29.3.2009 | 08:51
Þau eiga hann skilið
Ég á ýmsa góða félaga innan Sjálfstæðisflokksins og á stundum sem þessum stend ég mig oft að því að vorkenna þeim.
Ég gæti nefnt vorkunnarstundir eins og þegar Vilhjálmur Þ hélt einn ræðu í Valhöll með tvo tóma stóla við hlið sér og sexmenningarnir sáust forða sér út um kjallaraopin, þau ótal skipti þegar Geir hefur haldið ræður um að allt væri í lagi og svarað í skætingi eins og móðgaður smástrákur ef hann var spurður gagrýnna spurninga. Og núna þegar Davíð hellir úr sorptunnunni yfir púltið í Valhöll og taugaveiklunarhlátur Hannesaræskunnar, sem nú er að komast á miðjan aldur, hljómar eins og bakgrunnshljóð í lélegri hryllingsmynd.
En því miður eiga þau þetta skilið. Flokkur þar sem ekki er hlustað á hinn almenna flokksfélaga og þar sem kjörnir fulltrúar keppa um hylli flokksforystunnar í tvíþrautinni gagnrýnisleysi og oflofi á ekki annað skilið en svona forystu.
Víkingar með Samfylkingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
28.3.2009 | 22:57
Dagur fólksins
Ég hef kynnst Degi vel þau þrjú ár sem ég hef unnið með honum á vettvangi borgarmála. Það sem mér finnst öðru fremur einkenna hans verk er sterkur og einbeittur vilji til að gefa öllum sem geta og vilja leggja gott til málanna tækifæri til að hafa áhrif - koma hugmyndum sínum á framfæri.
Undir hans stjórn höfum við í borginni boðið til fjölda funda með þeim sem best þekkja til í hverjum málaflokki til að safna saman þekkingu og góðum hugmyndum að lausnum á krefjandi verkefnum. Þar hefur aldrei verið spurt um pólitískar skoðanir - aðeins kallað eftir viðhorfum til þeirra verkefna sem er verið að fjalla um hverju sinni. Þau eru aðalatriðið.
Í fyrra setti Dagur B Eggertsson, sem borgarstjóri Reykjavíkur af stað verkefnið 1, 2 og Reykjavík sem gekk út á að safna ábendingum frá íbúum í Reykjavík um það hvað mátti betur fara í næsta nágrenni borgarbúa. Að baki hugmynd hans lá sú bjargfasta trú að fólk vissi best sjálft hvað mætti bæta og laga í þeirra nánasta umhverfi.
Verkefnið tókst gríðarlega vel, þúsundir ábendinga bárust frá íbúum í öllum hverfum borgarinnar og Reykjavíkurborg var tilnefnd til sérstakra verðlauna Evrópuborga fyrir lýðræðisþátttöku. Því miður er hann ekki lengur borgarstjóri því eftir öllum sólarmerkjum að dæma virðast núverandi borgaryfirvöld ekki skilja tilgang verkefnisins.
Á flokksvísu hefur leiðarljósið verið það sama. Að eiga virk samskipti við grasrótina í flokknum með reglulegum fundum þar sem borgarstjórnarflokkurinn segir frá vinnu sinni og það sem þó er mikilvægara - heyrir álit og ábendingar þeirra sem hafa valið okkur til að starfa í sínu umboði.
Ég hlakka til að sjá Dag virkja okkur flokksfélaga sína og annað áhugasamt fólk til þátttöku í þeim krefjandi verkefnum sem eru framundan. Þau eru mörg vandamálin sem þarf að leysa og við þurfum á öllum góðum hugmyndum að halda til að það megi takast.
Lausnirnar liggja í fólkinu og Dagur er rétti maðurinn til að laða þær fram.
Dagur nýr varaformaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.3.2009 | 20:35
Sjálfstæðisflokkurinn hrundi innanfrá
Ósköp reynist Geir erfitt að viðurkenna að hann og flokkurinn hans klúðruðu málum. Nú er hann búinn að biðjast afsökunar á einkavæðingu bankanna, 90% lánunum og skattalækkunum sem voru olía á eldinn en reynir samt eins og hann getur að klína einhverju á Samfylkinguna. Og hverju á Samfylkingin að hafa brotnað undan?
Heldur Geir að fólk muni ekki hvað Sjálfstæðisflokkurinn, ráðherrar hans og þingmenn voru veruleikafirrtir þegar fólk fór að mótmæla? Þegar þúsundir stóðu fyrir utan alþingishúsið og börðu potta og pönnur svo sjálfstæðismenn fipuðust í að tala um áfengi í búðum þá fóru þeir reiðir í fjölmiðla og töluðu um að það þyrfti að herða löggæsluna og fjölga í víkingasveitinni!
Þótt reiði fólks hefði verið orðin svo mikil að kvöld eftir kvöld voru kveiktir eldar á Austurvelli, og lögreglumenn sem stóðu varðstöðu um alþingishúsið voru grýttir nótt eftir nótt þá finnst Geir greinilega ennþá að það hafi verið veikleiki að hlusta á það sem fólk var að segja.
Að hans mati hefði væntanlega átt að beita fólk meiri hörku, kannski setja á útgöngubann á lýðinn svo hann sjálfur gæti spilað á fiðluna í ró og næði meðan hann horfði á landið brenna.
Staðreyndin er sú að allt frá því bankahrunið varð í október var formaður Sjálfstæðisflokksins sem lamaður. Hann vissi sem var að nú var allt hrunið og að það var allt honum sjálfum og hörmulegri efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins að kenna. Ofan í kaupið var hann svo með sinn gamla formann eins og grenjandi ljón yfir sér og þorði ekki að taka minnstu ákvörðun um nokkurn skapaðan hlut af ótta við að þeim gamla mislíkaði hún.
Samfylkingin í ríkisstjórn skynjaði vel óróann í samfélaginu, var með puttan á þjóðarpúlsinum. Enda ekki skrýtið því hvern mótmæladag tóku kjósendur flokksins og nánir samstarfsmenn þingmanna og ráðherra Samfylkingarinnar sér með stöðu með bræðrum sínum og systrum á Austurvelli og mótmæltu vanhæfri ríkisstjórn. Því það var hún sannarlega - og einkum af því stjórnandi hennar var algerlega heillum horfinn.
Það var stundum gert grín að því að það mætti ekki amast við mótmælendunum sem huldu andlit sín af því þar væru í raun þingmenn Sjálfstæðisflokksins eins og Sigurður Kári og Bjarni Ben að mótmæla sínum eigin flokki. Því miður er engin von til þess að svo hafi verið. Annars vegar af því að Hannesaræskan í Sjálfstæðisflokknum er gagnrýnislaus á flokkinn sinn og hins vegar af því að hún hefði ekki döngun í sér til að gagnrýna hann jafnvel þótt henni dytti það í hug.
Nei Samfylkingin brotnaði hvergi en hafði þvert á móti kjark til að höggva á hnútinn. Binda endi á skrípaleikinn. Sjálfstæðisflokkurinn hrundi hins vegar undan eigin þunga - innanfrá.
Samfylkingin brotnaði undan storminum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
24.3.2009 | 11:02
Ofgreiðsla arðs
Þessi tölvupóstur gengur nú manna á milli. Það verður að vera pláss fyrir smá húmor.
Simmi reiknar ekki með að arðgreiðslur fyrir árið 2008 verði nema kannski helmingur af arði ársins 2007.
Eigandi Söluturns Simma greiddi sjálfum sér arð af rekstri félagsins á síðasta ári, 10 milljarða króna, þrátt fyrir að söluturninn hafi ekki skilað nema 5.000 króna hagnaði.
Þetta var nú bara tala sem ég áætlaði. Ég var ekkert að reikna þetta í drep. Ég hafði rosalega góða tilfinningu fyrir rekstrinum, var með margar mjög sterkar spólur í leigu, Spædermann þrjú og svona - þannig að ég ákvað bara að tríta mig aðeins," segir Simmi, en viðurkennir um leið að hann hafi aðeins farið fram úr sér.
Ég vona bara að stjórnvöld sýni þessu skilning og komi með pening inn í reksturinn. Það hefur aldrei verið jafn mikilvægt og nú að halda þessum litlu vídeóleigum gangandi."
23.3.2009 | 08:54
Hefur landafræðin breyst?
Einar gekk langt í pólitískum vinsældakaupum á kostnað annarra. Hann gaf út hvalveiðikvóta á leiðinni út úr ráðuneytinu til að gleðja ákveðinn hóp fyrir vestan og á Skaganum og hann gaf út 30 þúsund tonna þorskkvóta umfram það sem vísindamenn Hafró töldu skynsamlegt.
Hvort tveggja hefur skaðað viðskiptahagsmuni Íslands í ferðaþjónustu og útflutningi á fiski. Fiskkaupendur úti í heimi eru farnir að spyrja sig alvarlegra spurninga um hvað hin séríslenska vottun "Iceland Responsible Fisheries" táknar í raun.
Það er á Einari að skilja að landafræðin í kjördæminu hafi breyst frá því fyrir tveimur árum. Mig minnir endilega að Snæfellsnesið hafi verið þarna 2007 líka.
Mun að sjálfsögðu taka þetta sæti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.3.2009 | 20:10
Fast skotið á ættarlaukinn
Kristján skýtur föstum skotum á ættarlauk Engeyjarættarinnar og segist aldrei hafa fengið pólitískan frama eða völd á silfurfati. Það er auðvitað rétt af honum að undirstrika þennan mun sem er á þeim tveimur honum og Bjarna Ben.
Heyrði um daginn tvö slagorð sem gárungar voru búnir að búa til fyrir Bjarna;
- Bjarni Ben - góð gen!
- N1 í boði Engeyjarættarinnar
Það verður gaman að heyra hvort einhver slagorð fara á flug f.h. Kristjáns - það má ekki skilja útundan.
Kristján Þór í formannskjör | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.3.2009 | 14:54
Fagnaðarefni
Félagar í Samfylkingunni í NV kjördæmi hljóta að samfagna Sjálfstæðismönnum yfir því mannvali sem þarna velst í efstu sæti á lista.
Einar efstur, Ásbjörn nú annar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.3.2009 | 22:46
Grafarvogsbúum sýndur fingurinn
Á þriðjudaginn var tæplega 60 ára gamall vatnstankur á Hallsteinshöfða ofan við Gufunes í Grafarvogi rifinn niður. Það var gert án samráðs við íbúa sem í átakinu 1, 2 og Reykjavík settu í 1. sæti ósk um að ofan á tankinum yrði útbúinn útsýnispallur með nestisaðstöðu, grindverkum og skiltum sem sýndu helstu örnefni á Sundunum, upplýsingar um náttúru svæðisins, sögu tanksins og áburðarverksmiðjunnar sem hann tilheyrði.
Hverfisráð Grafarvogs bókaði af þessu tilefni á miðvikudaginn var:
Í átakinu 1, 2 og Reykjavík var sérstaklega leitað eftir ábendingum íbúa um það sem mætti betur fara í nærumhverfinu. Þúsundir ábendinga bárust en það sem sett var efst á listann af íbúum Grafarvogs var að útbúa útsýnispall ofan á vatnstankinum á Hallsteinshöfða. Á fundi með íbúum 12. apríl 2008 lofaði borgarstjóri að þessi framkvæmd yrði sett í sérstakan forgang. Í ágúst 2008 kom í ljós að embættismenn borgarinnar höfðu gert mýflugu úr úlfalda - búið var að smækka hugmyndir íbúa niður í garðbekk og ruslafötu og til stóð að rífa vatnstankinn. Hverfisráð Grafarvogs leiðrétti þennan misskilning skilmerkilega, m.a. með bókun 18. ágúst, og fékk loforð um að vatnstankurinn yrði ekki rifinn og að bygging útsýnispalls á Hallsteinshöfða yrði útfærð í nánu samráði við Hverfisráðið. Hverfisráðið ítrekaði bókun sína 10. febrúar sl. en það næsta sem íbúar og Hverfisráðið vita er að í gær var búið að jafna umræddan vatnstank við jörðu. Á sama tíma og í orði kveðnu átti að fara fram samráð um þessa framkvæmd var í raun verið að undirbúa niðurrif tanksins.
Þetta er undarleg framkvæmd á samráðsverkefninu 1, 2 og Reykjavík - þessi vinnubrögð eru til skammar og Hverfisráðið fordæmir þau.
Af gefnu tilefni lagði Samfylkingin þessa fyrirspurn fram í borgarráði í gær:
Fyrirspurn um Vatnstank í Grafarvogi
Í fyrrakvöld var rifinn vatnstankur frá tímum Marshall-aðstoðarinnar í Grafarvogi. Þetta var gert þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar borgaryfirvalda, samþykktir hverfisráðs Grafarvogs og óskir íbúa um að vatnstankinum mætti umbreyta í frábæran útsýnisstað og gullmola í hverfinu. Sú hugmynd var ein þeirra sem eindregnasta stuðninginn fékk í íbúasamráðinu 1, 2 og Reykjavík.Spurt er:
- Hver tók ákvörðun um rif vatnstanksins?
- Hver er afstaða borgarrstjóra til þess?
- Hvernig verður unnið úr þeim skaða sem orðinn er og hverjar eru fyrirætlanir um svæðið?
- Hvers vegna hefur óskum íbúa úr 1, 2 og Reykjavík ekki verið fylgt eftir?
- Hver hefur umsjón með eftirfylgni verkefnisins?
- Hvað líður ákvörðunum um einstök verkefni og hugmyndir úr 1, 2 og Reykjavík?
20.3.2009 | 20:00
Hefði þá ekki þurft að skipta um fólkið?
Fólkið brást, ekki stefnan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.3.2009 | 08:45
Varhugavert hjá Sigmundi
Sigmundur langfrændi minn veit sem er að ef Framsókn á að eiga möguleika í borginni þarf aukið fylgi. Hann veit líka að það er ósennilegt að hann sæki það til Vg - svo rótgróin er andúð þess flokks orðin á Framsókn. Helsti sénsinn er að sækja inn á miðjuna til Samfylkingar.
Undir stjórn Framsóknarflokksins var farið í mestu glæfraför íslandssögunnar - að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð. Það voru aukinheldur kosningaloforð Framsóknar um 90% húsnæðislánin sem komu fasteignabólunni af stað og kosningaloforð Framsóknar í NA um risaálver til að bjarga Austfjörðum er annar stór orsakavaldur í þenslubólunni sem hér var blásin upp á síðustu árum. Og talandi um að blása upp þá vita allir hvernig peningaöflin hafa reglulega blásið Framsókn upp eins og afmælisblöðru rétt fyrir kosningar til að halda stöðu sinni við kjötkatlana.
Sigmundur ætti því að tala varlega um loftbólur.
Undrandi á orðum Sigmundar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |