Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Jarðsprengjupólitík

Jarðsprengjur eru subbuleg stríðstól. Þær eru oftast notaðar af her á flótta sem vill valda sem mestu tjóni hjá þeim sem reka flóttann. Oftast valda þær þó almenningi mestum skaða.

Sú stjórn sem nú er að fara frá hefur verið umboðslaus frá því henni var slitið fyrir um viku. Til að tryggja að þjóðin væri ekki án framkvæmdavalds á meðan verið er að mynda nýja stjórn fól forseti lýðveldisins fráfarandi stjórn að starfa þangað til.

Nú þegar mest ríður á að grípa til aðgerða til bjargar fyrirtækjum og heimilum í landinu lætur einn ráðherra Sjálfstæðisflokksins sér sæma að planta jarðsprengjum í fótspor sín. Ákvörðun Einars K Guðfinnssonar um hvalveiðikvóta til 5 ára líklega ein siðlausasta aðgerð stjórnmálamanns á síðari tímum, jafnvel þótt skipanir ættingja og vina sjálfstæðismanna í dómarastöður séu taldar með.

Hið augljósa siðleysi er að taka afar umdeilda stefnumótandi ákvörðun án þess að hafa til þess umboð. Hinn augljósi tilgangur Einars er þó verri, hann er ekki bara siðlaus heldur ber hann vitni um pólitískt hugleysi.

Hvalveiðar eru og munu verða umdeildar. Skoðanir með og á móti ganga þvert á flokkspólitískar línur. Ágreining um þær eiga menn ekki að nota til að hindra björgunarstörf þótt þeir séu fúlir yfir að hafa misst traust almennings og verið sendir heim af vettvangi.


Kúgaður formaður í meðvirkum flokki

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið óstjórntækur frá því í bankahruninu. Hægfara var foringinn fyrir en lamaður á eftir. Ekkert var hægt að ákveða nema að GHH bæri það fyrst undir Seðlabankastjóra og fengi samþykki hans.

Aldrei hefur mátt hrófla við Davíð, ekki einu sinni eftir dæmalaust viðtal sem hann sjálfur útvegaði sér í Kastljósi, viðtalinu sem kostaði okkur Íslendinga orðsporið því þar sagði Davíð að planið væri að svíkja útlendinga en borga Íslendingum.

Seðlabankastjóri hefur sjálfur upplýst að hann eigi upptökur af símtölum sínum við ráðherra, m.a. GHH. Þessum upptökum á að eyða eftir 3 mánuði en það hefur hann ekki gert, væntanlega af því hann telur að þær geti komið í góðar þarfir síðar.

Geir Haarde hefur verið undir hælnum á sínum undirmanni alveg frá byrjun og ekki nema von að fólk  hafi velt því fyrir sér í fúlustu alvöru hvort Davíð Oddsson eigi kannski myndir af formanni flokksins léttklæddum - svo það sé sagt á penan hátt. Eitthvað hefur hann allavega á hann.

Sjálfstæðisflokkurinn er að tærast upp af innanmeinum og ljóst að flokkurinn mun ekki jafna sig nema að slíta upp með rótum það illgresi sem allt er að kæfa, hvort heldur er ungt fólk, breytt viðhorf eða viðleitni í þá átt að horfast í augu við afleiðingarnar af 18 ára valdasetu flokksins, játa mistök og reyna að læra af þeim.

Ef formaðurinn ætlar að kæfa þessar raddir sjálfsgagnrýni með réttlætingarræðum og yfirklóri á flokkurinn sér ekki viðreisnar von. Sem er út af fyrir sig allt í lagi mín vegna.


mbl.is Geir: Stjórnuðust af hatri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta var allt bara vondur draumur...

...og nú vöknum við og það er aftur komið 1989!

Svona eins og þegar Pamelu í Dallas dreymdi bara að Bobby hefði dáið!


mbl.is Ósnortin íbúð frá tímum kommúnistastjórnarinnar kemur í leitirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grafarvogur, Kjalarnes og Breiðholt í sérflokki

Á fundi Umhverfis- og samgönguráðs í gær var kynnt niðurstaða úr könnun sem leiddi í ljós að tæplega þriðjungi grunnskólabarna er ekið í skólann. Þetta er afar mismunandi eftir hverfum t.d. er 33% barna í Vesturbæ og 37% barna í Hlíðum, Laugardal og Háaleiti ekið í skólann. Í Grafarvogi og á Kjalarnesi fara aðeins 16% barna með bíl í skólann og aðeins 14% í Breiðholti.

Þessi munur er sláandi og það er mikilvægt að finna út úr því hvað þarna liggur að baki. Á fundinum kom fram það sjónarmið að í sumum hverfum óttaðist fólk svo um börnin sín vegna umferðarinnar í kringum skólann að það þyrði ekki annað en að keyra börnin þangað! Þetta er vítahringur.

Á fundinum í gær ítrekaði ég fyrir hönd minnihlutans tillögu sem við lögðum fram 23. september sl. Tillögunni var á sínum tíma vel tekið af hálfu meirihlutans sem bókaði ánægju sína með hana en svo virðist hún hafa lent ofan í djúpri skúffu. Tillagan er svona.

Tillaga um græna samgöngustefnu í hverfum borgarinnar.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Margréti Sverrisdóttur og áheyrnarfulltrúa F-listans í umhverfis- og samgönguráði leggja til að nú þegar verði hafist handa við mótun grænnar samgöngustefnu allra hverfa borgarinnar. Samgöngustefna hvers hverfis verði unnin í nánu samstarfi við íbúasamtök, hverfisráð, skóla og foreldrafélög hvers hverfis. Í samgöngustefnu hverfanna verði sérstaklega hvatt til þess að foreldrar gangi með börnum sínum í leikskólann og fylgi ungum börnum í grunnskólann. Einnig verði lögð á það sérstök áhersla að foreldrar kenni stálpuðum börnum sínum að nota strætó til að komast til og frá tómstundastarfi.

Það er ótækt að börn séu keyrð í skólann af því foreldrarnir eru svo hræddir um að annars stafi þeim hætta af umferðinni. Að 37% barna skuli ekið í skólann á morgnana þýðir að í 500 barna skóla er hátt í 200 bílum ekið inn á skólalóðina á örfáum mínútum um kl 8.

Það eru lífsgæði að geta gengið í skólann, það er holl hreyfing fyrir börnin og ljóst að hverfisbragurinn batnar til muna ef hægt er að sleppa þessu skutli.


Sjálfstæðisflokkurinn óstjórntækur

Því miður er staðreyndin sú að Samfylkingin gat ekki lengur réttlætt fyrir sér seinaganginn og verkleysið undir forystu formanns Sjálfstæðisflokksins. Því voru sett skilyrði fyrir áframhaldandi samstarfi og eitt þeirra skilyrða var að sá sem leiddi ríkisstjórnina væri hvorki sjúklingur eða í formannsslag. Þessu gat Sjálfstæðisflokkurinn ekki unað og sýndi með því að hann tekur sjálfan sig sem valdastofnun fram yfir þjóðarhag. Svo sem ekki ný sannindi.

Á vettvangi borgarmála hefur verið mikil samvinna á milli meirihluta og minnihluta. Það hve vel hefur til tekist er ekki síst því að þakka að minnihlutinn hefur með afgerandi hætti ákveðið að styðja meirihlutann í öllum góðum málum - og hefur jafnvel átt frumkvæði að mörgum þeirra án þess að eigna sér heiður af því.

Nú verður áhugavert að sjá hvort Sjálfstæðisflokkur á Alþingi skynjar hlutverk sitt í minnihluta á sama hátt. Geirs óska ég góðs bata.


mbl.is „Samfylkingin bugaðist"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á snældu skaltu stinga þig...

Spuninn hjá Sjálfstæðisflokknum hefur allt frá því í gær og ekki síst með Mogganum í morgun verið sá að Ingibjörg Sólrún heimti forsætisráðherrastólinn. Það er auðvitað fráleitt enda Ingibjörg ekki með fulla starfsorku enn.

Samfylkingin gerir hins vegar þá kröfu til samstarfsflokksins að sá sem stjórnar verkum í ríkisstjórninni þessa örlagaríku mánuði fram að kosningum sé hvorki sjúklingur eða í baráttu um formannssæti í flokki sínum.

Það er ekki ósanngjarnt að gera slíka kröfu og í raun alveg stórfurðulegt hvað Samfylkingin hefur verið þolinmóð í samstarfi við daufgerðan og verklítinn forsætisráðherra sem öðru fremur virðist hanga í strengjum brúðumeistarans á Svörtuloftum.

Nú reynir á Vg. Eru þau ákveðin í að axla ábyrgð með því að koma í stjórn á erfiðum tímum eða ætla þau að bakka inn í þjóðstjórnartillöguna? Eru þau til í að horfa á málið af fullri alvöru og sleppa því að slá um sig með glórulausum tillögum s.s. að segja upp IMF planinu og segja upp lánalínum?

Vonandi, því það veitir ekki af einbeittri stjórn. Landið stendur enn í ljósum logum. Ef ekki verður brugðist hratt við mun stór hluti fyrirtækja fara á hausinn á næstu vikum og mánuðum. Sama gildir um heimilin í landinu. Það þarf að ráðast í bráðaaðgerðir og á sama tíma þarf að leggja grunn að langtímaplani.

Spuni Sjálfstæðisflokksins hittir hann sjálfan fyrir. Hann stakk sig á snældunni og sefur vonandi í langan tíma. Kannski hundrað ár.


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lesið í viðbrögðin

Það er merkilegt að renna yfir viðbrögð á bloggi og í fréttum við afsögn Björgvins G.

Í fyrsta skipti sem ráðherra á Íslandi axlar pólitíska ábyrgð skiptast viðbrögð fólks í nokkur horn. Öllum finnst ákvörðunin rétt og margir segja hana virðingarverða en sumir bæta við að fyrr hefði mátt vera. Þetta myndi ég álíta að væru hin almennu viðbrögð fólks sem engra pólitískra hagsmuna hafa að gæta. Ánægja og von um að fleiri sjái sóma sinn í að fylgja fordæmi Björgvins.

Svo eru þeir sem virðast vera heldur fúlir yfir þessu öllu saman. Þetta er áhugaverður hópur og nær eingöngu skipaður pólitíkusum. Nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Sigurður Kári Kristjánsson, og formaður Vinstri grænna hafa t.d. allir látið að því liggja að þessi afsögn sé bara eitthvert almannatengslatrikk.

Get svo sem ekki sagt að ég hafi haft væntingar um mikla jákvæðni frá Steingrími J. Þótt ég hugsi langt aftur í tímann man ég ekki eftir að hann hafi nokkurn tímann verið ánægður með jákvæð pólitísk tíðindi sem ekki tengdust honum sjálfum eða Vg. Sömuleiðis var fyrirsjáanlegt að Sigurður Kári sæi bara þessa hlið mála. Sjálfstæðismenn virðast ekki skilja hugtakið pólitísk ábyrgð - hvað þá heiðursmannaafsögn.

Hitt er nú verra með Sigmund Davíð frænda minn og ýmsa aðra í hans flokki. Hann hélt ég að væri nógu stór maður til að fagna virðingarverðum og jákvæðum fréttum þótt frá mótherjum kæmu. Það gerði ég þegar Sigmundur var kjörinn formaður Framsóknar og þótt ýmsum þætti furðulegt af mér að fagna jákvæðum breytingum á tilveru mótherjanna fannst mér þetta bara sjálfsagt - nóg væri víst eftir til að bæta í heiminum þótt Framsókn lagaðist agnarögn.

En við erum auðvitað frekar fjarskyldir.


Góð ákvörðun

Mér hefur fundist óréttlátt að heimta afsögn Björgvins á meðan ekki er farið fram á slíkt af ýmsum öðrum, þ.m.t. ákveðnum ráðherrum, sem meiri ábyrgð bera. Nú hefur Björgvin tekið af skarið og verður forvitnilegt að sjá hvort aðrir sjá sóma sinn í að fylgja fordæmi hans.


mbl.is Björgvin segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gæti skýringin verið sú...

...að sitjandi þingmenn flokksins á landsbyggðinni hafi mun meiri tök á fámennum félögum í sínum kjördæmum en höfuðborgarþingmenn á fjölmennum félögum í Reykjavík og nágrenni?
mbl.is Meiri biðlund á landsbyggðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært sprotaverkefni, fóstrað í Viðskiptasmiðjunni

Þetta er frábært dæmi um sprotafyrirtæki sem við eigum sem betur fer mörg og fer fjölgandi. Gogoyoko nýtti sér þjónustu Viðskiptasmiðjunnar en það er sérstakt háskólanám, stofnað að frumkvæði iðnaðarráðherra. Þangað getur fólk komið með viðskiptahugmyndir sína, fengið faglega ráðgjöf við þróun hennar og stutt hnitmiðað nám á háskólastigi í þeim fögum sem mest þörf er á að afla þekkingar í. Sannkölluð hraðbraut viðskiptahugmynda. Til hamingju gogoyoko!
mbl.is Samið um fjármögnun tónlistarvefjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband