Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvað vill formaður Vg?

Vill formaður Vg örugglega fara í ríkisstjórn? Vill hann ekki í raun halda við ástandinu eins og það er núna og láta búsáhaldabyltinguna um kosningabaráttuna? Þegar úrslit kosninganna 2007 lágu fyrir og hann vildi gera sig kostbæran vafðist ekki fyrir honum að gera málamiðlanir gagnvart Sjálfstæðisflokknum, t.d. varðandi Helguvík.

Nú þegar landið logar í mótmælum og skýr skilaboð koma frá grasrót Samfylkingarinnar lætur formaður Vg sér sæma að mæta í sjónvarpið og tala þvert á það sem gæti orðið til þess að samkomulag næðist á milli þessara flokka. Framganga formanns Vg er heldur köld kveðja til þeirra sem undanfarna daga og nætur hafa mótmælt og krafist breytinga.


mbl.is „Allt kemur til greina"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Knowing me, knowing you...


Frábær fundur - ábyrgðarhluti að slíta stjórnarsamstarfinu ekki strax

Það þarf ekki að fjölyrða um niðurstöðu fundarins. Hún stendur skýr og klár og um hana var alger einhugur. Það þarf að slíta stjórninni, mynda bráðabirgðastjórn og boða til kosninga.

Hitt er alvarlegra að mótmælin vinda nú hratt upp á sig og upp það sem maður sá við Alþingishúsið upp úr miðnætti í kvöld var hrikalegt. Þegar farið er að rífa upp grjóthnullunga til að kasta að lögreglumönnum sem standa varðstöðu er mér hætt að standa á sama.

Þessi mótmæli eru komin úr böndunum, þau eru farin að lifa sjálfstæðu lífi og ekkert getur stöðvað þau annað en að orðið verði við hinni réttlátu kröfu um kosningar. Það er á ábyrgð stjórnvalda að binda enda á þetta áður en eitthvað gerist sem ekki verður aftur tekið.


mbl.is Samþykktu ályktun um stjórnarslit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þau vanmeta hvað fólki sárnar að missa húsin sín"

Þetta sagði grandvar húsnæðiseigandi við mig í gær þegar ég flutti honum fréttir af mótmælunum. Það er mikið til í því. Fólki sárnar líka að missa vinnuna, að fámennur hópur hafi sett landið á hausinn, að allt eftirlitskerfið hafi brugðist, að vanhæft fólk sem nú er vitað að var sannanlega varað við hruninu skuli enn sitja sem fastast. O.s.frv.

Þegar ég stóð með Jóni Sigurðssyni á Austurvelli í gær kom til mín maður sem spurði af hverju oddviti ríkisstjórnarinnar kæmi ekki hreinlega út og talaði við fólkið. Bæði um gjallarhorn og talaði milliliðalaust við fólk um ástandið, hvað væri í gangi, hvernig búast megi við að nánasta framtíð verði. Það var fátt um svör.

Það er skrýtið að standa utan múranna og fylgjast með 2.000 manns berja veggi alþingishússins, potta og pönnur og þeyta lúðra og heyra svo þá skoðun sumra ráðherra að mótmæli megi ekki ganga svo langt að þau trufli störf þingsins. Hin undirliggjandi meining er sú að mótmæli séu ágæt svo lengi sem ekki þurfi að taka mark á þeim.

Hvað þarf maður að vera firrtur til að verða pirraður yfir því að geta ekki rætt vínsölu í búðum þegar 2.000 manns berja húsið að utan?


mbl.is Mótmælendur umkringdu Geir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fundur annað kvöld

"Ætli gasið nái hingað?" spurði mig virðuleg eldri kona sem sat á bekk suðaustan við Jón Sig á Austurvelli klukkan tæplega eitt í dag. Við tókum tal saman og fólk streymdi að. Hún var komin til að taka þátt í mótmælum, sýna samstöðu með þjóðinni. Sama var uppi á teningnum hjá eldri bónda úr Dalasýslu sem furðar sig á þeim losarabrag sem honum virðist vera á öllum málum.

Brátt var Austurvöllur orðinn fullur af fólki. Hátt í 2000 manns heyrði ég útvarpsmann segja. Fólk með lúðra, gömul kona með alvöru gamaldags hrossabrest, konur börðu potta og pönnur, fólk með fána og mótmælaspjöld, snjóboltum kastað í Alþingishúsið, hávaði, hróp, baráttusöngur. Margir þjóðþekktir einstaklingar, sagnfræðingar, rithöfundar, listafólk, jafnvel einn og einn stjórnmálamaður en enginn úr stjórnarflokkunum nema ég og Þórlindur Kjartansson sýndist mér.

Krafan um kosningar er skýr. Eins og ég hef áður sagt held ég að hún sé bæði sanngjörn og skynsamleg. Eftir hrunið er allt önnur staða í samfélaginu, allt aðrar forsendur og það þarf því allt aðrar áherslur en kosið var um síðast. Nú þarf að setja fókusinn á framtíðina, leggja fram hugmyndir og tillögur að því hvernig best er að koma þjóðinni upp úr kreppunni. Kosningar eru eina leiðin til að gera þetta, auk þess sem allir stjórnmálaflokkar þurfa að endurnýja umboð sitt.

Á morgun kl. 20.30 er fundur Samfylkingarfélagsins í Reykjavík um Samfylkinguna og stjórnarsamstarfið á Hallveigarstígnum. Frummælendur eru Mörður Árnason og Lúðvík Bergvinsson. Formaður Ungra jafnaðarmanna, Anna Pála Sverrisdóttir stjórnar fundi sem ekki er ólíklegt að verði athyglisverður.


mbl.is Piparúða beitt við þinghúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkabílismi dauðans

Margir halda að mat á umhverfisáhrifum sé frábær leið til að finna út hvort framkvæmdir eru jákvæðar eða neikvæðar. Það gleymist oft að slíkt mat tekur bara til nokkurra umhverfisþátta, í þessu tilviki loftgæðum, hljóðvist, vatnalífi, fuglalífi, gróðurfari og fornleifum.

"Helstu neikvæðu áhrifin verða á hljóðvist við Úlfarsfellsveg" segir í frétt mbl.is. Það er fráleitt. Helstu neikvæðu áhrifin verða þau að hverfið verður skorið í sundur af hraðbraut. Helstu áhrifin verða aukin hætta á slysum á börnum sem eru á ferðinni í gegnum hverfið, á æfingu hjá Fjölni sem er innan við 100 m frá tilvonandi hraðbraut, á æfingu í tónlistarskólanum, lúðrasveitinni, fund hjá skátunum, skák í Rimaskóla o.s.frv.

Neikvæðu áhrifin eru þau að foreldrar munu þá frekar vilja skutla börnum sínum til og frá tómstundastarfi til að vera örugg um þau og í stað þess að notalegt hverfi iði af lífi, gangandi og hjólandi fólks og barna mun snatt innan hverfisins - og þar með umferðin - stóraukast. Þetta er einkabílismi dauðans.

Staðreyndin er auk þess sú að það er engin þörf á þessum vegi, hvað þá mislægum gatnamótum með þriggja milljarða slaufu. Nú þegar eru tvær ágætar tengingar Grafarvogs við vesturlandsveg. Önnur tengir saman Grafarvog og Grafarholt en frá þeirri tengingu er styttra upp í Úlfarsárdal en stóran hluta af Grafarholtinu. Úlfarsárdalur er því ekki með verri tengingu við Vesturlandsveginn og Grafarvog íbúar Grafarholts.

Það er kominn tími til að við hugsum þessi mál öll upp á nýtt. Hallsvegur er gott dæmi um það þegar umferðarspár og aðalskipulag sviptir embættismenn, verkfræðinga og stjórnmálamenn skynseminni.

Af hverju eigum við að taka 3000 milljónir af skattgreiðendum til að búa til eitthvað sem ekki er þörf á og mun skaða varanlega lífsgæði íbúa í Grafarvogi? Hvernig væri að reyna að finna aðrar betri og kostnaðarminni lausnir í samgöngumálum höfuðborgarinnar en hraðbrautir og mislæg gatnamót?


mbl.is Helstu neikvæðu áhrifin á hljóðvist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Net þjóðgarða og verndaðra svæða

Um 90% allra sem hingað koma segja að fögur óspillt náttúra sé aðalaðdráttaraflið. Lítil en lifandi menningarborg er líka ofarlega á blaði.

Þegar er verið að bera saman atvinnugreinar er yfirleitt látið nægja að bera saman útflutningstekjur. Það er mjög villandi. Hugsið ykkur ef árangur fyrirtækja væri bara mæld í heildartekjum og ekkert talað um útgjöld? Það gæfi ekki rétta mynd.

Hugtakið vinnsluvirði lýsir betur þýðingu hverrar atvinnugreinar fyrir þjóðarbúskapinn. Vinnsluvirði er það sem verður eftir í landinu þegar er búið að draga frá öll aðföng. Hlutur ferðaþjónustunnar í heildarvinnsluvirði þjóðarframleiðslunnar var 4,6% á sama tíma og vinnsluvirði stóriðjunnar var 2%.

Ferðaþjónustan á mikla vaxtarmöguleika inni. Ferðamálaráðherra barðist fyrir auknu fé til þessa málaflokks enda mörg brýn verkefni sem bíða. Að efla innviðina, bæta aðstöðu á fjölsóttum stöðum, auka gæði þjónustunnar, byggja upp söfn og styrkja rannsóknir svo dæmi séu nefnd.

Svo þarf að ljúka Rammaáætlun um vernd og aðra nýtingu náttúrusvæða og nota þá niðurstöðu til að ramma inn net þjóðgarða og verndaðra svæða. Ég er sannfærður um að tillaga Landverndar um Eldfjallagarð á Reykjaneshrygg væri frábært innlegg í slíka áætlun.


mbl.is Ísland eitt það heitasta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óska Sigmundi og Framsókn til hamingju

Ég óska Sigmundi og Framsóknarflokknum til hamingju með þessi úrslit. Ég held að með þeim hafi Framsóknarflokkurinn stigið stórt skref í þá átt að rífa sig lausan frá spillingarklíkunni sem stundum er kölluð flokkseigendafélagið. Því ættu allir að fagna, einnig pólitískir keppinautar. Það er nóg eftir af ranglæti og spillingu til að takast á við í íslensku samfélagi þótt Framsókn aflúsi sig.

Vonandi lætur flokkurinn ekki staðar numið þarna heldur gengur alla leið og hefur frumkvæði að því að fara ofan í saumana á viðskiptum Finns Ingólfssonar, Þórólfs Gíslasonar og fleiri flokksgæðinga sem hafa lengi dansað í skuggunum.

Ef ekki er hætt við að orðum Björgvins Halldórssonar verði snúið upp á Framsókn:
Ný föt? Sama röddin.


mbl.is Sigmundur kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krafa nr. 1 er kosningar

Þetta var góður fundur. Gylfi Magnússon hélt gagnorða ræðu en af mikilli stillingu svo ekki þarf að efast um hans faglega heiður.

Það er auðvitað margt sem hefur verið gert vitlaust og margt sem hefur verið gert vel síðan allt hrundi. Það sem er vanhugsað er eðlilega gagnrýnt af fullri hörku og hitt sem vel er gert setur - einnig af eðlilegum orsökum - ekki af stað neina fagnaðarbylgju.

Ekkert sem vel er gert mun vekja lukku fyrr en það er búið að væra völdin aftur í hendur almennings með kosningum. Það er krafa nr. 1 og fyrr en gengið hefur verið að henni mun ekkert þokast.

Ég hitti nýlega þingmann sem sagði að það gæti verið nóg að skipta út fólki í ríkisstjórninni. Ég held að það myndi engu breyta. Það væri alveg eins hægt að skipta um föt!


mbl.is Fjöldi manns á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað sagði Páll Pétursson?

Ég gat ekki betur heyrt á Páli Péturssyni (og það er í takti við málflutning formannsframbjóðendanna) að hin ófrávíkjanlegu skilyrði sem Framsókn setur séu svo ströng að það sé í raun óþarfi að fara í þessar samningaviðræður.

Að með þessu séu Framsóknarmenn í raun að hafa sjálfa sig að fíflum! Áhugavert.

Og ekki síður áhugavert að Framsóknarmenn beri enga ábyrgð á kreppunni. Það eina sem þeir gerðu var að stýra ríkisstjórn frá 2005 og höfðu þar á undan verið í ríkisstjórn í 10 ár, ráðist í þensluhvetjandi stóriðjuframkvæmdir, hellt olíu á þenslubálið með skattalækkunum, sett 90% húsnæðislán á markað, afnumið bindiskyldu bankanna og nært drauminn um Ísland sem alþjóðlega fjármálamiðstöð. Annars komu þeir hvergi nærri!


mbl.is Framsókn vill sækja um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband