" aðferðin sem beitt var við útdeilingu lúxuslóðanna við Elliðavatn.

Hefði R-listinn t.d. ákveðið að nota happdrættisaðferðina og selja t.d. 100 lóðir á 6 milljónir í staðinn fyrir 11 milljónir eins og raunvirðið var á markaði þá hefðu borgaryfirvöld með því verið að taka 500 milljónir - hálfan milljarð - úr vasa borgarbúa og stinga í vasa þeirra 100 heppnu. Með þessum peningum má gera ýmislegt, t.d. lækka leikskólagjöld og hækka laun leikskólakennara til að bæta þjónustuna osfrv.

Í Salahverfi í Kópavogi - einu af þekkingarþorpunum - var gerð könnun á því hve margir af "þeim heppnu" áttu enn happdrættisvinninginn 2 árum síðar. Í ljós kom að 80% þeirra höfðu leyst út hagnaðinn, stungið honum í vasann. Kannski ekki skrýtið að Gunnar Birgisson hafi átt erfitt með að hækka laun lægst launaða fólksins á leikskólunum á meðan Steinunn Valdís gat fullmannað leikskóla Reykjavíkurborgar.

Lóðauppboðsaðferðin er semsagt ekki leið til að klekkja á fólki með "Húsið á sléttunni drauma" heldur aðferð til að tryggja að þau verðmæti sem við skattgreiðendur eigum sameiginlega skili sér til okkar en ekki í vasa "hinna heppnu".

Gamli góði Villi treysti sér auðvitað aldrei til að mótmæla þessu en talaði þess í stað um að það yrðu ævinlega að vera nægar lóðir í boði til að verðið yrði ekki hærra en kostnaðarverð. Ef hann ætlar hins vegar að vera með svo mikið framboð af lóðum umfram eftirspurn að það rétt nái kostnaðarverði jafnvel þegar eftirspurnarsprengja verður á húsnæðismarkaði þá þýðir það mikið af hálfbyggðum hverfum.

Slík hverfi þekki ég vel, enda alinn upp í Grafarvoginum frá 1984 þar sem hverfið stóð hálftómt árum saman, hálfbyggðir skólar, engin þjónusta, engin leiksvæði, engin íþróttaaðstaða, opnir húsgrunnar, heilu hverfin einn moldarhaugur, strætó á klukkutíma fresti þegar hann loks kom o.s.frv. Það er ekki fýsilegur kostur og ég held að fáir myndu láta bjóða sér slíkt í dag.

Sjálfstæðisflokkurinn fann í kosningunum síðasta vor að í þeim aðstæðum þegar húsnæðissprengja ríkisstjórnarinnar hafði hækkað húsnæðisverð langt umfram byggingarkostnað virkaði vel að gera út á hatur á uppboðsaðferðinni.

Það er háðulegt að gamli góði Villi skuli nú halda þeirri aðferð áfram fullum fetum við útdeilingu lóða fyrir fjölbýli en á laun við útdeilingu á lóðum fyrir sérbýli, með því að rukka sama verð fyrir þær og var meðalverð uppboðsleiðarinnar illræmdu og kalla það kostnaðarverð.


Svikin lóðaloforð sjálfstæðismanna!

Gamli góði villiSjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík aflaði sér fylgis fyrir borgarstjórnarkosningarnar með gagnrýni á hátt lóðarverð og lofaði því að úthluta lóðum á kostnaðarverði. Allir áttu að fá ódýrar lóðir - hét það. Svona orðaði gamli góði Villi það sjálfur í blaðagrein:

“Það verður eitt fyrsta verk okkar sjálfstæðismanna þegar kjósendur í Reykjavík veita okkur meirihluta á nýjan leik að tryggja nægt lóðaframboð, afnema lóðauppboð og lækka gatnagerðargjöld eða söluverð lóða til samræmis við kostnað borgarinnar við gerð nýrra byggingarsvæða.”

Ljóst er að flokkurinn hefur ákveðið að svíkja þetta loforð - og það rækilega Sjálfstæðisflokkurinn kynnti fyrir helgi að áfram yrðu lóðauppboð á þéttingarsvæðum en á nýbyggingarsvæðum yrðu föst verð: 11 milljónir fyrir einbýlishúsalóð, 7,5 milljónir fyrir byggingarrétt íbúðar í parhúsi og 4,5 milljónir fyrir byggingarrétt íbúðar fjölbýlishúsi.

Þessi föstu verð jafngilda fjórföldu gatnagerðargjaldi og eru augljóslega langt frá kostnaðarverði borgarinnar við að útbúa lóðirnar. Áður hafði verið haft eftir Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni að sjálfstæðismenn vildu að lóðir yrðu seldar fyrir gatnagerðargjöld  (kvöldfréttir Sjónvarps 14. mars 2005).

Um þessa kúvendingu má lesa meira á www.dagur.is


Er Jesú í þjóðkirkjunni?

Prestaþing hefur nú fellt tillögu um að heimila hjónavígslu samkynhneigðra. Þarna hefur æðsta samkoma Þjóðkirkjunnar kveðið upp sinn dóm. Hjónabandið er of heilagt til að það sé hægt að "kasta því á haugana" með því að veita samkynhneigðum sama rétt og öðrum, svo vitnað sé í þekkt ummæli biskups. Hér talar þjóðkirkjan frá sinni æðstu samkomu og þetta er hennar réttlæti, hennar kærleikur.

Hér opinberast arfur og eðli þjóðkirkjunnar sem frá því á myrkum miðöldum hefur talið sig þess umkomna að drottna yfir sálum mannanna eins og harður lénsherra í umboði afar fjarstadds konungs. Blessar og bannfærir á víxl og notar þröngan skilning bókstafsins til að rökstyðja íhaldssamar og ranglátar skoðanir sínar í stað þess að praktísera boðskap krists og taka undir með samfélaginu sem í þessum efnum er þjóðkirkjunni langtum fremra í umburðarlyndi og kærleika.

Í fyrra voru samþykkt á Alþingi lög sem bættu verulega fjölskyldurétt samkynhneigðra. Samfylkingin vildi ganga lengra og heimila safnaðarprestum og trúfélögum að gefa samkynhneigða saman í hjónaband. Það þótti of langt gengið og vegna mikils þrýstings frá Biskupi Íslands og afturhaldsöflum þjóðkirkjunnar náði sú tillaga ekki fram að ganga.

Þjóðkirkjan er vegna aðstöðu sinnar í kerfinu nánast sjálfvirkur áskrifandi að hverjum nýfæddum Íslendingi og nýtur gríðarlegra fjárhagslegra yfirburða umfram önnur trúfélög. Þá er staða þjóðkirkjunnar gagnvart skólakerfinu verulega umdeilanleg. Þessa stöðu hefur þjóðkirkjan ævinlega réttlætt með því að hún væri svo samofin þjóðinni að það tvennt væri í raun eitt - þjóðin og þjóðkirkjan.

Ætti það ekki að vera henni umhugsunarefni að í þessu sjálfsagða mannréttindamáli á hún meiri samleið með Gunnari í Krossinum en með meirihluta þjóðarinnar?

Fyrir fáum árum þótti afturhalds- og bókstafstrúaröflunum fráleitt að konur væru prestar en nú þykir það sjálfsagt. Vonandi styttist í að það sama gerist í þessu máli. Því þó þjóðkirkjan sem stofnun sé blint afturhald er innan hennar margt kærleiksríkt, trúað og víðsýnt fólk sem eflist með hverju árinu. 

Samkvæmt mínum takmarkaða kristilega skilningi þá finnst mér jafn líklegt að Jesú sé í því fólki og mér finnst ólíklegt að hann sé í þjóðkirkjunni.


Stal Árni Johnsen senunni?

Árni JohnsenÞær raddir hafa heyrst að hrun fylgis Sjálfstæðismanna í Reykjavík suður megi rekja til framboðsfundar sem Árni Johnsen hélt ásamt Bjarna Harðarsyni í Litlu Kaffistofunni í vikunni.

Ekki verður mat lagt á það en ljóst er að þvert á vilja Sjálfstæðismanna sem hafa reynt að fela Árna í kosningabaráttunni þá fékk hann þjóðarathygli. Pressan drakk í sig hvert orð af hans vörum og má e.t.v. segja að hann hafi stolið senunni.

Umfjöllun Stöðvar 2 um fundinn má sjá hér.


Hrun Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður

geir_hilmar_haardeSjálfstæðisflokkurinn er í frjálsu falli í Reykjavík suður þar sem hann hefur þó talið sig hafa nokkuð góða stöðu. Þetta hlýtur að vera mikið áfall fyrir formanninn, Geir H Haarde, sem var orðinn nokkuð glaðhlakkalegur eftir síðustu mælingar Capacent sem mældu flokkinn í rúmum 40% að hrapa nú niður um tæp 10% á stuttum tíma.

Samfylkingin bætir hins vegar stöðugt við sig núna síðustu vikur, er nú í 26,6% - vex um 6-7% - og er greinilega á miklu flugi. Aðeins vantar um 6% upp á að Samfylkingin nái Sjálfstæðisflokknum og ekki vantar mikið upp á kjörfylgi síðustu kosninga en það var með bestu niðurstöðum norrænna jafnaðarmannaflokka úr þingkosningum. Það var líka athyglisvert að samkvæmt þessu eru Samfylking og Vg með helming atkvæða.

Það er greinilegt að núna þegar skammt er til kosninga og meginþorri kjósenda er farinn að fylgjast með af athygli að Ingibjörg Sólrún vinnur mikið á en það hallar sömuleiðis undan fæti hjá Geir. Það er e.t.v. ekki undarlegt þar sem vanrækslusyndir Geirs hafa mikið verið í fjölmiðlum, endalausir biðlistar eftir hjúkrunarrýmum, eftir greiningu fyrir börn, eftir plássi á barnageðdeild osfrv.

Þá hefur þjóðin vaknað upp við vondan draum hvað varðar tannheilsu barna og þegar þetta allt er sett í samhengi við fréttir undanfarinna missera um þúsundir fátækra barna, ömurleg kjör aldraðra og öryrkja og síðast en ekki síst hverja falleinkunina á fætur annarri yfir efnahagsstjórn Geirs - þá er von að vinsældir hans sem leiðtoga hrapi.

Í síðustu kosningum mátti Davíð Oddsson, sem m.a.s. allir sjálfstæðismenn telja langtum meiri foringja en Geir, láta í minni pokann fyrir Ingibjörgu Sólrúnu og Össuri. Það var ekki síst vegna Ingibjargar Sólrúna að í síðasta skipti sem Davíð var kjörinn á þing þá var hann ekki fyrsti þingmaður kjördæmisins heldur númer 2.

Mér finnst ekki ólíklegt að Geir vakni upp við það sama þegar talið hefur verið upp úr kössunum í vor.


"Þetta er köld kveðja til þín!"

Sjálfstæðismenn gera það ekki endasleppt í dag.

Fyrtni
guðlaugur þórÞessa óvenju ruddalegu kveðju sem sjá má í fyrirsögn hér að ofan, sendi Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður Sjálfstæðismanna, Ögmundi Jónassyni í spjallþætti í Sjónvarpinu í kvöld. Ögmundur hafði þá sagt "Þetta eru nú kaldar kveðjur til þessa fólks" varðandi fullyrðingar Guðlaugs um "raunverulegan árangur" ríkisstjórnarinnar við að bæta úr vanda barna sem bíða eftir greiningu.

Ljóst var að Guðlaugur átti allan þáttinn erfitt með að þola gagnrýni Jóhannu Sigurðardóttur og Ögmundar á velferðarþjónustu ríkisstjórnarinnar. Hann sló opinberar tölur út af borðinu með því að segjast sjálfur hafa aðrar sér hagfelldari án þess að gera grein fyrir hverjar þær væru og hvaðan og fyrtist hvað eftir annað við athugasemdir mótherja sinna og spurningar þáttastjórnenda.

Það er umhugsunarefni hvernig ráðherra Guðlaugur Þór þingmaður yrði í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks þegar honum þykir eðlileg gagnrýni á vanrækslusyndir ríkisstjórnarinnar í velferðarmálum vera svo frekleg móðgun við sig.

Blinda
geir_hilmar_haardeForsætisráðherra fráfarandi ríkisstjórnar átti þó án nokkurs vafa setningu dagsins á Morgunvaktinni en í umræðu um hækkun skattleysismarka sagði Geir Hilmar Haarde orðrétt:

"Ýmsir frambjóðendur...gera sér ekki grein fyrir því hvað hver þúsundkall munar miklu fyrir ríkissjóð en litlu fyrir hvern einstakling."

Þetta útskýrir margt.

Hann sagði reyndar líka að hækkun skattleysismarka væri ómarkviss aðgerð til að bæta kjör hinna lægst launuðu. Það fengju nefnilega allir bætt kjör. Þetta er alveg rétt hjá Geir. Það fá allir jafn mörgum þúsundköllum meira þegar skattleysismörkin eru hækkuð.

Þegar skattprósentan er lækkuð fá hins vegar alls ekki allir jafn marga þúsundkalla í sinn hlut. Sá sem er með 1.000.000 á mánuði hagnast 10 sinnum meira en sá sem hefur 100.000 á mánuði. Skattalækkanir Geirs núna að undanförnu hafa líklega verið markviss aðgerð að hálfu fráfarandi ríkisstjórnar til að bæta kjör hinna hæst launuðu!

Yfirgangur
Árni SigfússonTil að fullkomna daginn hjá Sjálfstæðismönnum voru allar fréttir fullar af hinum alla jafna geðþekka Árna Sigfússyni bæjarstjóra í Reykjanesbæ sem þverneitar íbúum um lýðræðislega kosningu um álver í Helguvík. Hann setur undir sig hausinn að hætti íhaldsins og blæs á skoðanir íbúa sem ég held að megi fullyrða að vilji flestir fá meiri og vandaðri umfjöllun um þetta mál og kosningar að því loknu.

Ítrekað hefur komið fram að bindandi samningar eru engan veginn tímabærir. Eftir er að fara í umfangsmiklar rannsóknir, þótt rannsóknarleyfi séu fengin fyrir hluta af orkunnar sem þarf til álversins er engan veginn sjálfsagt að virkjunarleyfi verði gefin út. Síðast en ekki síst þá hefur engin upplýst umræða um kosti álvers og galla farið fram og vilji íbúa í sveitarfélaginu aldrei verið kannaður.

Hverjum er Árni Sigfússon bundinn trúnaði?


Hvar?

Hvar verður miðunum dreift? Er til í að fá strætómiða hjá þeim sem ætla ekki að nota sína!

Er reyndar nýbúinn að kaupa mér 11 miða kort á 2500 kr. en það er fljótt að fara. Væri gaman ef tillaga Samfylkingarinnar um 100 kr. staðgreiðslufargjald fyrir alla hefði verið samþykkt en því er ekki að heilsa.

Ef Ung Vinstri græn vantar leiðsögn um Grafarvoginn þá getum við Dagur B Eggertsson aðstoðað en þegar ég tók strætó upp í Egilshöll á landsfundinn um daginn, hvern hitti ég þá í leið 16 annan en Dag! (Getum reyndar alveg mælt með S6 líka, hún stoppar nær.)

Skemmtileg tilviljun og við vorum að sjálfsögðu afar ánægðir með að hafa strax á fyrsta degi slegið grænasta flokki í heimi við hvað varðar umhverfisvænan ferðamáta á landsfund.


mbl.is Gefa borgarfulltrúum strætómiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægri grænir blána af ótta við umræður og samráð

Nýlega var keyrður í gegn í stjórn Hitaveitu Suðurnesja hf. orkusamningur við Norðurál er tengist hugsanlegu álveri í Helguvík.  Gunnar Svavarsson og Björn Herbert Guðbjartsson félagar í Samfylkingunni og fulltrúar í stjórn HS hf. lögðu þá fram tillögu á fundi stjórnar um að fresta afgreiðslu orkusamningsins en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins felldu hana.

Gunnar og Björn töldu ekki tímabært að ganga frá orkusamningnum. Orkuöflun, fjármögnun, gengisáhætta og álverð eru grunnþættir sem þarf að taka tillit til við mat á orkuverði og arðsemi framkvæmdarinnar. Rannsóknir á nýjum svæðum eru ekki hafnar og óvíst að leyfi til þeirra fáist yfir höfuð. Þá hefur skuldsetning fyrirtækisins aukist mjög, sömuleiðis  fjármagns- og fjárfestingarkostnaður og ýmis varúðarljós hafa kviknað gagnvart sjóðstreymi fyrirtækisins.

Þrír sjálfstæðismenn af fjórum voru að sitja sinn fyrsta stjórnarfund þegar ákvörðun var tekin, engar forsendur voru til að afgreiða málið með hraði og fulltrúi fjármálaráðherra var ekki á fundinum. Það hefði mátt "anda" í málið. Afdrifaríkar ákvarðanir með töluverðri áhættu þarf að taka á vel upplýstan hátt og í góðu samráði og sátt við eigendur, samfélagið og ríkisvaldið. Málið í heild þarf að fá frekari og vandaðri umfjöllun innan og utan HS hf.

Þetta eru vinnubrögð sem eru ekki til eftirbreytni - valdastjórnmál eru barn síns tíma og vonandi á undanhaldi - það er veikleikamerki að hræðast upplýsta umræðu. Það þarf að hafa í huga að fyrirtækið er í eigu ríkis og níu sveitarfélaga, í raun í eigu almennings. Ríkisstjórnin hefur reyndar ákveðið að bjóða á einkamarkaði 15% hlut sinn í HS og það er enn frekari ástæða til að bíða og vanda betur til verka.

Ekkert þrýsti á um þessa tímasetningu samningsins, aðilar hefðu engu glatað, nema e.t.v. athygli í fjölmiðlum fyrir Alþingiskosningar. Sjálfstæðismenn hafa á undanförnum vikum málað fálka sinn grænan.  Það er hins vegar óhætt að gefa út dánarvottorð hinnar meintu hægri grænu stefnu nú þegar upplýstri umræðu um er algjörlega hafnað af Sjálfstæðisflokknum.

Það eru sóknarfæri í umræðu um orkumál. Umræðu sem almenningur vill fá að taka þátt í af því hún snertir ekki einungis hag okkar í dag heldur líka umhverfi og náttúruverðmæti komandi kynslóða. Reynum að blána ekki í framan af ótta við umræður og samráð.


mbl.is Hitaveita Suðurnesja og Norðurál undirrita orkusamning vegna álvers í Helguvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband