Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Úbbs! Hvern hefði grunað þetta?

Það skyldi þó aldrei vera að þjóðin sem kaupir öll fótanuddtæki sömu jólin og finnst fjölbreytt atvinnulíf bara vera fyrir vitleysinga af því það á alltaf að redda málinu með einni stórri allsherjarlausn lendi bráðum í svipuðum vandræðum með áleggjakörfuna - rétt eins og fjáreggjakörfuna!
mbl.is Alcoa segir upp 13.500 manns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstök fórnarlund

Það er ekki að spyrja að hinni einstöku fórnarlund þessa góða drengs. Hann þyrstir í spillingarlausa og gagnsæja pólitík þar sem hugsjónir skipa öndvegi en ekki flokka- eða vinatengsl. Hann er líka eldheitur baráttumaður fyrir umhverfismálum um leið og hann átelur harðlega skammsýnina að baki áframhaldandi álversframkvæmdum.

Þegar þetta er haft í huga er ekki skrýtið að Gummi skuli hafa skráð sig í Framsókn. Hann vill vera þar sem bardaginn er harðastur og erfiðust verk að vinna!

Skyldi hann styðja Lúðvík frænda í formanninn?


mbl.is Guðmundur í Framsóknarflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að virkja orku sem er ekki til með peningum sem eru ekki til!

Það er verulega áhugavert að glugga í ársskýrslu Hitaveitu Suðurnesja 2007. Ekki aðeins af því þar segir hreint út að allt þurfi að ganga upp ef það á að nást að afhenda orku fyrir 1. áfanga Helguvíkurálvers í tæka tíð. Ekki heldur af því þar segir að ekki verði hægt að verða við óskum margra fyrirtækja sem hafa óskað eftir 10-50 MW fyrir starfsemi sína.

Ársskýrslan er hins vegar einstaklega áhugaverð þegar maður hugleiðir hvernig þetta fyrirtæki ætlar að fjármagna hinar gríðarlegu framkvæmdir sem nú er stefnt að (og mun útheimta alvirkjun SV horns landsins). Lítum á nokkrar tölur.

Eigið fé í ársbyrjun 2007 voru tæpir 20 ma
Skuldir í ársbyrjun 2007 voru tæpir 17 ma

Rekstrartekjur ársins 2006 voru 6,5 ma
Framleiðslukostnaður (rekstrargjöld) voru 4,2 ma
Vergur hagnaður ársins 2006 var rúmlega 2,3 ma

Vaxtagjöld ársins 2006 voru um 0,5 ma
Innlendar skuldir í ársbyrjun 2007 voru 1,5 ma
Erlendar skuldir í ársbyrjun 2007 voru um 12 ma

Í ársskýrslunni er áætlað að afborgun langtímalána á árinu 2009 muni verða um 0,9 ma
Erlendar skuldir fyrirtækisins hafa hækkað um tæp 100% - úr 12 ma í 24 ma.

Næmnigreining gerir ráð fyrir því að ef allar aðrar breytur haldist stöðugar - sérstaklega vextir - muni 10% lækkun gengis krónunar þýða um 0,8 ma tekjutap eftir skatta. Tekjur munu því rýrna um 7-8 ma miðað við gengið eins og það er nú. Óvíst er hvaða áhrif vaxtahækkun mun hafa.

Næmnigreining gerir ráð fyrir að 10% lækkun álverðs rýri tekur eftir skatta um 241 milljón króna. Reiknað með 40% lækkun álverðs er það lækkun tekna um tæpan milljarð króna.

Nú bætist við að búið er að skipta HS upp í HS orku og HS veitur. HS orka yfirtekur erlendu skuldirnar og nýtur ekki tekna af vatns- og raforkusölu til almennings. Þar fer feitur biti.

Mér segir svo hugur að HS orka eigi afar langt í land með að fjármagna virkjunarframkvæmdir sínar fyrir álver í Helguvík. Er ekki rétt að fara að horfast í augu við það að lítil orkufyrirtæki hafa farið of geyst ekki síður en ýmsir aðrir aðilar?

Væri ekki hyggilegra að líta til nokkurra smærri viðskiptavina en orkufrekjunnar í Helguvík sem hvorki eru til orkuauðlindir til að seðja né heldur til fjármagn til að virkja fyrir?

Framkvæmdastjóri HS segir að 2x50 MW eigi að fá úr stækkun Reykjanesvirkjunar. Það er hins vegar álit Orkustofnunar að svæðið beri ekki frekari hrávarmanýtingu.

Stefna HS virðist vera að virkja orku sem er ekki til og nota til þess peninga sem ekki heldur eru til.


mbl.is Græna netið með efasemdir um Helguvíkursamning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fókusinn á framtíðina

Það er að vísu óþarfi að fara í sérstakar kosningar um það hvort við eigum að fara í aðildarviðræður. Það liggur ljóst fyrir að við eigum að láta á það reyna hvað við gætum fengið út úr slíkum viðræðum. Nóg væri að skipa þverpólitískan hóp sem fengi það verkefni að skilgreina samningsmarkmið okkar.

Ef hins vegar margir vilja kjósa um það hvort fara á í aðildarviðræður eða ekki er sjálfsagt að sýna þeim lýðræðislegu sjónarmiðum virðingu. Og eins og Ingibjörg Sólrún bendir á væri auðvitað gráupplagt að stíga skrefið til fulls og gefa fólki kost á að kjósa aftur til Alþingis.

Eftir hrun efnahagskerfisins, eftir hrun frjálshyggjunnar sem fylgt hefur verið eins og guðsorði í tæpa tvo áratugi og eftir það fjárhagslega hrun sem fólk fær nú að reyna á eigin skinni er engin krafa sanngjarnari en að fá að kjósa á ný til Alþingis.

Ég er ósammála þeim sem telja það óráð. Það er óráð að bíða. Með því að boða til kosninga er fókusinn settur á framtíðina, flokkarnir (gamlir og nýir) fá tækifæri til að endurskoða hlutverk sitt og tilgang, skipta út mannskap eftir því hver telur þörf á og leggja framtíðarsýn sína (og trúverðugleika) í dóm kjósenda.

Kosningar á vormánuðum er bæði sanngjörn krafa og skynsamleg áætlun.


mbl.is Alþingiskosningar samhliða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðilegt nýtt ár

Takk fyrir samfylgdina á því sem er að líða.

Vonandi berum við gæfu til að gera upp það sem fór úrskeiðis og ekki síður að setja fókusinn á það sem þarf að gera til að við náum okkur upp úr þessari vondu stöðu.


Nokkrar spurningar fyrir alvöru blaðamenn

  • Hvort er hér um að ræða álver upp á 250 þúsund tonn eða 360-400 þúsund tonn eins og seinast var í umræðunni?
  • Af hverju taldi Century stærra álver nauðsynlegt til að hægt yrði að fjármagna ævintýrið?
  • Hvað er hæft í grunsemdum um að helst vaki fyrir Century að fá samþykktir fyrir pakkanum svo hægt sé að selja hann og bæta fjárhagsstöðu Century?
  • Hvar á að fá orkuna sem álverið þarfnast? (Ath. að ólík svör fást eftir því hvort rætt er við OS eða HS sem tæpast getur talist hlutlaus aðili)
  • Hvað verður þá eftir fyrir aðra aðila sem bæði skila fleiri störfum á hvert MW og meiri virðisauka til samfélagsins - s.s. græna iðaðarstarfsemi af ýmsu tagi?
  • Ætlar Orkuveita Reykjavíkur að framlengja orkusölusamning sinn við Norðurál sem rennur út nú um áramótin? (fundur í dag)
  • Ef svo er, hve mikið mun OR þá eiga eftir til að selja til grænnar iðnaðarstarfsemi?
  • Ef svo er, þýðir það þá að stefnt sé að Bitruvirkjun þrátt fyrir neikvætt umhverfismat?
  • Ef svo er, hvað varð um þá afstöðu OR að ekki ætti að setja öll egg í sömu körfuna?
  • Er slæm fjárhagsstaða Reykjanesbæjar og afleit staða Helguvíkurhafnar aðal ástæða þess hve hart bæjarstjóri Reykjanesbæjar sækir þetta hagsmunamál Century?
  • Er eðlilegt/heppilegt að bæjarstjóri skuldugs Reykjanesbæjar sé jafnframt stjórnarformaður HS og taki ákvarðanir um fjárfestingar þess fyrirtækis?
  • Er eðlilegt/heppilegt að bæjarstjórnarmaður og samflokksmaður bæjarstjórans í Reykjanesbæ sé jafnframt aðstoðarmaður fjármálaráðherra og þar af leiðandi nátengdur samningum ríkisins við Century um mögulegar ívilnanir til handa Century?
  • Er með réttu hægt að segja að bæjarstjóri Reykjanesbæjar, fjármálaráðherra og aðstoðarmaður hans hafi allir mikla pólitíska hagsmuni af því að Helguvíkurálver komist á koppinn?
  • Er hætta á að pólitískir hagsmunir þessara manna hafi áhrif á ákvarðantöku þeirra?

mbl.is Helguvík langt komin í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær leikur!

Náði síðasta korterinu og horfði á hann með handboltakempunni dóttur minni, sem líkt og vinkonurnar æfir stíft með 7. flokki Fjölnis. Bæði lið stóðu sig vel, hörkutilþrif á báða bóga og gat farið á hvorn veginn sem var. Bæði lið mega vel við una.
mbl.is Stjarnan er deildabikarmeistari kvenna í handbolta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á hátíð hækkandi sólar

Á þessari fornu upprisuhátíð sólarinnar er við hæfi að deila með bloggvinum ljóðinu Kyssti mig sól eftir Guðmund Böðvarsson. Ljóðið semur Guðmundur þegar ástir hafa tekist með honum og Ingibjörgu Sigurðardóttur í Hvammi í Hvítársíðu sem svo varð eiginkona hans.

Hann var þá 25 ára en hún 18 ára og ef marka má ljóðið hefur honum þótt útlitið svart og hann ekki hafa nógu bjarta framtíð að bjóða stúlkunni sem hann unni. Slíkar áhyggjur eru víst ekki nýjar af nálinni. Boðskapurinn er þó sá að vonin, ástin og kossar sólarinnar geta flestu breytt til betri vegar. Nokkuð sem alltaf er gott að hafa í huga, kannski ekki síst nú.


Kyssti mig sól

Kyssti mig sól og sagði:
Sérðu ekki hvað ég skín?
Gleymdu nú vetrargaddinum sára,
gleymdu honum, ástin mín.
Nú er ég átján ára.

Þá dunaði haustsins harpa
í hug mínum þungan slátt.
Því spurði ég: Geturðu gleymt þessum rómi
sem glymur hér dag og nátt
og býr yfir dauðadómi?

Því blaðmjúkra birkiskóga
bíður lauffall og sorg,
og vorhuga þíns bíða vökunætur
í vetrarins hljóðu borg
við gluggana frosna þú grætur:

Þá hló hún inn í mitt hjarta
hár mitt strauk hún og kvað:
Horfðu í augu mín, ef þú getur,
ástin mín, gerðu það -
og segðu svo: Það er vetur.

Þá sviku mig rökin og síðan
syngur í huga mér
hinn hjúfrandi blær og hin hrynjandi bára,
hvar, ó, hvar sem ég fer:
Nú er ég átján ára.


Gleðileg jól, kæru bloggvinir, og óskir um marga sólarkossa á nýju ári.


Hvað með samræmi í launamálum?

Nú eru þessir bankar ríkisstofnanir. Forsendur ofurlauna bankanna brustu. Er til of mikils mælst að laun lykilstjórnenda séu í samræmi við laun annarra opinberra embættismanna í svipuðum stöðum?


mbl.is Forstjóri Landsbankans lækkar í launum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn rýrnar hagnaðurinn af Kárahnjúkavirkjun

Það eru að sannast svörtustu spádómar um afleiðingarnar af þessu voðaverki. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn telur að þessari framkvæmd megi kenna um stóran hluta þeirra vandræða sem við höfum ratað í. Auðvitað kom fleira til - röð afdrifaríkra hagstjórnarmistaka fyrri ríkisstjórnar.

Þegar lagt var af stað með Kárahnjúkavirkjun (sem vel að merkja fékkst ekki fjármögnuð á markaði) var reiknað með að núvirtur hagnaður af þessari dæmalausu framkvæmd gæti orðið 4-6 milljarðar króna. Það hefur mikið saxast á það síðan. Boranir gengu afleitlega, álverð fer nú mjög lækkandi og áframhaldandi fjármögnun á nógu lágum vöxtum lítur vægast sagt illa út.

Landsvirkjun er nú með verra lánshæfismat en ríkið sem sjálft er verr statt vegna ábyrgða sinna á Kárahnjúkavirkjun.


mbl.is Ríkið endurgreiði Impregilo 1,3 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband