Íhaldið gefur og tekur

Mig langar að deila með ykkur ágætum pistli Jóhönnu Sigurðardóttur alþingiskonu og einni hörðustu baráttukonu fyrir bættum kjörum þeirra sem minna bera úr býtum í lífinu.
Þetta er áhugaverð lesning.

___

Jóhanna SigMorgunblaðið og íhaldið hafa gert mikið úr tillögum um málefni aldraðra sem kynntar voru á landsfundi Sjáflstæðisflokksins um s.l. helgi.

25 þúsund krónur á mánuði fyrir þá sem ekkert hafa úr lífeyrissjóðum virtist vera dágóð búbót við fyrstu sýn. En þegar grannt er skoðað heldur aldraður einstaklingur sem býr einn og hefur engar aðrar tekjur en lífeyri almannatrygginga einungis 1/3 eftir eða rúmum 8 þúsund krónum. Geir heldur hins vegar eftir hjá sér- vegna skatta og skerðingar- rúmum 16 þúsund krónum.

Áfram á að hlunnfara aldraða
Þetta er nú öll rausnin, þar sem 25 þúsund króna frítekjumark stjórnarflokkanna nær ekki til tekna úr lífeyrissjóðum. Tillaga okkar í Samfylkingunni er um 100 þúsund króna frítekjumark, bæði gagnvart atvinnutekjum og tekjum úr lífeyrissjóði. 25 þúsund króna greiðsla úr lífeyrissjóði mun því ekki skerða greiðslu almannatrygginga til aldraðra.

Tillaga íhaldsmanna um að lækka skerðingarhlutfall tekjutryggingar úr 38.35% í 35% eins og slegið var upp á forsíðu Mbl gefur lífeyrisþega, sem hefur t.d. 10.000 krónur í aðrar tekjur en lífeyrisgreiðslur almannatrygginga, heilar 215 kr. eftir skatt. Áður hélt lífeyrisþeginn eftir um 3.000 krónum af 10 þúsund króna tekjum sínum úr lífeyrisjóði eftir skatta og skerðingar. En eftir þetta örlæti Geirs Haarde myndi hann halda eftir 215 krónum meira.

Sautján faldur munur
Til að bera saman þann mikla mun sem er á úrbótum fyrir aldraða í tillögum okkar í Samfylkingunni og tillögum Sjálfstæðismanna er vert að skoða eftirfarandi dæmi. Gefum okkur að íhaldið stæði við samþykkt landsfundarins um að lækka skerðingarprósentu vegna greiðslna frá almannatryinngur úr 38.35% í 35%. Hver væru þá áhrifin annarsvegar vegna tillagna þeirra og hinsvegar tillagna okkar í Samfylkingunni.

Það hefði þau áhrif að sá sem hefur t.d. 50 þúsund krónur frá lífeyrissjóði fengi samkvæmt tillögum íhaldsins 1.077 kr. ávinning. Ef aftur á móti væri miðað við tillögur okkar í Samfylkingunni um frítekjumark gagnvart bæði greiðslum úr lífeyrissjóðum og atvinnutekjum, ásamt því að lækka skatta af greiðslum frá lífeyrissjóðum fengi aldraðir í sinn vasa 17.258 kr. í stað 1.077. kr . Það er sautjánfalt falt það sem íhaldið ætlar í rausn sinni að bjóða öldruðum.

 


Systurflokkur Samfylkingarinnar stígur afdráttarlaus skref í loftslagsmálum

stoltenbergÞað var gaman að sjá að Stoltenberg, formaður systurflokks Samfylkingarinnar í Noregi, var að kynna metnaðarfull markmið ríkisstjórnar sinnar í loftslagsmálum en hann ætlar að gera 10%  betur en að standa við Kyoto bókunina 2012. Það þýðir um 20% samdrátt frá því sem nú er því losun hefur aukist um 10-11% síðan 1990. Þetta er talsvert meiri metnaður en stóriðjuflokkarnir hafa sýnt en þeirra markmið hefur verið að reyna að snúa út úr Kyoto bókuninni með meðaltalsútreikningum. Sú aðferð gengur út á að taka meðaltalsútblástur á tímabilinu og halda honum innan marka en þetta ákvæði í bókuninni var hugsað fyrir þær þjóðir sem hefðu e.t.v. verið seinar til að draga úr útblæstri sínum. Íslensk stjórnvöld ætla sér hins vegar að nýta þetta til að auka útblástur eins mikið og mögulegt er.

Við í Samfylkingunni gleðjumst mjög yfir þessu frumkvæði systra okkar og bræðra í Noregi en Samfylkingin hefur frá upphafi látið sig loftslagsmálin varða og nýlega buðum við almenningi á mynd Al Gores, An Inconvenient Truth, og troðfylltum A sal Háskólabíós en síðan þá höfum við staðið fyrir sýningum á myndinni víða s.s. í Hafnarfirði, á Akureyri og víðar. Í stjórnmálaályktun á landsfundinum um síðustu helgi var sérstaklega vikið að loftslagsmálum og ljóst að Samfylkingin mun taka af metnaði á þeim ef hún verður valin til að stýra næstu ríkisstjórn.

Frá því vísindamenn byrjuðu að benda á samhengið á milli hlýnunar loftslags og losunar koltvísýrings hafa margir orðið til að ráðast harkalega að slíkum skoðunum. Það hefur ekki komið í veg fyrir það að vísindasamfélagið hafi haldið áfram rannsóknum sínum og nú má heita að það ríki einróma innan vísindasamfélagsins um skýrt samband á milli þessara þátta.

Enn heyrast þó gagnrýnisraddir af og til en þær hefur flestar mátt rekja beint til hagsmunaaðila s.s. olíufyrirtækja og annarra hagsmunaaðila í olíuiðnaðinum. Lýsandi fyrir þetta er að á dögunum vildi vísindasamfélagið orða hlutina mun afdráttarlausar en gert var í síðustu skýrslu Sameinuðu þjóðanna en olíulöndin fyrir botni Miðjarðarhafs drógu úr því enda þungur pólitískur róður að ráðast að því sem skapar þeim mestan auð.

Þegar Sameinuðu þjóðirnar kynntu undanfara þessarar skýrslu seint í haust varð olíufyrirtækið Exxon Mobile uppvíst að því að reyna að bera fé á vísindamenn í þeim tilgangi að draga úr trúverðugleika þeirra sem að skýrslunni stóðu.

Innan Sjálfstæðisflokksins hafa ungir frjálshyggjumenn iðulega verið fljótir að gleypa við aðkeyptum niðurstöðum vísindamanna á þá leið að losun gróðurhúsalofttegunda hafi ekkert með hlýnun andrúmslofts að gera. Þar má m.a. nefna Illuga Gunnarsson, meintan hægri grænan, og Sigríði Andersen þingmannsefni Sjálfstæðisflokksins. Guðfaðir þeirra í frjálshyggjunni Hannes H. Gissurarson hefur undanfarið skeiðað fram og aftur ritvöllinn í sömu erindagjörðum.

Undanfarið hafa Hannes, Illugi og félagar fengið liðsinni í baráttunni gegn baráttunni gegn gróðurhúsalofttegundum og myndinni "An Inconvenient Truth" eftir Al Gore. Það er myndin "The Grate Global Warming Swindle" ættuð frá breskri sjónvarpsstöð. Myndin hefur vakið mikla athygli og umræður enda er þar í æsilegum stíl fram á að umhverfisverndarsinnar og frægðarsjúkir vísindamenn hafi sett á fót mesta svindl sögunnar með ábendingum sínum og kenningum um að orsakir hlýnunar andrúmslofts megi rekja til athafna mannsins.

Ég rakst á góða grein um þetta mál á visi.is eftir Tómas Jóhannesson jarðeðlisfræðing við Veðurstofu Íslands og Jón Egil Kristjánsson prófessor í veðurfræði við Oslóarháskóla. Hvet áhugasama til að lesa hana.


Svar...við ágætum athugasemdum

Dharma og aðrir pennavinir.
Takk fyrir ágætar athugasemdir við síðustu færslu og gott innlegg í þarfa umræðu. Mig langar að svara þeim með sérstakri færslu í stað þess að prjóna hér enn eina langloku við þær sem fyrir eru.

Fyrst nokkrar stuttar athugasemdir við hina löngu en óvenju málefnalegu athugasemd Dharma.

  • Nú um stundir a.m.k. veita bankarnir ekki nema 80% lán. Íbúðalánasjóður lánar 90% allt að 18 milljónum en aðeins upp að 100% af brunabótamati svo það gagnast tæplega ungu fólki í Reykjavík í dag.
  • Það er rétt að ef reiknaðir eru 11% vextir á 50 þ kr. sparnað á mánuði þá tekur það innan við 7 ár að ná 4 milljónum. Þetta eru hins vegar ekki verðtryggðir vextir og eins og Dharma þreytist ekki á að tala um hækka húseignir að jafnaði í verði, a.m.k. er gott að reikna með að þær haldi í við verðlag. Ef verðbólgan helst innan marka, hvað þá ef hún heldur áfram að vera eins og hún hefur verið er heldur lítið eftir af vöxtunum þegar til á að taka.
  • Ef maður selur íbúð á 25 milljónir sem maður á bara 13 milljónir í þá getur maður tæplega fengið 3 milljónir í arð af þeim á ári jafnvel þótt maður miði við 12% vexti sem mér finnst talsvert há ávöxtunarkrafa, jafnvel á Íslandi. Hafa verður í huga að ef valið er að leigja íbúðina þá reiknar maður með því að fjárfestingin sé vertryggð svo það er hægt að lækka ávöxtunarkröfuna sem svarar verðbólgunni.
  • Varðandi aðrar athugasemdir vísa ég í pistilinn hér að neðan en læt nægja að benda Dharma á að það er hægt að leysa málin á fleiri vegu en að handstýra öllu frá a til ö og setja reglur sem banna mönnum hitt og þetta. Það er engin lausn, ekki frekar en það að loka augunum fyrir ástandinu eins og Dharma og félagar virðast helst vilja gera. Við eigum að líta til velferðarsamfélaganna í kringum okkur og læra af þeim. Þau eru á meðal allra samkeppnishæfustu þjóðríkja heims, einmitt af því þar hafa stjórnvöld byggt upp samfélag þar sem hvað flestir geta notið sín og hæfileika sinna, sér og samfélaginu til hagsbóta.

Ef við trúum því að í borginni eigi fólk af "öllum stéttum", eins og ágætur flokkur myndi orða það, að eiga möguleika á búsetu þurfum við að endurskoða ýmislegt. Þó það geti verið gott að búa á Raufarhöfn þá er óþarfi að reka fólk þangað með of háu leigu- og íbúðarverði í Rvk. Betra er að fólk flytji þangað vegna kosta Raufarhafnar fremur en ókosta á húsnæðismarkaði í Reykjavík.

Hér fyrir neðan má sjá stöðuna hjá ungri fjölskyldu með eitt barn sem er að safna sér fyrir útborgun á íbúð. Athugið að hér er bara um allra helstu nauðsynjar að ræða og flokkurinn "óþarfi" upp á 20 þúsund dekkar allar áskriftir að dagblöðum, sjónvarpi, bíóferðir, nammikvöld, kaffihúsaferðir osfrv. Ekki er gert ráð fyrir neinu umfram þetta s.s. ferðalögum eða stórhátíðum sem kalla á útgjöld.

Það sem helst er hægt að spara þarna er kostnaður við bíl en þá þyrfti fólk að vera heppið með íbúð nálægt verslunarmiðstöð og leikskóla/dagforeldri nálægt íbúðinni og vinnunni. Því miður hafa ekki mörg hverfi borgarinnar verið hönnuð með það í huga að fólk gæti sleppt því að eiga bíl. Það er helst að skipulag í anda þéttari byggðar geri ráð fyrir slíkir ráðdeild. (Tölur í þús. kr.)

  • Framfærsla                   100                  Ráðgjafastofa um fjármál heimilanna     
  • Sími/internet                  10                   
  • Bíll                                  50                  FÍB, ódýrasta tegund bíls
  • Leikskóli/dagfor.            30                   
  • Leiga                            100                  Algeng leiga á 2-3 hb. íbúð
  • Óþarfi                             20
  • Óvænt 10%                    31
  • Sparnaður                      50
  • Samtals                        391

Til að eiga fyrir þessari upphæð þarf hvort foreldri að hafa a.m.k. 273 þúsund í heildarlaun á mánuði. Að auki hefðu þau um 9 þúsund kr. á mánuði í barnabætur en engar húsaleigubætur - til þess eru þau of tekjuhá.

Það er eins gott að fólkið hafi þá ekki kosið sér háskólanám á sviði fræðslu eða umönnunarstétta en byrjunarlaun kennara í fullu starfi eru um 180 þúsund á mánuði. Væru báðir foreldrar á þeim launum væru útborguð laun þeirra samtals um 280 þúsund á mánuði + tæpar 13 þúsund kr. á mánuði í barnabætur en engar húsaleigubætur - til þess eru þau of tekjuhá.

Fólk í þessum sporum hefur enga möguleika á að spara og í raun ekki heldur möguleika á að skrimta af launum sínum. Það vantar í raun um 50 þúsund kr. á mánuði upp á að ná endum saman án þess að nokkur sparnaður sé tekinn með í reikninginn.

Auðvitað er það umhugsunarefni út af fyrir sig að það skuli ekki vera hægt að lifa af fullu starfi eftir nám í mörgum algengustu háskólagreinunum. Það er líka umhugsunarefni að þar er oft um að ræða hefðbundnar kvennastéttir.

Fyrst þegar unga fólkið er komið upp í 230 þúsund kr. á mánuði nær það endum saman. Aðeins það fólk sem hefur 50% hærra kaup en kennarar getur lagt til hliðar 50 þúsund og náð þannig að skrapa saman fyrir útborgun í íbúð á 6-7 árum. Hjá þeim sem hafa lægri tekjur tekur það því lengri tíma sem minna er eftir þegar allt hefur verið greitt.

Til að laga þetta þarf auðvitað fyrst og fremst að hækka skattleysismörk og skerðingarmörk barnabóta sem hafa dregist verulega aftur úr launaþróun í landinu. Húsaleigubætur hafa engan veginn haldið í við aðra verðlagsþróun, enda sést að fólk sem er undir þeim mörkum að geta framfleytt sér fær ekki einu sinni húsaleigubætur. Eða eins og sérfræðingar hafa ítrekað bent á - fólk með lágar og meðaltekjur hefur þurft að þola stóraukna skattbyrði. Þetta er á færi ríkisins að laga og því mun Samfylkingin beita sér fyrir.

Það sem Borgin getur gert en hefur því miður ekki sýnt áhuga á þótt við í Samfylkingunni höfum bent á að þetta ástand væri að myndast er að bjóða félagasamtökum sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni lóðir miðsvæðis í borginni undir fjölbýlishús í ýmsum stærðum og gerðum til þess eins að leigja út á kostnaðarverði til venjulegs fólks.

Þessu þyrfti ríkið að koma að sömuleiðis eins og við í Samfylkingunni bentum á í kosningastefnu sem samþykkt var á landsfundi t.d. með því að heimila slíkum félagasamtökum að fjármagna sig á frjálsum markaði og ná þar með betri kjörum.

Það þarf líka að víkja frá þeirri séríslensku hugsun að það verði að borga húsnæði upp á 40 árum en í nágrannalöndum eru félög á húsaleigumarkaði ekki að borga eignirnar upp fyrr en eftir ca 80 ár enda hrópandi óréttlæti að íbúarnir sem búa í húsunum fyrstu 40 árin borgi upp kostnaðinn fyrir þá sem búa í húsunum næstu 40 ár á eftir.

Þessum kerfisbreytingum mættu gjarna fylgja stofnstyrkir til þeirra félgasamtaka sem vilja taka að sér að byggja og reka til margra áratuga leiguíbúðir miðsvæðis í borginni.

Það er mat sérfróðra aðila að með aðgerðum sem þessum mætti lækka leiguverð í borginni umtalsvert, allt að 20%.

Því miður hafa hagstjórnarmistök ríkisstjórnarinnar komið húsnæðismálum í borginni í svo mikinn hnút að hann er vandleystur án þess að það valdi einhverjum sársauka. Íbúðaverð hefur hækkað mun meira en ástæða er til, á markað eru væntanlegar þúsundir íbúða og greiningardeildir bankanna hafa spáð því að íbúðaverð muni lækka á næstu misserum. Það mun koma sér illa við þá sem hafa fjármagnað sig að fullu með verðtryggðum lánum því öfugt við allt annað sem hent er upp í loftið koma hækkandi húsnæðisskuldir aldrei niður aftur.

Kv. Dofri.


Ekkert svar!

Á borgarstjórnarfundi í gær stóð Samfylkingin fyrir umræðu um húsnæðisvanda ungs fólks. Þar vorum við ekki bara að ræða vanda námsmanna eða láglaunahópa sem þó er ærinn. Þúsundir ungs fólks sem er að koma úr námi, hefja sjálfstæða búsetu, stofna heimili og hefja störf á vinnumarkaði hefur ekki möguleika á stofna sitt eigið heimili.

Vegna efnahagsmistaka ríkisstjórnarflokkanna er húsnæði núna 60% dýrara en fyrir fjórum árum og það hefur aldrei verið dýrara fyrir fyrstu-íbúðar kaupendur að kaupa sér íbúð. Þeir sem ekki hafa fengið milljónir að gjöf frá foreldrum sínum verða að byrja á að nurla saman sparnaði fyrir útborgun en 3h íbúð, mátuleg fyrir unga fjölskyldu, kostar í dag um 20 milljónir. Það tekur fólk um 7 ár að safna fyrir slíkri útborgun ef það getur lagt til hliðar 50 þúsund á mánuði - sem er langt frá því að allir geti gert eins og leigumarkaðurinn er núna.

Auðvitað er það fyrst og fremst á valdi ríkisstjórnarinnar en ekki borgarstjórnar að bæta úr þessu ástandi EN það er samt eitt mjög mikilvægt atriði sem er fyllilega á valdi borgarstjórnar. Það er að bjóða félagasamtökum á leigumarkaði sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni lóðir undir fjölbýlishús miðsvæðis í borginni. Þetta getur borgin gert til að auka framboð af öruggum og ódýrari leiguíbúðum fyrir venjulegt fólk.

Við í Samfylkingunni sáum síðasta vor í hvaða ástand stefndi. Þess vegna vorum við með þetta sem eitt af aðalatriðunum í stefnu okkar fyrir borgarstjórnarkosningar:

Öflugur leigumarkaður er lykilatriði til að tryggja fjölbreytileg búsetuúrræði fyrir alla aldurshópa. Hann verður ekki til nema byggingarfélögum og fyrirtækjum verði tryggðar forsendur til að byggja og reka leiguíbúðir og félagslegar íbúðir á viðráðanlegum kjörum. Við viljum að öflugur leigumarkaður verði valkostur fyrir einstaklinga og fjölskyldur í leit að þaki yfir höfuðið.

Það eru breyttir tímar. Ungt fólk vill margt frekar en að vinna myrkranna á milli til að eiga fyrir afborgunum af eigin húsnæði. Núna þegar margir eru orðnir vanir því að taka bílinn sinn á rekstrarleigu finnst fólki einfaldara og betra að leigja - ef leigan er á góðum kjörum og maður er öruggur um verða ekki hent út t.d. af því að barnabarn eigandans hætti í náminu í útlöndum og þarf að fá íbúðina.

Ungt fólk sem er að gera allt í senn, hefja sambúð, eignast börn og hefja starfsframann hefur um nóg að hugsa þótt það hafi ekki stöðugar áhyggjur af afborgunum og skuldum sem hækka og hækka vegna verðbólgunnar. Fólk sem fékk 15 milljóna húsnæðislán fyrir tveimur árum skuldar um 17,2 í dag. Mánaðarlegar afborganir hafa hækkað umtalsvert.

Ef þakið fer að leka eða klóaklögnin springur þá er allt í einu komin reikningur upp á nokkur hundruð þúsund. Það er meira en flestir hafa efni á á þessum árum. Þess vegna þurfum við að efla traustan og ódýrari leigumarkað fyrir venjulegt fólk sem vill frekar fjárfesta í einhverju öðru, t.d. verðbréfum nú eða bara geta haft það aðeins rólegra, unnið aðeins minna, verið meira saman og sinnt börnunum sínum.

Borgarfulltrúar meirihlutans í borginni töldu á fundinum í gær upp nokkur atriði sem fyrrverandi meirihluti var búinn að setja af stað, íbúðir fyrir þá sem þurfa á félagslegum stuðningi að halda og íbúðir fyrir námsmenn. Það er gott að núverandi meirihluti haldi áfram því sem byrjað var á í þessum efnum. Hins vegar kom ekkert svar við því hvað borgaryfirvöld ætla að gera til að efla leigumarkað fyrir venjulegt fólk.

Ekkert svar. Við spurðum aftur og aftur. Þetta virðist alveg hafa gleymst. Þau segjast ætla að auka framboð á lóðum. Er lóð skófla og hjólbörur það sem ungt fólk dreymir um þegar það er að útskrifast úr námi, stofna fjölskyldu og hefja krefjandi störf á vinnumarkaði?


Allt á uppleið!

Í síðustu viku mældi Félagsvísindastofnun Samfylkinguna í í Suðurkjördæmi í 25,4% en sú könnun var gerð á þremur dögum og mældi því vel stuðninginn einmitt þá. Þá var Capacent að mæla Samfylkinguna í Suðurkjördæmi í rúmum 22% svo á þessum tveimur könnunum virðist vera talsverður munur þótt aðferðafræðin sé að mestu leyti sú sama.

Capacent könnunin er þó gerð á lengri tíma og er hluti af spurningavagni þar sem spurt er um allt frá uppáhaldssjampói til lesturs á dagblöðum. Hún mælir því meðaltalsafstöðu þeirra sem nenna að taka þátt í löngum spurningavagni um margvísleg málefni yfir hálfs mánaðar tíma. Það er svona eins og að vita um fjölda sólarstunda í heilum mánuði, það segir ekki mikið til um sólina á morgun.

Ég hef fundið fyrir mikilli jákvæðni í garð Samfylkningarinnar (ritztjóri Mogganz undanskilinn) síðustu daga og er þess fullviss að kjósendur séu núna að átta sig á þvi hvaða flokkur það er sem hefur stefnu, styrk og lausnir til að takast á við verkefnin framundan. Til að leiða næstu ríkisstjórn.

Sólarstundunum er að fjölga og ég spái sól og hita 12. maí.
Festið kaup á sólarvörn og blævæng!


mbl.is VG og Sjálfstæðiflokkur auka fylgi sitt í Suðurkjördæmi á kostnað Framsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loftslagsmál rædd í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna

Loftslagsbreytingar eru alvarleg ógn, ekki aðeins við lífríki jarðar og lífsskilyrði hundruða milljóna manna, heldur hreint og beint ógn við öryggi í heiminum. Þetta er álit bresku fulltrúanna í Öryggisráðinu, samkvæmt frétt RÚV í dag. Þar segir m.a.

Margaret Beckett, utanríkisráðherra Bretlands, stýrir fundi Öryggisráðsins sem Bretar hafa boðað, til að sannfæra aðildarríkin um að lofslagsbreytingarnar sé ógnun við alþjóðlegt öryggi. Breski utanríkisráðherrann segir að áhrif loftslagsbreytinga á öryggismálin séu miklu meiri en nokkurt stríð. Mikið álag sé á auðlindum jarðar sem valdi spennu í heiminum sú spenna aukist vegna óstöðugs loftslags....Búist er við því að ráðherrar fjölda ríkja taki þátt í umræðum Öryggisráðins í dag þar á meðal frá Maldíveyjum á Indlandshafi sem hætta er á að sökkvi í sæ vegna hækkandi sjávarstöðu vegna loftslagsbreytinga.

Aðrar þjóðir eins og Rússar, Kínverjar og margar þróunarþjóðir draga í efa að málið eigi heima í Öryggisráðinu sem ætlað er að fjalla um frið og öryggi í heiminum. Breski utanríkisráðherrann Margaret Beckett segir hins vegar að þar sem lofslagsbreytingarnar hafi mest áhrif muni verða skortur á ýmsum grundvallar lífsnauðsynjum sem auki hættu á átökum og stríði, dæmi um þetta sé stríðið í Darfur héraði í Súndan sem hafi hafist vegna átaka um hverfandi auðlindir.

Þetta höfum við í Samfylkingunni ítrekað bent á, oft við miklar efasemdir og stundum háð úr röðum Frjálshyggjunnar. Í ræðu sinni á nýafstöðnum landsfundi sagði Ingibjörg Sólrún m.a.

Mesta váin sem steðjar að Íslandi er ekki ímyndaðir óvinir þeirra sem sakna mest kalda stríðsins, heldur umhverfisslys í hafinu við landið og þau ófyrirséðu áhrif sem hlýnun loftslags jarðar getur haft á umhverfi okkar og veðurfar. Við metum rauverulega vá og skirrumst ekki við að axla ábyrgð í samvinnu við aðrar lýðræðisþjóðir.

Í stjórnmálaályktun landsfundar segir m.a.

Loftslagsváin er nú helsta sameiginlega úrlausnarefni mannkyns. Samfylkingin vill tímasetta metnaðarfulla áætlun um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

Loftslagsbreytingar munu stökkva hundruðum milljóna manna á flótta vegna hækkunar á sjávarstöðu, þurrka og fellibylja. Það mun vekja ófrið eins og við höfum séð víða í Afríku og Miðausturlöndum því samhliða þessu færist sífellt meiri harka færist í baráttuna um auðlindir jarðar. Þetta mun snerta okkur Íslendinga beint.

Nú þegar þurfum við nánast að fara á nærfötunum í gegnum öryggishlið á flugvöllum hvar sem við komum vegna árásar á Bandaríkjamenn 2001. Það væri grunnhyggni að halda að heimsófriður vegna loftslagsbreytinga teygi ekki arma sína hingað til lands. Það er tímabært að horfast í augu við þá ógn sem okkur stendur af ónauðsynlegri rányrkju auðlinda jarðar.


Poj, poj Jón Páll

Jón Páll er hæfileikabúnt, hvort heldur sem leikari eða leikstjóri. Vona að hann fái hlutverkið.
Poj, poj, eins og sagt er í leikhúsinu.
mbl.is Boðið hlutverk í Harry Potter?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stétt með stétt

Margt hefur verið skrifað og skrafað um Sjálfstæðisflokkinn að undanförnu. Mörgum þykir hann ætla að leika sama leik og í borgarstjórnarkosningum og klæðast rauðum og bleikum klæðum. Ég veit það ekki. Kannski hefur hann bara skyndilega fengið áhuga á velferðarmálunum á svona heppilegum tíma, núna korteri í kosningar. Það er ekkert skrýtið. Auðvitað einangrast menn örlítið í góðra vina hópi á milli kosninga. Á Alþingi þar sem stórkostleg máltíð kostar aðeins 390 krónur er auðvelt að gleyma hvernig aðrar stéttir hafa það.

Ekki skrýtið að menn undrist og efist þegar menn lesa það í skýrslum að 5000 börn á Íslandi búi við fátækt, að yfir 400 aldraðir séu á biðlista eftir hjúkrunarheimilum, yfir 900 í þvingaðri sambúð. Ekki heldur gaman að frétta nýverið að íslensk börn eru með mest skemmdu tennur í okkar heimshluta eftir langa stjórnarsetu Flokksins. Það er því eðlilegt að flokki allra stétta hafi brugðið og sakað Samfylkinguna sem bað um úttekt á stöðu barna um áróður og sérfræðinga um beita reiknibrellum. Það er áfall að uppgötva þetta.

En nú eru hinir háu herrar búnir að uppgötva þetta og játa að þeir hafa sofið á verðinum. Og þeir ætla snarlega að bæta úr vandanum. Afstöðubreytinguna má líklega þakka landsfundi Sjálfstæðismanna þar sem þeir hittu fólk af öðrum stéttum. Þetta má glöggt sjá af viðbrögðum borgarfulltrúa Sjálfstæðismanna Gísla Marteini Baldurssyni sem sagði eftir fundinn:

Þegar fram kemur hugmynd sem manni finnst alveg út í hött kemur mér alltaf jafn þægilega á óvart að fullt af fólki, sem maður þekkir ekki neitt, stendur upp og mælir svo skynsamlega að manni finnst það eins og talað út úr sínu hjarta. Og þó er það annars staðar frá landinu en maður sjálfur og úr annarri stétt.

Ef þeir héldu landsfundi oftar þá myndu þeir oftar hitta fólk af öðrum stéttum sem getur sagt þeim hvernig lífið er hjá öðrum stéttum. Þá þyrftum við í Samfylkingunni ekki alltaf að vera að segja þeim það. Nú og svo væri líka bara hægt að skipta um stjórn og láta okkur sem erum af öðrum stéttum um stjórnina. Það þyfti þá ekki alltaf að bíða eftir landsfundum og kosningum eftir að rétta hlut annarra stétta. Þá værum við kannski stéttlaus þjóð. Allir á sama plani. Og hærra plani!


Frábærum landsfundi lokið!

Það var gríðarleg stemning á fundinum bæði í dag og í gær. Ingibjörg Sólrún, Mona og Helle fluttu frábærar ræður í gær, ræður sem blésu hátt á annað þúsund manns baráttuanda i brjóst í baráttu fyrir jöfnum tækifærum karla og kvenna, höfuðborgar og landsbyggðar, ríkra og fátækra til að að njóta og gera verðmæti úr hæfileikum sínum, sjálfum sér og samfélaginu til góðs.

Í gær og í dag voru svo málefnin rædd nánar og góðar tillögur gerðar enn betri, ræður haldnar um verkefni Samfylkingarinnar í nánustu framtíð, stjórnmálaályktun samin og samþykkt og síðast en ekki síst fjörið fangað með frábærri tónlist.

Glæsilegur fundur, glæsilegir frambjóðendur og verðugt verkefni framundan! Ég hlakka til!


mbl.is Ingibjörg Sólrún: Erum orðin fullmótaður flokkur jafnaðarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Græn skref í Reykjavík

grænt hjólÍ gær kynnti meirihlutinn í Umhverfisráði nokkur græn skref sem Reykjavíkurborg ætlar að stíga á næstu árum. Ég sé sérstaka ástæðu til að hrósa meirihlutanum fyrir þetta framtak sem er með fullum stuðningi minnihlutans í Umhverfisráði.

Það er gott að sjá að þeirri miklu undirbúningsvinnu fyrrverandi meirihluta sem m.a. má sjá í merkilegu plaggi, Reykjavík í mótun, verkefnis sem tilnefnt var til norrænna verðlauna, verður fylgt eftir með aðgerðum. Þetta er til vitnis um raunverulegan áhuga formanns Umhverfisráðs á grænum málum sem er afar jákvætt og vonandi til marks um breyttar áherslur Sjálfstæðisflokksins á þessu sviði.

Þegar umhverfismálin eru annars vegar er gríðarlega mikilvægt að pólitísk sátt ríki um aðgerðir. Þetta gildir ekki síst þegar um er að ræða framfaramál sem auðvelt getur verið að gera tortryggileg, t.a.m. aðgerðir sem miða að því að draga úr notkun einkabílsins og minnka mengun, höft á frelsi einstaklingsins til að nota nagladekk, stýring umferðar með bílastæðagjöldum o.s.frv.

Framfaramál af þessu tagi hafa stundum reynst meirihluta mjög erfið í framkvæmd vegna andstöðu minnihluta. Okkur í Samfylkingunni sem nú erum í minnihluta er hins vegar sérstaklega ljúft að styðja öll framfaramál af þessu tagi og erum afar ánægð yfir því að í Umhverfisráði ríkir nú gagnkvæmur skilningur á þörfinni fyrir þverpólitíska sátt um aðgerðir í umhverfismálum.

Ég hvet alla til að kynna sér hin Grænu skref sem sjá má í heild hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband