Grænna framundan

Ástandið í efnahagsmálum er ekki gott. Um það eru allir sammála. Verkefnin framundan eru mörg, það þarf að koma gjaldeyrisviðskiptum í lag, lækka vexti á krónunni, ýta undir erlenda fjárfestingu, hlúa að gjaldeyrisskapandi starfsemi, ýta undir nýsköpun og reyna að bæta þann mikla skaða sem ímynd landsins hefur orðið fyrir. En hvernig?

Meira af því sama?
Nú trommar upp hver uppistandarinn á fætur öðrum sem vill meira af því sama og kom okkur í þessi spor. Þingmenn sem skortir forsendur til að vita betur, sveitastjórnarmenn sem taka einfaldan hálfsannleik fram yfir flókinn raunveruleika og uppvakningur úr norrænni gröf stilla nú saman strengi nauðhyggjunnar og biðja um að lögum um mat á umhverfisáhrifum varpað fyrir róða. Um einstaka þingmenn og sveitastjórnarmenn þarf ekki að fjölyrða, orð þeirra dæma sig sjálf. Hitt vil ég rifja upp að þegar uppvakningurinn (sem jafnframt stóð fyrir helmingaskiptum bankanna, afnámi bindiskyldu, 90% húsnæðislánum og illa grunduðum skattalækkunum) barðist sem harðast fyrir Kárahnjúkavirkjun sagði hann „það verður þröngt í búi hjá mörgum fjölskyldum ef ekki verður virkjað". Ég frábið mér frekari ráð frá þeim manni.

Hvað er framundan?
Þegar rykið, sem hrun hins óhefta kapítalisma hefur þyrlað upp, er sest þurfa stjórnvöld, almenningur og fyrirtæki að endurskoða stefnu sína. Ekki dettur mér í hug að segja að kapítalisminn sé dauður, hann mun lifa áfram rétt eins og aðrir frumkraftar s.s. frekja og græðgi. Lærdómurinn er hins vegar sá að slíkar hvatir verður að temja og aga og setja þeim mörk sem byggja á framtíðarsýn til langs tíma.  Það mun liggja ljósar fyrir en áður að efnahagslíf heimsins verður að stefna að sjálfbærri þróun. Að það verður að hætta rányrkju takmarkaðra auðlinda og til að halda lífsgæðum okkar þurfum við að beita hugviti, þróa nýjar leiðir í sátt við umhverfið í stað þess að lifa á kostnað komandi kynslóða. Og í því felast mikil tækifæri fyrir Íslendinga.

Grænt hagkerfi
Stjórnvöld víða um heiminn eru byrjuð að marka sér stefnu um grænt hagkerfi . Árið 2006 gáfu stjórnvöld í Þýskalandi út áætlun um, „New Deal" fyrir efnahagslífið, umhverfið og atvinnulífið. Í henni kom fram að tækifæri og forskot Þjóðverja fælist í færni þeirra til að finna upp og innleiða nýjar lausnir í orkumálum, samgöngum, sorplausnum og á öðrum grænum sviðum. Nú þegar starfa um 250.000 manns að rannsóknum og þróun þessara mála í Þýskalandi. Í vor kom út í Bretlandi skýrsla sérfræðinga undir heitinu „Green New Deal" þar sem bent var á hvernig grænt hagkerfi gæti fært Bretlandi þúsundir „green collar" starfa og bætt samkeppnisstöðu efnahagslífsins í landinu gagnvart umheiminum. Loks hefur Barak Obama sett fram ítarlega áætlun um fjárfestingar upp á að minnsta kosti 150 milljarða dala í grænni tækni og þekkingu á sviði orkumála sem mun skapa milljónir vel borgaðra grænna starfa.

Tækifæri Íslands
Eins og núverandi iðnaðarráðherra hefur bent á hefur Ísland mikla möguleika á að verða sjálfbært orkusamfélag. Í stað þess að halda áfram á sömu braut nauðhyggjunnar og kom okkur í klandur með áframhaldandi yfirgangi gagnvart náttúru og umhverfi ættum við að leita leiða til að nýta betur þá orku sem við eigum. Við ættum að bjóða alþjóðasamfélaginu samstarf um rannsóknir á nýjum lausnum í orkumálum, samgöngutækni, fiskveiðum. Við ættum að bjóða aðstöðu til að þróa og innleiða slíkar lausnir og skapa með því verðmæta reynslu og fjölda starfa fyrir vel menntað fólk sem nú er hætt við að forði sér af landi brott. Við ættum líka umsvifalaust að ráðast í uppbyggingu á neti þjóðgarða, þemagarða og verndaðra svæða um allt land að fordæmi Finna sem gerðu Lappland að heimsfrægu dæmi um vel heppnaðan útivistar- og náttúrutúrsima. Þangað koma nú á fjórðu milljón ferðamanna árlega.
Ef við setjum stefnuna á þetta tvennt munum við auka mennta- og mannauð samfélagsins um leið og við stöndum vörð um náttúruna, öflum mikilvægs gjaldeyris og byggjum upp að nýju laskaða ímynd landsins.

Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu í morgun


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband