Jæja. Það náðist ekki alveg takmarkið sem var að vera á meðal 10 efstu - 8 efstu ef allt gengi mjög vel. Það er þó ekki hægt að vera mikið nær topp 10 en að vera númer 11 - svo horft sé á björtu hliðarnar.
Þótt ég sé leikari hef ég aldrei verið góður í að þykjast, ekki svona prívat, og þess vegna ætla ég ekkert að reyna að halda því fram að ég hafi verið hoppandi glaður með niðurstöðuna. Ég var það alls ekki. Eiginlega alveg hundóánægður - sérstaklega af því það vantaði svo lítið upp á að takmarkið næðist. Það er líklega keppnisskapið - Baskablóðið. Eftir að hafa fengið að sofa út og njóta helgarinnar í faðmi fjölskyldunnar, fara í afmælisboð og tala við stuðningsfólk er ég hins vegar orðinn býsna sáttur við minn hlut. Væri jafnvel farinn að tala um sigur ef helgin hefði verið lengri.
Mestu finnst mér skipta að hafa gert eins vel og maður gat, að hafa talað fyrir jákvæðum málum og ekki látið freistast til að tala annað fólk niður eða sveigja reglur eftir hentugleikum. Ég held að slíkt komi alltaf í bakið á fólki að lokum, ekki síst þeim sem biðja um traust til að setja öðrum lög og reglur í samfélaginu. Ég naut hjálpar frá stórum hópi vina og ættingja sem allir gáfu vinnu sína og margir nokkurn kostnað. Ég er þeim afar þakklátur og ekki síður stoltur af stuðningi þeirra við mig og mín hjartans mál.
Ég get ekki neitað því að ég er hugsi yfir útkomu umhverfis- og náttúruverndar bæði í prófkjörum Samfylkingar og Vinstri grænna. Til hinna flokkanna hafði ég engar væntingar. Ég velti fyrir mér hvort hrunið sé að skapa afturhaldinu og nauðhyggjunni tækifæri til að hrifsa okkur aftur til atvinnustefnu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins. Hún gekk út minnisvarðapólitík, að reisa fáar stórar verksmiðjur með miklum náttúrufórnum og tilkostnaði á meðan ekkert var hugsað um lítil og meðalstór fyrirtæki, nýsköpun, rannsóknir og þróun.
Heimurinn leitar nú leiða til að búa til gott líf á jörðinni án þess að ræna komandi kynslóðir, því það hefur runnið upp fyrir okkur að ef við snúum ekki við blaðinu er hætta á hruni vistkerfisins. Við hliðinni á þeirri ógn er fjármálakreppan bara brandari. Á sama tíma leita Íslendingar leiða til að rétta úr kútnum og koma í veg fyrir atgerfisflótta frá landinu. Til að bregðast við því þarf að horfa fram á veginn en ekki grípa til sömu meðala og komu okkur í þessa stöðu.
Við Íslendingar getum sett okkur metnaðarfull markmið, t.d. um sjálfbært orkusamfélag innan nokkurra ára, um kolefnisfríar samgöngur og kolefnisfrían sjávarútveg, um verndun óspilltrar náttúru og verndun sjávarbotnsins á viðkvæmum stöðum. Við eigum að bjóða helstu þjóðum heims samstarf um að ná þessum metnaðarfullu markmiðum því við höfum margt að bjóða í slíku samstarfi.
Markmið af þessu tagi myndu hvetja ungt vel menntað fólk til að búa hér áfram þrátt fyrir nokkra erfiðleika. Slík markmið myndu draga til landsins erlent rannsóknarfé, erlenda þekkingu á heimsmælikvarða, styrkja stofnanir og háskóla landsins og skapa okkur alþjóðlegt nafn á þessu sviði. Skapa okkur jákvæða ímynd sem myndi hjápa ferðaþjónustu og útflutningsgreinum, skapa gjaldeyri.
Hvort þessi stefna verður í boði fyrir kosningar verður að koma í ljós. Það er ekki á allt kosið.