Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ærlegur Steingrímur

Ég tek undir með Dögg Pálsdóttur sem í bloggfærslu við þessa frétt segir Steingrím hafa sýnt fáséð pólitískt hugrekki með orðum sínum í Kastljósi í kvöld. Það er mikið hól frá pólitískum andstæðingi.

Fyrst og síðast fannst mér Steingrímur ærlegur. Hann er, eins og ríkisstjórnin öll, í gríðarlega erfiðri stöðu og getur svo sannarlega ekki valið úr sætu bitana. Hann tekur því sem að höndum ber, lætur skammtímavinsældir ekki villa sér sýn en reynir af heiðarleik að spila sem allra best úr þeim vondu spilum sem þjóðinni hafa verið gefin.

Ég tek hatt minn ofan.


mbl.is Svigrúm til að setja skilyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bílaplanið við Egilshöll lagað

Til mikillar ánægju fyrir undirritaðann og aðra Grafarvogsbúa verður planið við Egilshöll loksins klárað en það hefur verið eitt samfellt polla og holusvæði frá upphafi með tilheyrandi slysahættu.

Á fundi í Umhverfis- og samgönguráði fyrir skemmstu lagði síðuskrifari fram fyrirspurn um stöðuna á þessu máli og hvatti eindregið til að ekki yrði gengið frá frekari samningum öðru vísi en að gengið yrði frá planinu á sómasamlegan hátt.

Samkvæmt samningi við eigendur áttu þeir að klára frágang á planinu fyrir mörgum árum. Sú staðreynd að ekki var staðið við það var í raun nægjanlegt tilefni til að halda eftir greiðslum eða rifta samningnum.

Það er gott að það er búið að lenda þessu máli.


mbl.is Fjölnir í Egilshöllina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjánahrollur og afdalahroki

Þessi athugasemd hins íslenska embættismanns um að hvalveiðar allt að því styrki hvalaskoðun sem atvinnugrein er í besta falli kjánaleg.

Ferðaþjónusta hefur vaxið í heild á síðustu árum og hvalaskoðun sem er ný grein hefur eðlilega verið í örum vexti líka. Að halda því fram að það sé hvalveiðum að þakka er rétt eins og að segja að ef barni er gefið kaffi og sígó og það heldur áfram að stækka þá sé það kaffi og sígó að þakka.

Hér á Íslandi standa hvalveiðisinnar í hatrömmu stríði við hvalaskoðunarfyrirtækin og gera kröfu um að fá að drepa þau sömu dýr og starfsemi skoðunarfyrirtækjanna grundvallast á. Í þessu stríði hafa hvalveiðimenn nánast haft fullnaðarsigur því hvalaskoðunarfyrirtækin hafa fengið griðasvæði sem er allt of lítið til að það dugi til verndar þeim hópi dýra sem þau nota til að sýna ferðamönnum.

Til að ryðja samkeppnisaðilum sínum örugglega úr vegi í hafa hvalveiðimenn brotið bann við veiðum á þessu svæði. Með því að drepa dýr eins nálægt - og jafnvel inni á - hvalaskoðunarsvæðinu eru hvalveiðikarlar í nostralgíukasti viljandi að eyðileggja þjóðhagslega mikilvæga atvinnustarfsemi til þess hægt sé að bæta enn í frystikistur Kristjáns Loftssonar í Japan.

Hún er furðuleg þessi nauðhyggja sem víða má finna stað á Íslandi, að frekar skuli drepa og éta eins og oft var nauðsynlegt í gamla daga en að nýta með því að vernda og njóta þótt augljóst sé að það færi okkur meira í aðra hönd í dag.

Athugasemd hins íslenska embættismanns lýsir afdalahroka þjóðar með veika sjálfsmynd og útblásið egó. Ég hélt sannast sagna að það væri búið að skipta um spólu.


mbl.is Hvalaskoðun veltir milljörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

LeyniHvalur

Á fundi sem Græna netið stóð fyrir um hvalveiðar mættu Kristján og félagar annars vegar og hvalaskoðunarfyrirtækið Elding hins vegar. Kristján óskaði af landsþekktri hógværð og auðmýkt eftir tölum um afkomu hvalaskoðunarfyrirtækisins og fékk þær. Allt uppi á borðum þar.

Undirritaður óskaði eftir að hann gerði fundinum ljóst hver hagnaður hans af hvalveiðibröltinu væri. Hver hefði borið kostnaðinn af utanlandsferðum langreiða til Japans þar sem þar ku vera enn í frysti af því það er enginn markaður fyrir kjötið af þeim.

Kristján hélt nú síður, hann ætlaði sko ekki að fara upplýsa einn eða neinn um það enda kæmi það engum við nema honum. Ég er á öðru máli. Mig grunar að hvalveiðibrölt Kristjáns hafi af stóru leyti verið kostað af opinberu fé. Leyndarhyggja hans styrkir mig í þeirri trú. Það er þó líklega hjóm eitt miðað við þann fjárhagslega skaða sem þessi gufuskipaútgerð veldur einkaaðilum t.d. í hvalaskoðun og tengdri ferðaþjónustu.

Það er merkilegt út af fyrir sig að það skuli vera hægt að svipta fyrirtæki grundvelli starfsemi sinnar sem það hefur varið 15 árum í að byggja upp. Að gamlir karlar í nostalgíukasti skuli fá leyfi til að drepa sömu dýr og blómleg starfsemi hvalaskoðunarfyrirtækja grundvallast á - bara aðeins utar í flóanum.

Það er eins og á Íslandi hafi sá ævinlega ríkari rétt sem ætlar að nýta með því að drepa en sá sem vill nýta með því að sýna.


mbl.is Hvalur 9 á leið til lands með tvær langreyðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðskrum og erfiðar ákvarðanir

Það er enginn skortur á erfiðum verkefnum hjá ríkisstjórn Íslands. Þannig er staðan eftir 18 ára fjármálastjórn Sjálfstæðisflokksins og 12 ára þátttöku Framsóknarflokksins m.a. í einkavinavæðingu og helmingaskiptum ríkiseigna á milli þessara tveggja flokka.

halldórskopmyndEnginn slær formanni Framsóknarflokksins við í lýðskrumi. Síðasta dag fyrir kosningar dró hann fram skýrslu endurskoðenda sem forsætis- og fjármálaráðherrar höfðu sjálfir ekki séð og skammaði þá fyrir að halda henni leyndri. Veifaði plagginu eins og sönnunargagni um landráð. Öll hans upphlaup virðast vera sama eðlis.

Fréttir herma að miðstjórn Framsóknarflokksins sé ekki sérlega ánægð með formanninn og ekki einu sinni sérlega sammála honum. Fréttamenn virtust ekki gefa því mikinn gaum en í ályktun miðstjórnar er því beint til þingmanna að greiða ekki atkvæði með samningnum. Væri miðstjórnin fyllilega sammála formanni sínum hefði ályktunin væntanlega gengið út á að greiða atkvæði gegn samningi um Icesave. Ekki þykir ólíklegt að formaður Framsóknarflokksins verði skamman tíma í embætti og að Guðmundur Steingrímsson komi sterklega til greina sem eftirmaður hans á næsta flokksþingi.

Formaður Sjálfstæðisflokksins segist nú ekki vera viss um hvort hann geti stutt Icesave samninginn, hann sé miklu verri en hann hafði vonast til. Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórn voru ráðherrar hans tilbúnir að selja strax allar eignir Landsbankans erlendis upp í 75% krafna og taka lán fyrir restinni á mun hærri vöxtum en nú hefur tekist að semja um. Og nú talar formaður flokksins um vondan samning! Þetta minnir á mann sem var fylgjandi aðild að ESB daginn fyrir flokksþing en eindregið á móti tveimur dögum síðar.


mbl.is Ríkið stígur fyrsta skrefið á langri ferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsamleg nálgun

Loftslagsmálin virða ekki landamæri þjóðríkja frekar en önnur umhverfismál. Afleiðingar hlýnunar loftslags geta verið alvarlegar fyrir okkur Íslendinga ekki síður en aðrar þjóðir. Þorskurinn og aðrir nytjastofnar færa sig norðar, Golfstraumurinn gæti breytt um styrk og stefnu, jöklar hverfa og vatnsforði minnkar en yfirborð sjávar hækkar sem skapar víða flóðahættu.

Annars staðar í heiminum eru tugir og jafnvel hundruð milljóna í hættu vegna fellibylja, flóða og þurrka. Þessar hörmungar munu valda uppskerubresti, hungri, fólksflótta, átökum og aukinni hættu á farsóttum. Slíkt ástand kemur okkur öllum við. Það er því skynsamlegt að vinna með nágrannaþjóðum að sameiginlegri stefnu í þessum málum.


mbl.is Norræn stefna í umhverfismálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að græða á daginn og grilla á kvöldin

Fræg eru ummæli hugmyndafræðings Sjálfstæðisflokksins um að flokksmenn væru ekki sérlega pólitískir. Vildu bara hafa einhvern í að sjá um allt slíkt fyrir sig svo þeir sjálfir gætu grætt á daginn og grillað á kvöldin.
Nú er að kvöldi kominn langur dagur Sjálfstæðismanna við stjórn efnahagsmála og þjóðin sjálf endaði á grillinu. Draumaland Sjálfstæðismanna snérist upp í martröð sem ljóst er að almenningur mun þurfa að vakna upp við á hverjum degi um mörg komandi misseri.

draumal5Framsóknarflokkurinn fer mikinn og segir það nálgast landráð að ábyrgjast skuldir vegna lágmarksinnistæðna IceSave. Þó mér sé það allt annað en ljúft að gangast í ábyrgð fyrir þessum skuldum verð ég að segja að mér finnst málflutningur Framsóknar nálgast lýðskrum.
Að fara í hart við alþjóðasamfélagið myndi enn auka á vantraust á íslensku efnahagslífi og íslenskum stjórnvöldum. Landið myndi einangrast, lánsloforð yrðu dregin til baka, flótti fólks og fyrirtækja færast í vöxt, afar erfitt að finna erlenda fjárfestingu, kreppan dragast á langinn og hætta aukast á vöruskorti.

Draumaverkefni ríkisstjórna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, Kárahnjúkavirkjun, þarf brátt að endurfjármagna. Sendi Ísland umheiminum fingurinn getur Landsvirkjun - og önnur orkufyrirtæki einnig - lent í sama lausafjárvanda og bankarnir lentu í síðastliðið haust. Falli lán LV í gjalddaga án þess að fyrirtækið geti endurfjármagnað reynir á ábyrgð ríkisins og Reykjavíkurborgar en skuldir fyrirtækisins eru yfir 400 milljarðar. Geti ríki og borg ekki staðið við skuldir sínar blasir við að lánardrottnar eignast fyrirtækið og eigur þess - orkuauðlindir landsins.


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn leggur fram efnahagstillögur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Karlar allsráðandi

Meirihlutinn í borgarstjórn gefur lítið fyrir jafnræði kynjanna og kýs eingöngu karla bæði í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og borgarráð - valdamesta ráð borgarinnar.

Þrátt fyrir afar hóflegar væntingar til jafnréttisvitundar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks annars vegar og sjálfstrausts sjálfstæðiskvenna hins vegar hins vegar veldur þessi kosning verulegum vonbrigðum.


mbl.is Karlar í meirihluta í borgarráði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borga helming til baka

Í umræðu um endurgreiðslu ofurstyrkjanna gleymist aðalatriðið, að styrkirnir voru 1) langtum hærri en nokkur dæmi eru um og 2) tímasetning styrkjanna vakti alvarlegar grunsemdir um að með þeim væri verið að liðka til fyrir möguleikum einkaaðila á að fjárfesta í orkuauðlindum í almannaeigu.

Formaðurinn lofaði fyrir kosningar að þessir ósæmilegu styrkir yrðu endurgreiddir. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að endurgreiða aðeins helminginn. Með verðbótum væru 55 milljónirnar þegar orðnar að 75 milljónum. Ef við reiknum með 4,5% verðbólgu, 6,4% vöxtum og að lánið yrði greitt upp á 7 árum yrði heildarfjárhæð á endanum um 110 milljónir.

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar sumsé að gefa sér helmings afslátt af syndaaflausninni.


mbl.is Styrkir borgaðir til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvætt framtak - rímar við tillögur Samfylkingarinnar

Það er margt að gerast í sambandi við sumarstarf ungs fólks. Í gær var kynnt verkefnið "Samfélagið frumkvæði" www.frumkvaedi.is, í dag var svo samþykkt tillaga Svandísar Svavarsdóttur sem getið er um í þessari frétt mbl.is.

Á fundi borgarstjórnar var líka ákveðið að vísa tillögu Samfylkingarinnar um átak í sumarstarfi ungs fólks til ÍTR sem fundar um málið á morgun. Allar þessar tillögur passa vel saman og styðja hver aðra.


mbl.is Stofnuð miðstöð fyrir ungt fólk í atvinnuleit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband