Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Vandræðalegt

Hér er "gengið hreint til verks" og Gulla sópað undir teppið!

Sjálfstæðisflokkurinn endurprentaði bæklinginn sinn og skipti Guðlaugi Þór út fyrir Kristján Þór á forsíðunni. Ástæðulaust að minna um of á "styrkina" sem FLokkurinn krafðist af þeim fyrirtækjum sem fengu að fjárfesta í orkuauðlindum landsmanna.

Nýja útgáfan er til vinstri en sú upprunalega til hægri.

hvar-er-gulli-baeklingur-xd

Þjóðin ræður

Við glímum við ónýtan gjaldmiðil og vantraust umheimsins. Við þurfum að taka upp evru og senda erlendum viðskiptavinum okkar skýr skilaboð um hvaða stefnu við ætlum að taka eftir hrunið.

Auðvitað eigum við að sækja um aðild og ganga til samninga. Þjóðin greiðir svo atkvæði um niðurstöðuna. Ég skil ekki af hverju svo margir flokkar vilja koma í veg fyrir að þjóðin fái að segja álit sitt á slíkum samningi. Af hverju vilja þeir fyrirfram segja nei fyrir hönd þjóðarinnar?


mbl.is ESB-viðræður í júní?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grímuklædd kosningabarátta er heigulsháttur

BjarniBenÞað virðist vera að Sjálfstæðisflokkurinn þori ekki að taka þátt í kosningabaráttu undir eigin nafni. Það er vegið úr launsátri.

Auglýsingar með upplognum ásökunum á hendur Samfylkingu og Vg eru birtar fyrir hundruð þúsunda á degi hverjum af aðilum sem vilja ekki láta nafs síns getið. Hver skyldi borga þær?

Nú ráðast grímuklæddir aðilar inn á kosningaskrifstofu Samfylkingarinnar og sletta (hrærðu) skyri á starfsfólk og húsbúnað. Enginn lýsir ábyrgð á hendur sér eða upplýsir um tilganginn með þessum gjörningi.

Spilling er eitthvað sem maður bjóst alveg við af Sjálfstæðisflokknum. Heigulsháttur ætti kannski ekki að koma á óvart en gerir það samt. Óþægilega.

Ætlar hinn "hrærði" formaður að láta þetta viðgangast? Finnst honum þetta vera rétta leiðin til að endurvekja traust almennings á Sjálfstæðisflokknum?


mbl.is Slettu skyri í kosningaskrifstofu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB fyrir unga fólkið

Þessi auglýsing frá ungum jafnaðarmönnum er bráðskemmtileg.


Fórnarlambsgerfið fer ránfuglinum illa

  • Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við stjórn í 18 ár
  • Sjálfstæðisflokkurinn er höfuðpaurinn í einkavinavæðingunni
  • Sjálfstæðisflokkurinn er uppvís að því að efna til lokaðs uppboðs FL Group og Landsbankans um einakaðgang að orkuauðlindum Íslands þar sem ágóðinn rann til Flokksins
  • Sjálfstæðisflokkurinn er höfundur og aðalgerandi í peningamálastefnunni - vítisvél efnahaglífsins sem nú er búinn að koma fyrirtækjum og heimilum á kaldan klaka
  • Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuðábyrgð á langri röð efnahagsmistaka sem felast meðal annars í þensluhvetjandi aðgerðum, afnámi bindiskyldu, 90% húsnæðislánum, andstöðu við almennan leigumarkað og lækkun skatta ofan í þenslu.
  • Sjálfstæðisflokkurinn hefur með óábyrgum hætti komið í veg fyrir alla vitræna umræðu um ESB og gjaldeyrismál
  • Sjálfstæðisflokkurinn sagði síðast: "Þegar öllu er á botninn hvolft snýst málið um trausta efnahagsstjórn". Nú er flokkurinn búinn að koma okkur á botninn

Fórnarlambsgerfið fer ránfuglinum illa. Sjálfstæðiflokkurinn er búinn að koma þessu þjóðfélagi á hausinn og væri sæmst að biðja þjóðina afsökunar í stað þess að verða sér enn frekar til skammar með því að brigsla öðrum um þekkingarskort á efnahagsmálum.


mbl.is Þarf að vinna litla sigra á hverjum degi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirtækin flýja krónuna

Á fundi Samfylkingar um aðgerðir í efnahagsmálum á Grand Hóteli í morgun kom fram hjá Vilhjálmi Þorsteinssyni stjórnarformanni CCP að fyrirtækið hefur boðið starfsfólki sínu á Íslandi að fá laun greidd í Evrum. Nánast hver einasti starfsmaður hefur þegið það boð.

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, sagði augljóst að ef við ekki stígum skrefið til fulls, sækjum um aðild að ESB og tökum upp evru sem gjaldmiðil mun evruvæðingin gerast með þessum hætti. Allir sem möguleika eiga á munu þá taka upp evru en almennt launafólk sitja eftir í krónunni.

Í erindi Aðalsteins Leifssonar, prófessors hjá HR, um leiðir til að ná stöðugleika í efnahagsmálum, kom fram að meðalfjölskylda með um 20 milljóna króna húsnæðislán þarf að borga 700 þúsund krónur meira í vexti af sínum húsnæðislánum en t.d. í Hollandi þar sem vextir eru 7-8%. Hærra vöruverð veldur á að giska 300 þúsund króna álagi til viðbótar.

Lauslega áætlað er því meðalfjölskyldan að greiða um 1 milljón kr. á ári fyrir þau forréttindi að fá að nota íslenska krónu.

Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar Capital og Margrét Kristmannsdóttir, forstjóri Pfaff, tóku skýrt fram að án stöðugleika í gjaldmiðilsmálum er engin von til þess að við náum að byggja upp öflugt viðskiptalíf að nýju. Ástæðan er einföld - það er ekki hægt að gera áætlanir fram í tímann í gjaldmiðli sem enginn veit hvers virði er gagnvart erlendum viðskiptavinum og lánveitendum.

Samfylkingin er eini flokkurinn sem vill bregðast hratt við, sækja strax í vor um aðild að ESB og leggja niðurstöðu samninga í dóm þjóðarinnar eins fljótt og unnt er. Sumir flokkar vilja tefja málið og láta þjóðina kjósa um það hvort hún á að fara í samningaviðræður. Aðrir flokkar vilja fá að segja nei fyrir hönd þjóðarinnar.

Þeir sem vilja nota íslensku krónuna sem framtíðargjaldmiðil ættu að kjósa þá flokka. Þið hin sem viljið taka upp Evru og ná hér stöðugleika í efnahagsmálum og lækka vaxtabyrði heimilanna - Samfylkingin er ykkar eini kostur!


mbl.is Húsfyllir á fundi Samfylkingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkur í frí - framsóknarmaður næstur inn?

Þessi könnun segir það sama og almannarómur - Sjálfstæðisflokkurinn þarf á fríi að halda.
Jafnvel talsvert löngu. 

RVK norður

Það er athyglisvert að frambjóðandi Borgarahreyfingarinnar, sem fyrir skemmstu vildi vera frambjóðandi Framsóknarflokksins er næsti maður inn í kjördæminu.

Ætli Rvk N sé að eignast sinn Kidda sleggju í Þráni?


mbl.is Samfylking stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjörsreikningar opnaðir líka?

Auðvitað er sjálfsagt að menn sem hafa allt sitt á þurru gefi líka upp þá styrki sem þeir fengu persónulega í prókjöri sínu. Það þarf enga ríkisendurskoðun til þess. 


mbl.is Óskar úttektar á störfum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Haukur í horni Valhallar

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins heldur fast við framburð sinn um að hann hafi ekkert vitað af ofurstyrkjum FL group og Landsbankans til flokksins. Það stangast á við orð formanns flokksins sem var greinilega á annarri skoðun og eins orð Hauks Leóssonar en hann segist sem endurskoðandi reikninga flokksins hafa varað Kjartan við svo háum styrkjum.

Nú virðist vera búið að taka símann úr sambandi hjá Hauki því ekkert hefur heyrst frá honum um það hvernig orð hans og Kjartans geta komið heim og saman. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem Haukur man atburði öðru vísi en flokksfélagar hans. Frægt var í REI málinu þegar minningar hans og Vilhjálms Þ Vilhjálmssonar frá fundi þeirra með Bjarna Ármannssyni pössuðu illa saman. Fyrir þau sjálfstæðu minningarbrot mátti Haukur taka pokann sinn sem stjórnarformaður OR.

Á meðan Haukur var enn stjórnarformaður OR - og stuttu áður en tillögur voru settar fram um samruna REI og Geysir Green - fór hann í lax í Miðfjarðará með Vilhjálmi Þ Vilhjálmssyni þáverandi borgarstjóra, Birni Inga Hrafnssyni sem þá var formaður borgarráðs og varaformaður OR, Guðlaugi Þór Þórðarsyni þáverandi heilbrigðisráðherra og fyrrverandi stjórnarformanni OR og fjármálastjóra Baugs. Veiðileyfin voru skráð á Baug og allt benti til þess að veiðiferðin væri í boði Baugs.

Þegar málið komst í hámæli var talsvert síðan Haukur hafði verið gerður að blóraböggli fyrir vin sinn Vilhjálm í REI málinu. Haukur var þó fljótur að taka upp afþurrkunarklútinn og áður en nokkur fingraför fundust vottaði Haukur að hann hefði sjálfur keypt veiðileyfin af fjármálafulltrúa Baugs og boðið vinum sínum í lax. Það væri jafnframt alger tilviljun að allir þessir vinir hans tengdust Orkuveitunni en það ágæta fyrirtæki hefði ekkert borið í tal allan veiðitúrinn. Hvað þá hugmyndir um samruna REI og Geysis Green.

Líklega mun ekki nást í Hauk á næstunni svo hressa megi upp á minni Kjartans Gunnarssonar. Sannkallaður Haukur í horni hirðarinnar í Valhöll.


mbl.is Fráleitt að draga nafn Kjartans inn í atburðarásina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villandi samanburður

Miðað við þann illa grun sem ofurstyrkir tiltekinna fyrirtækja til Sjálfstæðisflokks hefur vakið er þetta auðvitað smáatriði.

Það er þó athyglisvert að Sjálfstæðisflokkur birtir aðeins upplýsingar um styrki yfir 1 milljón króna á meðan Samfylking birtir alla styrki yfir hálfri milljón og Framsókn birta yfirlit um alla styrki að upphæð 1 milljón eða meira.

Til að bera þetta saman væri gott að hafa a.m.k. yfirlit yfir styrki til Sjálfstæðisflokksins að upphæð 1 milljón eða meira.


mbl.is Fengu meiri styrki árið 2006
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband