Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Umferðarspár - villidýr sem elur sig sjálft

Því fylgir undarleg tilfinning að setja sig inn í áætlanir um umdeilda vegagerð í borginni. Þessu hef ég kynnst sem fulltrúi í umhverfis- og samgönguráði en ekki síður vegna setu í samráðshópi um Hallsveg í Grafarvogi. Þegar maður spyr gagnrýnna grundvallarspurninga eins og hvort hinn nýi vegur sé nauðsynlegur þá verður uppi fótur og fit.

Embættismenn útskýra fyrir manni að vegurinn sé á aðalskipulagi og verkfræðingar koma og sýna manni umferðarspár sem allar eru á sömu lund - umferð einkabílsins mun aukast. Þegar maður spyr hvort aðalskipulag sé dómur sem þurfi að framfylgja og hvort ekki megi hafa áhrif á umferðarspár frekar en að láta þær hafa áhrif á borgina er horft á mann eins og maður hafi misst vitið.

Reynslan sýnir að því meiri áherslu sem borgir leggja á að búa til götur fyrir einkabílinn því meiri verður umferðin og því meiri sem umferðin er því fleiri akreinar þarf að byggja. Þessu hafa borgarfulltrúar um allan heim verið að átta sig á síðustu áratugi og nú eru m.a.s. margir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins búnir að átta sig á þessari staðreynd.

Nú þegar það þarf að stoppa í allt að 4 milljarða gat í fjárhagsáætlun borgarinnar er vert að hafa í huga að það er til muna dýrara að þjóna samgöngum einkabílsins en almenningssamgöngum.

Nú er Háskólinn í Reykjavík að reisa glæsilega byggingu við Nauthól. Samkvæmt samningum skólans við borgina á borgin bæði að breikka flugvallarveginn og að gera nýjan veg við Hlíðarfót, auk þess að byggja bílastæði og tengja lóðina við gatnakerfið. Samtals á að verja til þessara framkvæmda 800 milljónum á þessu ári. Það finnst mér sóun á almannafé.

Ég er viss um að það er hægt að finna bæði ódýrari og hentugri leið til að koma nemendum HR til og frá skóla en að malbika fyrir þá tvær hraðbrautir frá Miklubraut inn að Nauthól. Ég er líka viss um að þeir myndu sjálfir vilja að borgin forgangsraðaði heldur í þágu barna, s.s. í leik- og grunnskóla.

En sjálfsagt hafa göturnar verið á aðalskipulagi og umferðarspár sýnt fram á það með óyggjandi hætti að þessi fjárfesting væri nauðsynleg!


mbl.is Umferðin nú svipuð og fyrir 5-7 árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitraður vindur í ESB seglin

Strax í upphafi kreppunnar neyddust mörg fyrirtæki sem áður höfðu haft lánstraust hjá erlendum birgjum til að staðgreiða. Jafnvel fyrirtæki sem eru í útflutningi. Þetta skapar mikla erfiðleika því það er þrautinni þyngra að fara frá því fyrirkomulagi að vera með t.d. 30 daga greiðslufrest í að þurfa að greiða fyrirfram.

Jafnvel þegar lánsfé er í boði er þetta erfitt en staðan í dag er sú að það er erfitt að fá lánsfé, það sem hægt er að fá er á meira en 20% vöxtum og svo bætist við að gjaldeyrir á Seðlabankagenginu er skammtaður en enginn erlendur aðili tekur við krónum.

Þess vegna er mér með öllu óskiljanlegt af hverju stjórnvöld skoða ekki alvarlega þann kost að taka evru upp einhliða. Með því móti væri gjaldeyriskreppan leyst, fyrirtæki gætu fjármagnað sig á viðráðanlegum vöxtum, erlendir viðskiptavinir þyrftu ekki að láta vantrú á krónuna fæla sig frá viðskiptum við íslensk fyrirtæki og viðskiptalífið ætti möguleika á að vinna sig út úr erfiðri stöðu.

Creditinfo spáir þroti á fjórða þúsund fyrirtækja á árinu. Því miður held ég að það gæti verið bjartsýni. Þá er eftir að spá fyrir um heimilin. Skv. annarri frétt hér á mbl.is hefur aðilum á vanskilaskrá fjölgað um 2000 á árinu 2008. Samt voru vandræðin varla byrjuð.

Gjaldeyriskrísan, til viðbótar við fjármálakrísu og hrun bankanna, hefur fært þúsundir fyrirtækja og heimila á kaf. Þau geta ekki haldið niðri í sér andanum lengur en nokkra mánuði. Það tekur stuttan tíma að taka evru upp einhliða en mörg ár að fara inn í ESB, fá aðild að ERMII (með 15% vikmörkum) og fulla aðild að Evru fengjum við tæplega fyrr en eftir 8-10 ár.

Væri evran tekin upp einhliða nú þegar og þeim þúsundum fyrirtækja og heimila sem skulda erlend lán þannig gert mögulegt að skipuleggja sig til framtíðar teldi ég mjög eðlilegt og jákvætt að huga strax í framhaldinu að aðildarumsókn.

En ef það á að nota bráðaneyð heimila og fyrirtækja í landinu sem vind í seglin inn í ESB í stað þess að grípa til þeirra ráða sem bjargað geta flestum nú þegar, þá segi ég nei takk.


mbl.is Neita að tryggja Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...eins öruggt og að sólin kemur upp á morgnana..."

"...og ég get treyst því að það er eins öruggt og að sólin kemur upp á morgnana að ég fæ launin mín borguð næstu mánaðarmót..."

Eitthvað á þessa leið orðaði hann það einn bloggvinur minn sem ég hitti yfir kaffibolla til að ræða stækkun álversins í Straumsvík. Sama hvernig veröldin veltir sér og snýst, ef maður vinnur hjá álveri þarf maður engu að kvíða. Um að gera að setja þau sem víðast.

Hvernig verður staðan ef það þarf að loka álverinu fyrir austan eftir einhver ár? Hvernig standa samfélög sem byggja um of á einu fyrirtæki, einni atvinnugrein. Hvernig er samkeppnishæfni vinnuafls í samfélagi sem tekur eina álverksmiðju fram yfir fjölbreytta flóru smærri fyrirtækja af því það er minna vesen og krefst minni menntunar?


mbl.is Tap á rekstri Alcoa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gæsluvarðhald eða farbann?

Ef kominn er upp rökstuddur grunur um þetta sé ég engan mun á því og annarri skipulagðri glæpastarfsemi. Er ekki þörf á að handtaka þá sem bera ábyrgð á þessum svikum og setja þá í gæsluvarðhald, í það minnsta farbann, á meðan rannsókn fer fram?
mbl.is Veittu fólki lán en veðjuðu á veikingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einhliða upptaka evru pólitískt feimnismál?

Á miðvikudaginn var birtist í Morgunblaðinu grein eftir 32 hagfræðinga undir fyrirsögninni "Einhliða upptaka evru er engin töfralausn". Af því það er útaf fyrir sig áhugavert að 32 hagfræðingar skuli geta verið sammála um eitthvað og þar sem ég hef undanfarna mánuði kynnt mér málið allvel settist ég nokkuð spenntur niður við lesturinn. Það verður að segja að miðað við það mannkostalið sem ljáir greininni nafn sitt er hún furðu lélegur pappír. Allt frá fyrirsögn til síðasta orðs gengur greinin út á þá gömlu þrætubókarlist að gera andmælandanum upp skoðun og gagnrýna hana svo frekar en það sem raunverulega er til umræðu. Þeir sem hafa bent á einhliða upptöku evru sem valkost í gjaldmiðilskreppunni hafa aldrei sagt hana töfralausn enda er slík lausn ekki til. M.a.s. innganga í ESB "er engin töfralausn" þótt ýmsir tali þannig. Hvað þessa og aðra útúrsnúninga varðar fannst mér þeim vel svarað í sama blaði daginn eftir af Ársæli Valfells og Heiðari Má Guðjónssyni. Ég ætla því ekki að endurtaka þá orðræðu en langar að benda á annað í sambandi við þessa grein sem mér þykir mun merkilegra en innihald hennar.

smokkaherferðHið fyrsta er að líklega er án fordæma að svo margir sérfræðingar séu beðnir að styðja eina innsenda grein í íslensku dagblaði. Það er þekkt að í kosningum er stuðningsfólki gjarna safnað á auglýsingar til stuðnings ákveðnum frambjóðendum, flokkum eða stefnu. Sama aðferð hefur oft gefist vel í forvörnum gegn áfengi og allir muna jú eftir hinni frægu smokkaherferð með veggspjöldum þar sem fjöldi frægra persóna lék sér með smokkinn. Bubbi samdi frægt lag um að smokkurinn mætti ekki vera neitt feimnismál.

Niðurstaða mín er í stuttu máli sú að hér sé verið að nota hagfræðingana 32 í pólitískum tilgangi. Þá niðurstöðu rökstyð ég þannig:

  1. Í greininni eru of margar augljósar rökvillur til að margir þeirra ágætu manna og kvenna sem henni ljá nafn sitt geti í raun verið höfundar hennar.
  2. Megineinkenni greinarinnar er fyrrnefnd þrætubókarlist sem gengur út á að svara ímyndaðri skoðun andmælanda til að forðast rökræður um raunveruleg efnisatriði.
  3. Mikil vinna hefur verið lögð í að safna undirskriftum fyrir þá skoðun sem fyrirsögnin endurspeglar en talsvert átak þarf til að safna saman svo mörgum hagfræðingum undir einn hatt. (Vitað er um nokkra sem báðust undan þátttöku í þessari liðssöfnun.)

Í hópi 32 menninganna eru nokkrir aðilar sem ég furða mig á að hafi ljáð nafn sitt grein sem ég trúi varla að þeir hafi séð. Í hópnum eru aðrir sem ég furða mig minna á og gæti jafnvel trúað að ættu í henni eina og eina málsgrein. Það eru einkum einstaklingar sem á síðustu árum hafa boðað ágæti peningamálastefnu Seðlabankans eins og guðsorð og eru nú með böggum hildar eftir að kennisetning þeirra beið skipbrot og keyrði landið í dýpstu kreppu sögunnar.

Mér þykir einsýnt að greinin hafi verið skrifuð í þeim pólitíska tilgangi að drepa í eitt skipti fyrir öll umræðu um þann valkost sem Íslendingar hafa í gjaldeyrismálum að taka annan gjaldmiðil upp einhliða. Nú þegar flestir fordæma andlitslaus mótmæli er hin ágenga spurning sem vaknar þessi: Hver hefur pólitíska hagsmuni af slíkri þöggun? Hver skrifaði greinina? Verður Bubbi fenginn til að semja lagið "Einhliða upptaka er engin töfralausn"?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. janúar 2009


mbl.is Fyrirtæki hanga í snöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúlega ekki ofmetið

Þvert á það sem hagfræðingarnir 32 skrifuðu í Moggann á miðvikudaginn er besta lausnin og í raun það eina sem hægt er að gera nógu fljótt til að bjarga fyrirtækjum og heimilum í landinu að skipta einhliða um gjaldmiðil.

Auðvitað er það engin töfralausn, enda hefur enginn haldið slíku fram. Einn hluti af vandanum er að það ríkir alþjóðleg fjármálakreppa og við breytum því ekki. Annar hluti er sá að eftir hrun bankanna ríkir vantraust á íslensku efnahagslífi en alvarlegast er þó að eftir hrunið vantreystir umheimurinn algerlega hinni íslensku krónu. Lái þeim hver sem vill - myntin var um nokkurra ára bil notuð í alþjóðlegum veðmálum (vaxtamunaviðskiptum) þar til blaðran sprakk.

Ef við ætlum að reyna endurlífgun krónunnar með ofurvöxtum og 5 ma $ gjaldeyrisláni sem leggur á okkur vaxtabyrði sem nemur tvöföldu heilbrigðiskerfi landsins þá mun stór hluti fyrirtækja og heimila fara í gjaldþrot. Hef enn ekki hitt neinn hagfræðing sem hefur getað fullvissað mig um annað.

Þess vegna er fráleitt að útiloka einhliða upptöku evru með jafn ómálefnalegum hætti og gert var - að smala saman 32 hagfræðingum og láta þá kvitta upp á grein sem ekki var pappírsins virði. Inn á milli voru þarna stórgáfaðir einstaklingar sem ég skil ekkert í að kvitta upp á svona vitleysu. Hinu er ekki að leyna að þarna er líka hópur manna sem mig minnir að hafi átt þátt í að velja Icesave í 2. sæti yfir viðskiptaafrek ársins 2007 hálfu ári áður en allt hrundi!


mbl.is 3.500 fyrirtæki í þrot?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýsum yfir sjálfstæði Grafarvogs!

Það er nú dálítið sérstakt að ríkið telji sér ekki skylt að halda uppi lágmarksþjónustu við eitt stærsta hverfi borgarinnar. Stundum hefur maður talið að það ætti að sameina öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu en það er kannski bara rugl. Við í Grafarvoginum ættum kannski miklu frekar að lýsa yfir sjálfstæði!
mbl.is Vínbúð í Spönginni lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

The color of money...

The color of money is green eins og Einar Örn Benediktsson, sykurmoli og sérlegur hvata- og aðstoðarmaður Bjarkar Guðmundsdóttur segir stundum. Gömul og góð lína til að lýsa því sem koma skal en setninguna segir persóna Poul Newman í hinni fornfrægu mynd Color of Money.

Það er jákvætt að sjá hvað margir hér á landi eru að átta sig á þessum veruleika. Að framtíðin er græn og að grænn bissness mun verða í fullum bissness næstu 100 árin a.m.k.


mbl.is Framtíðin er græn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplýsingar óskast!!!

Getur einhver fróður lesandi þessarar síðu sagt mér hvort það eru nokkur lög sem hindra að íslenskur kvóti sé veðsettur hjá erlendum veðmangara?

Svo mega lesendur síðunnar gjarna tjá sig um það hvort þeim finnst Ísland, fullveldið, þjóðin eða handhafar kvótans eiga auðlindina. Eins og staðan er í dag get ég ekki annað séð en að það sé algert aukaatriði hvort núverandi handhafar kvótans eiga hann, veðmangarar þeirra eða bara einhverjir allt aðrir!

Ég styrkist æ meir í þeirri skoðun að nú eigi að nota tækifærið sem felst í því að bankarnir eiga (nánast) öll veð í kvótanum til að breyta eignarrétti á kvótanum sjálfum yfir í nýtingarrétt til einhvers tiltekins árafjölda, t.d. 10-15 ára. Það væri í fullkomnu samræmi við hugsunina að baki lögunum sem sett voru um orkuauðlindina í fyrra þar sem tryggt var að orkuauðlindir í almannaeigu yrðu í samfélagslegri meirihlutaeigu áfram.

Þetta þarf að gera strax. Allt snakk um að við glötum sjávarútvegsauðlindinni við að ganga inn í ESB er bara hjáróma við hliðina á því sem þegar hefur gerst. Það þarf fyrst að endurheimta þessi verðmæti áður en það er tímabært að fara að hafa áhyggjur af að glata þeim á ný.


mbl.is Veðin færð með samþykki fyrirtækjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jónína lætur til sín taka?

Nú hvísla menn því að á bak við þessa tugi útlendinga sem allt í einu fengu áhuga á að starfa í Framsóknarflokknum sé sú vaska Jónína Ben sem hefur getið sér gott orð fyrir stólpípuspa í Póllandi og hefur lýst yfir áhuga sínum á að veita Framsóknarflokknum viðeigandi meðferð.

Vandi er að vita slíkt fyrir víst en hinu er ekki að leyna að hið gríðarlega öfluga smalagen Framsóknarmanna lætur ekki að sér hæða.


mbl.is Hiti á fundi framsóknarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband