20.5.2008 | 09:19
Frumbyggjaveiðar
Hvalveiðiástríða sjávarútvegsráðherra er þjóðerniskennd á villigötum.
Eins og öllum er ljóst er enginn markaður fyrir þetta kjöt og óverjandi að ríkið sé að greiða tugi milljóna í eitthvað sem engu skilar nema kostnaði.
Af hverju tónum við þetta ekki bara niður og köllum hlutina sínu réttu nöfnum? Það sem Íslendinga langar í er nógu mikið af kjöti til að geta fengið súrt rengi í þorrablótum og geta keypt hvalkjöt á grillið einu sinni á sumri til að veifa framan í útlenska vini sem koma í heimsókn.
Frumbyggjaveiðar upp á örfá dýr væri alveg nóg til að anna þessari eftirspurn. Og sefa þjóðerniskenndina sem ekki vill láta illa upplýst fólk í útlöndum banna sér neitt.
![]() |
Hagsmunum fórnað með veiðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.5.2008 | 18:16
Til hamingju Ísland
Þetta er góð niðurstaða hjá Skipulagsstofnun og gefur fyrirheit um að nú verði gengið hægar um gleðinnar dyr í virkjanamálum.
Orkuveita Reykjavíkur er fyrirtæki í fremstu röð í heiminum á sviði jarðhitavirkjana og vill efla orðspor sitt sem slíkt. Þá er ekki vænlegt að ráðast í vafasamar virkjanir, stunda ágenga orkuvinnslu og láta gullgrafarahugsun stjórna för.
Það þarf að afla betri upplýsinga um afleiðingar af nýtingu á jarðhitageyminn undir Henglinum, það þarf að kanna hvort þarna er um endurnýtanlega orku að ræða eða jarðhitanámu sem að lokum verður þurrausin, það þarf að finna betri leiðir til að nýta orkuna, 13% nýting er ekki ásættanleg.
Það þarf líka að þróa bortæknina lengra, bora dýpra og fá þannig aukna orku og bora í svæði eins og orkugeyminn undir Bitru/Ölkelduhálsi utan frá til að skaða ekki þá auðlind sem er ofan á jarðhitaauðlindinni.
Það hefur verið farið of hratt, menn hafa sett nafn sitt undir viljayfirlýsingar um orkusölu eins og þeir væru krakkar að skrifa í minningarbækur skólafélaga sinna. Nú hlýtur að þurfa að endurskoða slíkar yfirlýsingar því það er deginum ljósara að sú orka sem fæst úr Hverahlíðarvirkjun og Hellisheiðarvirkjun dugar ekki fyrir því sem er uppi í ermum stjórnarmanna OR.
Nú verður fróðlegt að sjá hver forgangsröðunin verður. Mun t.d. álver í Helguvík verða látið njóta forgangs fram yfir sólarrafhlöðuverksmiðju í Þorlákshöfn? Hvernig er staðan í Helguvík þá?
Væri ég einn af þeim fjárfestum sem bæjarstjórinn í Reykjanesbæ hefur fengið til að setja fé í óarðbæran 1. áfanga án þess að hafa nokkuð í höndunum fyrir því að farið verði í 2. áfanga svæfi ég ekki rótt.
![]() |
Bitruvirkjun út af borðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.5.2008 | 11:53
Illa upplýstir sóðar...
...eða misheppnaðir spaugarar!
Hvort er það?
![]() |
Götur miðborgar þaktar áróðri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.5.2008 | 18:01
Vantar einhvern antík borðstofuborð?
Það var verið að taka til í bílskúrnum í dag.
Þá varð fyrir mér antík borðstofuborð sem við hjónin keyptum fyrir 6 árum en erum hætt að nota.
Býsna laglegt en auðvitað ekki eins og nýtt.
Ef einhvern lesanda síðunnar vantar svona borð gegn vægu verði þá bíður það nýbónað úti á palli.
Upplýsingar í gsm 822 4504.
18.5.2008 | 10:54
Að endurbyggja Rauðhólana?
Í gær fór ég í afar fræðandi og skemmtilega ferð sem Orkuveita Reykjavíkur bauð stjórnar- og starfmönnum í um Heiðmörk og Elliðaárdalinn en hvort tveggja tilheyrir lendum Orkuveitunnar. Þar sem ég er í stjórn grænna svæða Orkuveitunnar taldi ég mér skylt að fara í þessa ferð en auk þess veit ég af fenginni reynslu að starfsmenn fyrirtækisins eru einkar snjallir að skipuleggja svona ferðir. Reyndar svo mjög að hver einasta ferðaskrifstofa væri fullsæmd af.
Því miður var enginn frá meirihlutanum nema hinn harðduglegi varaformaður OR, REI og formaður stjórnar grænna svæða OR, Ásta Þorleifsdóttir. Borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins var hvergi að sjá og mig er jafnvel farið að gruna að þeir hafi misskilið þetta með "Hjólað í vinnuna" og haldið að það væri eingöngu um helgar!
Við fengum stórskemmtilega fræðslu frá Skógræktarfélaginu um sögu Heiðmerkur og svo tók við hinn knái sagnfræðingur Stefán Pálsson og sagði m.a. frá ýmsu því sem Benedikt Sveinssyni á Vatni (Elliðavatni) datt í hug að taka sér fyrir hendur.
Því næst lá leiðin niður í Elliðaárdal þar sem við fræddumst um sögu rafmagnsframleiðslu og vatnsveitu í borginni og endaði í Rafheimum, skemmtilegu vísindasafni fyrir börn á öllum aldri.
Á leiðinni úr Heiðmörk lá leiðin fram hjá Rauðhólum og hinir víðfróðu leiðsögumenn fræddu gesti um það hvernig Rauðhólar hefðu verið grafnir sundur og efnið úr þeim notað sem undirlag undir flugvöllinn í Reykjavík.
Hrökk þá upp úr kunnum sagnfræðingi: "Nú þarf bara að selja Ólafi F þá hugmynd að endurbyggja Rauðhólana í upprunalegri mynd - þá er búið að redda þessu með flugvöllinn!"
16.5.2008 | 09:25
Gestaþraut
Hver hefur ekki glímt við gestaþraut? Sumar eru léttar en aðrar valda manni heilabrotum tímunum saman. Allar eiga þær það þó sameiginlegt að á þeim er til lausn. Það er bara spurning um hvenær maður kemur auga á hana.
Ein spennandi og virkilega ögrandi gestaþraut bíður núna úrlausnar uppi á Ölkelduhálsi eða Bitru eins og svæðið er stundum nefnt. Þrautin felst í því að þarna eru tvær auðlindir, önnur ofan á hinni. Ofan á verðmætum jarðhitageimi er einstaklega fjölbreytt og fallegt yfirborð, skreytt hverum af öllum stærðum og gerðum, heitum lækjum og ótal litbrigðum jarðarinnar. Báðar eru þessar auðlindir í almannaeigu.
Úr jarðhitageyminum vonast Orkuveita Reykjavíkur, fyrirtæki í almannaeigu, til að geta, með ágengri orkunýtingu, fengið orku sem nemur 135 MW. Gallinn er sá að aðferðin sem fyrirtækið hyggst nota kemur til með að hafa veruleg neikvæð áhrif á landslag, útivist og ferðaþjónustu á svæðinu. Það er ekki skrýtið, það er erfitt að koma heilli virkjun á borð við Hellisheiðarvirkjun fyrir án þess að nokkur taki eftir því.
Útaf fyrir sig er undarlegt að fyrirtæki sem vill skapa sér alþjóðlegt orspor fyrir þekkingu á sjálfbærri orku skuli beita ágengri orkunýtingu heima hjá sér. Á mannamáli þýðir þetta að þegar er búið að keyra virkjanirnar í nokkra áratugi þarf að hvíla svæðin í jafnlangan tíma á eftir. En látum það vera - leikum okkur aðeins með viðskiptahugmyndina Bitruvirkjun.
Við vitum að orka er stöðugt að hækka í verði. Sérstaklega "græn" orka. Ef það liggur fyrir að það sé aðeins hægt að nýta orkuna í nokkra áratugi, af hverju erum við þá að virkja allt sem hægt er núna og gera bindandi samninga um orkuverð langt fram í tímann? Erum við ekki að taka upp kartöflurnar í júní? Selja jólakort í ágúst?
Núverandi tækni nýtir aðeins um 13% af orku háhitasvæðanna en þróun í tækni sem virkjar varmamismun gæti bætt nýtinguna margfalt innan fárra ára. Eftir 5-10 ár er talið að tilraunir með djúpborun verði farnar að skila allt að sjöfalt meiri orku úr þeim svæðum sem þegar eru virkjuð.
Þróunin í bortækni undanfarin 10-15 ár hefur verið undraverð. Fyrir nokkrum dögum var í fréttum að búið er að bora holu sem er þrefalt dýpri en Esjan er há. Menn bora í dag fleiri hundruð metra á ská og taka beygjur djúpt niður í jörðinni til að hitta á nákvæmlega þann stað sem þeir vilja.
Á því er enginn vafi að eftir önnur 10-15 ár verður tæknin orðin margfalt betri en hún er í dag. Ekki síst af því heimurinn kallar eftir nýjum aðferðum við orkuöflun og fjármagn í rannsóknir hefur verið stóraukið. Eftir 10-15 ár er því næsta víst að það verður hægt að nýta orkuna undir Ölkelduhálsinum án þess að fara að nokkru leyti inn á hið verðmæta náttúrusvæði.
Borða það sem er inni í egginu án þess að brjóta skurnina.
Væri þá ekki sorglegt að hafa eyðilagt þá verðmætu auðlind sem er á yfirborði jarðhitageymisins? Ölkelduháls og nágrenni, eitt helsta og verðmætasta útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins? Höfum við ekki efni á að vera þolinmóð og bíða eftir að við rötum á réttu lausina?
Erum við ekki gestir?
Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu í morgun
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
15.5.2008 | 21:22
Takið þátt í skoðanakönnuninni!
![]() |
Lýsir stuðningi við Júlíus Vífil |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.5.2008 | 13:41
Meirihlutinn guggnaði á áskoruninni!
"Betri helmingurinn" lið sameinaðs minnihluta í borgarstjórn skoraði á meirihlutann í keppni í átakinu "Hjólað í vinnuna". Þetta var gert í trausti þess að meirihlutinn hefði þvottekta áhuga á því að efla hjólreiðar í borginni og gera þær að raunverulegum valkosti í innanbæjarsamgöngum.
Lengi vorum við dregin á svari og manni fór að líða eins og fjölmiðlamönnum sem oft enda fréttir sínar á orðunum "ekki náðist í borgarfulltrúa meirihlutans út af þessu máli". Á borgarstjórnarfundi á þriðjudaginn fyrir viku fengum við loks svar - meirihlutinn ætlaði að taka áskoruninni og veita okkur harða keppni.
Morguninn eftir var átakið opnað með pompi og prakt í Laugardalnum. Þar var hins vegar enginn sýnilegur frá meirihlutanum nema valtur borgarstjóri á lánshjóli og hinn kunni hjólakappi, sveitungi minn úr Grafarvoginum og varaborgarfulltrúi Ragnar Sær Ragnarsson.
Þegar ég skráði inn afrek Betri helmingsins að kvöldi miðvikudags, fimmtudags og föstudags leitaði ég að liði meirihlutans en fann hvergi. Ég hélt að ég hefði kannski ruglast eitthvað svo til öryggis lýsti ég eftir meirihlutanum og bað þá sem hefðu séð til þeirra á hjóli að láta mig vita. Engin slík tilkynning hefur enn borist.
Í gær átti ég fund í Umhverfis- og samgönguráði og notaði tækifærið til að komast til botns í þessu dularfulla meirihlutahvarfi. Þá kom í ljós að þeir sem áttu að sjá um að skrá liðið til leiks, halda utan um hópinn og skrá afrek hans höfðu hvor um sig haldið að hinn myndi gera það!
Þannig að kannski er rangt að segja að meirihlutinn hafi guggnað á áskoruninni. Réttara væri að segja að hann hefði glutrað málinu niður. Án þess að maður viti það dettur manni í hug að það hafi kannski ekki verið eining um hver ætti að vera liðsstjórinn, hvað liðið ætti að heita og þess vegna hafi þetta fallið milli skips og bryggju, svo að segja.
Sem betur fer er þetta bara leikur, það væri slæmt ef meirihlutinn stæði svona að öðrum og brýnni málum - ekki satt?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.5.2008 | 20:37
Gömul könnun!
Á www.visir.is er viðtal við Dag B Eggertsson sem
...segir könnunina fyrst og fremst endurspegla það flug sem hann segir 100 daga meirihlutann svokallaða hafa verið á. Hann bendir einnig á að könnunin hafi verið gerð fyrir liðlega mánuði síðan.
Ekki gleyma því að þetta var kannað áður en REI málið sprakk aftur, áður en Vatnsmýrarmálin fóru á flug og áður en vandræðin í kringum Fríkirkjuveg 11 litu komu upp á yfirborðið. Og ekki má gleyma vandræðunum í sambandi við ráðningu Jakobs F. Magnússonar."
Hann segist þess fullviss að ef svipuð könnun yrði gerð í dag myndi það skila sér í enn lakari útkomu fyrir Sjálfsæðismenn og betri útkomu fyrir hina flokkana sem skipuðu Tjarnarkvartettinn, en þau hafa staðið sig gríðarlega vel að undanförnu."
Eftir stendur að það er alveg sama hvað borgarbúum finnst. Sjálfstæðisflokkurinn og Ólafur F hanga saman á völdunum eins og hundur á roði. Enda það eina sem fólkið er sammála um.
![]() |
Fylgi Sjálfstæðisflokks minnkar mikið í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.5.2008 | 15:02
Síðasti dagur í dag...
...til að gera athugasemdir við tillögur sveitastjórnar Öfluss um breytingu á Aðalskipulagi á svæðinu við Ölkelduháls og Bitru.
Það mega allir gera athugasemdir við skipulagstillöguna og hægt er að nálgast uppkast að slíku bréfi á http://www.hengill.nu/
Athugið að það þarf að prenta bréfið út, undirrita það með nafni, kennitölu og heimilisfangi og senda í pósti. Það er opið til kl 18 á pósthúsunum.
Þeim sem vilja er velkomið að styðjast við mína athugasemd hér fyrir neðan.
13. maí 2008
Sveitarfélagið Ölfus
Hafnarbergi 1
815 Þorlákshöfn
Efni: Athugasemd við breytingu Aðalskipulags sveitarfélagsins Ölfuss 2002-2014 - atriði nr. 1 í auglýsingu er varðar Bitru; bygging allt að 135 MW jarðvarmavirkjun.
Ég undirritaður mótmæli breytingu Aðalskipulags sveitarfélagsins Ölfuss 2002-2014 - atriði nr. 1 í auglýsingu; 285 ha opnu, óbyggðu svæði á Bitru / Ölkelduhálsi sem að hluta er á náttúruminjaskrá og einnig skilgreint sem grannsvæði vatnsverndar, er breytt í iðnaðarsvæði fyrir jarðgufuvirkjun.
Hengilssvæðið og dalirnir austan, vestan og sunnan þess eru ein helsta útivistarparadís íbúa höfuðborgarsvæðisins og er skilgreint sem útivistarsvæði, staðfest af umhverfisráðherra í janúar 2005.
Fjölgun fólks í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu og nágrannasveitarfélögum s.s. í Hveragerði, Þorlákshöfn og Árborg gerir útivistarsvæði í nágrenni höfuðborgarinnar æ verðmætari.
Umrætt svæði er einnig afar verðmætt fyrir sveitarfélög, s.s. Ölfus sem á næstu árum og áratugum á mikla möguleika í uppbyggingu dreifðra íbúðarbyggða fyrir fólk sem bæði vill njóta nálægðar við náttúruna og höfuðborgarsvæðið.
Þá er ótalið mikilvægi Ölkelduháls/Bitru fyrir ferðaþjónustu en nú þegar ferðafólk sækir í mjög auknum mæli í dagsferðir út frá höfuðborginni en svæðið er einstakt fyrir fegurð og fjölbreytileika, enda hefur ferðamönnum í skipulögðum ferðum um það fjölgað ár frá ári og mun á næstu árum geta dregið til sín margfalt fleiri ef ekki verður virkjað. Hér er um mikil atvinnutækifæri að ræða fyrir íbúa Ölfus rétt eins og annarra sveitarfélaga.
Á Ölkelduhálsi/Bitru er um tvær auðlindir að ræða. Önnur er sú sem hér að ofan er lýst en hin er orkugeymirinn undir því fagra og fjölbreytta yfirborði. Eigi að nýta þá síðari með þeim hætti sem stefnt er að er sú fyrri eyðilögð. Þetta er skammsýni sem undirritaður mótmælir harðlega. Þróun í bortækni hefur verið hröð á undanförnum árum og nú þegar heimurinn gerir auknar kröfur um sjálfbæra orku er öruggt að þróunin á eftir að verða enn hraðari á næstu árum. Það er því nánast öruggt að innan tiltölulega fárra ára megi skábora í orkugeyminn undir Ölkelduhálsi/Bitru og virkja þannig þá orku sem þar er að finna án þess að koma með nokkurt einasta mannvirki inn á svæðið.
Undirritaður telur það vera skyldu okkar að varðveita umræddar náttúrperlur fyrir komandi kynslóðir og leggur til að í staðinn fyrir að breyta þessu frábæra útivistarsvæði í iðnaðarsvæði þá verði breytingin fólgin í því að friðlýsa svæðið. Í samræmi við það verði hugað að flutningi Búrfellslínu 3 þegar að endurnýjun hennar kemur, borplönin sem gerð voru án umhverfismats verði tekin upp eins og hægt er og svæðið fært sem næst upprunalegri mynd.
_________________________
Nafn, kennitala
heimilisfang.
![]() |
Hveragerði mótmælir áformum um Bitruvirkjun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)